Forvarnir

Stefna GSÍ gegn einelti og ofbeldi

Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og annað ofbeldi er ekki liðið innan GSÍ. Meðvirkni í einelti, kynferðislegri áreitni eða öðru ofbeldi er einnig fordæmd. Ef upp kemur tilfelli eða grunur um að einelti, kynferðislega áreitni og/eða annað líkamlegt eða andlegt ofbeldi eigi sér stað innan golfhreyfingarinnar skal tilkynna það til samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, nema meintur þolandi hafni með sannanlegum hætti frekari aðgerðum í málinu.

Einelti

Einelti er skilgreint sem ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir samkvæmt reglugerð nr. 1009/2015. Mikilvægt er að hafa í huga að einelti er endurtekin neikvæð framkoma sem veldur vanlíðan þolandans en ekki einangrað tilvik.

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni

Stjórnendur og yfirmenn stofnana og félagasamtaka skulu gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk og iðkendur verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað eða við æfingar og leik.

Ef stjórnandi er kærður vegna meints kynbundins ofbeldis, kynbundinnar áreitni eða kynferðislegrar áreitni verður hann vanhæfur til að taka ákvarðanir í tengslum við starfsskilyrði kæranda á meðan meðferð málsins stendur yfir og skal þá næsti yfirmaður taka slíkar ákvarðanir.

Öryggi og barnavernd

GSÍ skuldbindur sig heilshugar til að vernda velferð leikmanna okkar, þjálfara, félagsmanna og starfsfólks. Í ungmennastarfi okkar er velferð og vellíðan í forgangi og við skuldbindum okkur til þess að skapa vettvang sem gerir iðkendum kleift að stunda sína íþrótt, lausa við einelti, ógn og mismunun. GSÍ mun fylgja þeim lagalegu kröfum sem ÍSÍ gerir um barnavernd og tryggja að allir sem vinna með leikmönnum okkar séu klárir á þeirri lagalegu ábyrgð sem þeir bera.

Barnavernd

Verndarar barna
Námskeiðið er ætlað fullorðnum sem bera ábyrgð á umönnum og verndun barna, sínum eigin eða annarra, einnig stofnunum og félagasamtökum sem bera ábyrgð á eða þjóna börnum og unglingum.

Markmið námskeiðsins er að virkja fullorðna í samfélaginu til að vernda börnin gegn kynferðislegu ofbeldi og vera öflug forvarnarfræðsla sem er ætluð til þess að kenna fullorðnum að fyrirbyggja, greina og bregðast við kynferðislegu ofbeldi. GSÍ hvetur alla sem starfa með börnum og unglingum að sækja þetta námskeið hjá Barnaheillum. 

Barnavernd – Netnámskeið
Netnámskeið fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Starfsfólk og sjálfboðaliðar sem vinna með börnum og ungmennum þurfa að þekkja mismunandi birtingarmyndir kynferðisofbeldis, eineltis og annars ofbeldis sem börn og ungmenni geta orðið fyrir og vita hvernig bregðast eigi við þegar slíkt kemur upp.

Tilgangurinn með aukinni þekkingu fólks á einelti, ofbeldi og áreitni sem börn og ungmenni geta orðið fyrir, er að reyna að koma í veg fyrir að slíkt komi upp í íþrótta- og æskulýðsstarfi og gera börnum og ungmennum auðveldara með að fá úrlausn slíkra mála þegar þau koma upp. GSÍ hvetur alla sem starfa með börnum og unglingum að sækja þetta netnámskeið Æskulýðsvettvangsins í barnavernd, en það er öllum opið og það er ókeypis.

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs

Samskiptaráðgjafi er óháður aðili sem styður við, leiðbeinir og aðstoðar þá sem hafa upplifað einhverskonar ofbeldi eða einelti í íþrótta- og/eða æskulýðsstarfi. 

Allir eiga rétta  því að geta stundað sitt íþrótta- og/eða æskulýðsstarf í öruggu umhverfi. Einnig eiga allir iðkenndur; börn, unglingar og fullorðnir óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti að geta leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa óttast afleiðingar. 

Markmið laganna er að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar. 

Jafnframt segir í lögunum að samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs er ekki heimilt að innheimta gjald af þjónustu sinni.

Nánari upplýsingar um samskiptaráðgjafa er að finna hér.

Viðbragðsáætlun íþrótta- og æskulýðsstarfs

Viðbragðsáætlunin er unnin í samráði við Bandalag íslenskra skáta, Íþróttabandalag Reykjavíkur, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, KFUM og KFUK, Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, Slysavarnafélagið landsbjörg, Ungmennafélag Íslands og Æskulýðsvettvanginn. 

Tilgangur samræmdrar áætlunar er að sporna við atvikum sem geta mögulega komið upp og leiðbeint starfsfólki, sjálfboðaliðum og fleirum til að bregðast eins og rétt við ef til þess kemur. Enda er best fyrir alla aðila máls, ef viðbrögð eru samræmd. 

Hér er að finna viðbragðsáætlunina og öll fylgiskjöl hennar.

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ