Annar keppnisdagur
Okkar kylfingar léku vel á öðrum keppnisdegi höggleiksins. Að honum loknum kom í ljós hvaða 64 kylfingar færu áfram í útsláttarkeppni mótsins, þar sem leikin er holukeppni.
Tómas Hjaltested hélt áfram góðu gengi og komst örugglega áfram, og mun því leika í næsta stigi mótsins. Hann lék seinni hring sinn á 71 höggi, einum yfir pari.

Tómas mætir hinum franska Paul Beauvy í 64 manna úrslitum mótsins. Beauvy lék hringina tvo á sex höggum undir pari og varð jafn í sjötta sæti eftir höggleikinn. Það stefnir því í hörkuleik. Við munum fylgjast með viðureigninni á samfélagsmiðlum GSÍ.
Logi Sigurðsson var höggi frá niðurskurðarlínunni eftir fyrri hring höggleiksins. Hann lék annan hringinn mjög vel og var á tímabili þrjá undir pari. Tveir skollar á síðustu þremur holunum reyndust honum dýrir. Logi endaði jafn í 60. sæti mótsins og þurfti bráðabana til að skera úr hvaða kylfingar færu áfram. Þar mættu 24 kylfingar og léku um 5 laus sæti í útsláttarhluta mótsins.
Eftir öruggt par á fyrstu holu bráðabanans var eitt sæti farið. Skolli á annarri holu bráðabanans þýddi að Logi komst ekki áfram þrátt fyrir flotta spilamennsku í mótinu.

Hinir íslensku kylfingarnir léku allir vel á seinni hringnum, en því miður dugði það ekki til.
Gunnlaugur Árni Sveinsson endaði jafn í 105. sæti mótsins eftir hring upp á 68 högg á seinni degi.
Veigar Heiðarsson endaði jafn í 155. sæti eftir hring upp á 69 högg. Veigar var kominn fimm undir par eftir tólf holur, en skollar á endasprettinum komu í veg fyrir að hann færi áfram.
Dagbjartur Sigurbrandsson endaði jafn í 183. sæti mótsins. Hann lék annan hringinn á pari vallarins.
Guðjón Frans Halldórsson lék seinni hringinn einn yfir pari og endaði jafn í 206. sæti.
Flottur hópur sem hefur verið gaman að fylgjast með. Nú verða öll augu á Tómasi í holukeppninni.
Fyrsti keppnisdagur
Fyrri dagur höggleiksins fór fram í dag á Royal St. George’s og Royal Cinque Ports. Efstu 64 kylfingarnir úr höggleiknum komast áfram í næstu umferð mótsins, og er niðurskurðarlínan á einum undir pari.
Gunnlaugur Árni Sveinsson fór fyrstur út í morgun og byrjaði með látum. Hann sló í fyrir erni á fyrstu holu, 88 metra högg sem endaði í miðri holunni.
Aðstæður refsuðu okkar mönnum í dag og margir skollar á fyrri níu einkenndu hringina. Gunnlaugur lauk leik á þremur yfir pari, en Veigar, Guðjón og Dagbjartur á fimm yfir pari.
Tómas Eiríksson Hjaltested lék best af okkar kylfingum í dag. Hann opnaði hringinn á þremur fuglum og erni, og var fimm undir pari eftir sex holur. Tveir skollar á seinni níu holunum skiluðu Tómasi 69 höggum, og 18. sæti mótsins. Hann er því í góðri stöðu fyrir seinni hring sinn, sem verður á Royal St. George’s.

Logi Sigurðsson fór síðastur af stað, en hann lék hringinn á Royal St. George’s. Logi lék stöðugt golf allan tímann, fékk tvo fugla og tvo skolla á leið sinni að hring á pari vallarins. Hann er jafn í 91. sæti mótsins og einungis höggi frá niðurskurðarlínunni.

Það verður spennandi að fylgjast með þeim á morgun. Allir eiga þeir möguleika á góðu skori og sæti í útsláttarkeppninni.
Staða íslensku kylfinganna eftir 18 holur:
Sæti | Kylfingur | Skor | Völlur |
T18 | Tómas Eiríksson Hjaltested | -3 | RCP |
T91 | Logi Sigurðsson | E | RSG |
T183 | Gunnlaugur Árni Sveinsson | +3 | RCP |
T239 | Veigar Heiðarsson | +5 | RCP |
T239 | Guðjón Frans Halldórsson | +5 | RSG |
T239 | Dagbjartur Sigurbrandsson | +5 | RSG |
Sex íslenskir kylfingar hefja leik á Opna breska áhugamannamótinu (The Amateur Championship) í dag. Mótið fer fram dagana 16.-21. júní á tveimur völlum í Kent, Englandi: Royal St. George’s og Royal Cinque Ports. Þar mætast 288 af bestu áhugakylfingum heims.
Hægt er að fylgjast með skori mótsins hér
Okkar kylfingar
- Dagbjartur Sigurbrandsson og Tómas Eiríksson Hjaltested spiluðu sig inn í mótið í gegnum úrtökumót 13. júní. Þar mættu til leiks 72 kylfingar sem léku um 23 laus sæti í mótinu. Bæði Dagbjartur og Tómas léku hringinn á tveimur höggum undir pari og komust örugglega áfram.
- Gunnlaugur Árni Sveinsson, Logi Sigurðsson, Veigar Heiðarsson og Guðjón Frans Halldórsson fóru beint inn í mótið vegna sterkrar stöðu á heimslista áhugamanna.

Á fyrstu tveimur hringjum mótsins er leikinn höggleikur. Allir kylfingar leika 18 holur á hvorum vellinum, annan hringinn í dag og hinn á morgun. Eftir þessa fyrstu tvo hringi komast 64 efstu kylfingarnir áfram í útsláttarhluta mótsins. Þar er leikin holukeppni sem hefst strax að öðrum hring loknum. Í henni mætast kylfingar einn á móti einum þar til einungis tveir standa eftir. Úrslitaviðureignin er sýnd um allan heim og verður þar leikin holukeppni yfir 36 holur.
Sigurvegari mótsins vinnur sér inn þátttökurétt á Opna breska meistaramótinu, Opna bandaríska meistaramótinu sem og á Masters mótinu. Það er því til mikils að vinna.

Vellirnir
- Royal St. George’s GC: Notaður í höggleikinn og holukeppnina. Links völlur, par 70 (6.400m), stofnaður 1887 og hefur hýst Opna breska áhugamannamótið 13 sinnum
- Royal Cinque Ports GC: Einungis notaður í höggleikinn. Links völlur, par 72 (6.600m), stofnaður 1892.

Rástímar(að íslenskum tíma)
Royal Cinque Ports
07:51 Gunnlaugur Árni Sveinsson
11:58 Tómas Eiríksson Hjaltested
12:47 Veigar Heiðarsson
Royal St. George’s
09:52 Dagbjartur Sigurbrandsson
11:58 Guðjón Frans Halldórsson
14:04 Logi Sigurðsson
Ólafur Björn Loftsson verður á svæðinu næstu daga og mun sýna frá okkar mönnum á Instagram og Facebook reikningum GSÍ.