
Mótin sem eru hluti af GSÍ mótaröðinni 2025 eru 6. Mótin eru tvö Vormót, Korpubikarinn, Hvaleyrarbikarinn, Íslandsmótið í holukeppni og Íslandsmótið í golfi. Lagt er upp með að Korpu- og Hvaleyrarbikarinn verði árleg mót á mótaröðinni. Vormótin telja ekki til heimslista áhugamanna og eru minni í sniðum en Korpubikarinn, Hvaleyrarbikarinn og Íslandsmótin tvö.
Áhersla er lögð á að mótin á GSÍ mótaröðinni skarist sem minnst við sterk alþjóðleg áhugamannamót sem eykur líkurnar á því að okkar bestu áhugakylfingar geti tekið þátt í okkar stærstu mótum hérlendis.
Karlar og konur keppa ekki á sama tíma í Íslandsmótinu í holukeppni. Með þessari breytingu geta fleiri keppendur tekið þátt þar sem 36 holur höggleikur sker úr um hvaða 16 keppendur keppa í útsláttarkeppni í holukeppni um Íslansmeistaratitilinn. Íslandsmótið í golfi fer fram á Hólmsvelli í Leiru hjá Golfklúbbi Suðurnesja dagana 18.-21. júlí.
Að auki verða haldin tvö haustmót en þessi mót eru með meiri sveigjanleika en mótin á GSÍ mótaröðinni. Haustmótin telja ekki á stigalista GSÍ og telja ekki á heimslista áhugamanna. Mótin bjóða upp á fjölbreytileika hvað varðar fjölda þátttakenda, fjölda hola, leikfyrirkomulag o.s.fr. Þátttökugjald í mótin verða hærri og munu þeir kylfingar sem enda á meðal 25% efstu kylfinganna hljóta verðlaunafé. Eitt af markmiðunum með mótunum er að höfða til fleiri kylfinga sem hafa ekki tekið virkan þátt í mótahaldi afrekskylfinga undanfarin ár.
Jafnframt verða tvö mót haldin eingöngu fyrir kylfinga á aldrinum 19-23 ára þar sem umgjörð mótanna verður í lágmarki. Meginmarkmið mótanna sem bera nöfnin heimslistamót er að telja til stiga á heimslista áhugamanna.