Íslenski atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús var á meðal keppenda á Hangzhou Open
mótinu í Kína sem fór fram dagana 16.-19. október. Mótið var það næst seinasta á HotelPlanner Tour tímabilinu, en einungis 70 efstu kylfingar stigalistans voru á meðal keppenda.
Fyrstu tveir hringirnir
Haraldur lék gott golf á fyrsta hring og kom í hús á þremur höggum undir pari. Hann hóf leik á 10. holu og var á pari vallarins þegar þrjár holur voru eftir. Frábær fugl á sjöundu holunni og örn á þeirri áttundu komu okkar manni í mikið betri mál, en hann endaði daginn jafn í 22. sæti.

Annan hringinn lék Haraldur á pari vallarins. Hann fékk fimm fugla, þrjá skolla og einn tvöfaldan skolla. Eftir hringinn var Haraldur jafn í 55. sætinu á þremur undir pari og náði í gegnum niðurskurð.
Á seinustu tveimur hringjunum lék Haraldur stöðugt golf, fékk fimm fugla, þrjá skolla og fór upp um tíu sæti á stöðutöflunni. Með árangrinum fór Haraldur þó niður um eitt sæti á stigalista mótaraðarinnar, í 63. sætið, og verður því ekki á meðal keppenda í lokamótinu. Þar leika efstu 45 kylfingar stigalistans.
Nick Carlson, kylfingur GM, er með fullan keppnisrétt á mótaröðinni og var einnig á meðal keppenda mótsins. Hann endaði tímabilið í 34. sæti stigalistans og verður á meðal keppenda lokamótsins.
Nick lék hringina tvo á tveimur höggum undir pari og var höggi frá því að ná í gegnum niðurskurð. Hann tapaði einungis þremur höggum á hringjunum tveimur, en vantaði einn fugl til viðbótar til að leika seinni tvo hringina.

Við munum fylgjast áfram með gengi Nick í lokamótinu í lok október og óskum honum góðs gengis.

