GSÍ fjölskyldan
/

Deildu:

Auglýsing

Íslandsmótið í holukeppni 2025 í karlaflokki fer fram á Hlíðavelli Golfklúbbs Mosfellsbæjar dagana 21.-23. júní.

Rástímar fyrir 8 undanúrslit og úrslit eru aðgengileg í Golfbox.

Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit.

Annar keppnisdagur

Eftir höggleikinn á fyrsta keppnisdegi var ljóst hvaða kylfingar myndu mætast 16 manna úrslitum Íslandsmótsins í holukeppni. Aðstæður voru frábærar í dag og nýttu kylfingar sér það til fulls.

Fyrstir fóru út þeir Logi Sigurðsson, ríkjandi meistari mótsins, og Kristófer Orri Þórðarson, sem komst inn í holukeppnina í gegnum bráðabana. Báðir lék þeir frábærlega. Logi endaði hringinn þremur höggum undir pari, en Kristófer fimm undir og sigraði með tveimur holum.

Skorið í 16 manna úrslitunum var frábært. Svo gott sem allir kylfingarnir léku hringi sína undir pari og var hart barist um sæti í 8 manna úrslitunum.

Tómas Eiríksson Hjaltested og Aron Emil Gunnarsson léku báðir sex undir pari í einvígi sínu. Þeir héldu áfram í bráðabana þar sem Tómas hafði betur á 19. holunni.

Þetta var ekki eini leikurinn sem fór í bráðabana. Aron Snær Júlíusson og Axel Bóasson voru jafnir eftir 18 holur. Aron fékk góðan fugl á 19. holunni og sigraði leikinn þar.

Lengst fóru þó Veigar Heiðarsson og Böðvar Bragi Pálsson. Hringur upp á 65 högg frá Veigari dugði ekki til, og þeir héldu áfram á 19. holuna. Eftir fjögur pör frá báðum kylfingum var kominn tími á töfra. Veigar fékk fugl, en Böðvar fékk ótrúlegan örn og sigraði leikinn á 23. holu.

Önnur úrslit umferðarinnar má sjá hér að neðan.

Eftir hádegi fóru 8 manna úrslitin af stað. Leikirnir voru:

  • Tómas Hjaltested gegn Kristófer Orra
  • Böðvar Bragi gegn Andra Þór
  • Arnar Daði gegn Gunnari Þór
  • Aron Snær gegn Kristjáni Þór

Tómas hélt áfram frábærri spilamennsku sinni og lék átta undir pari í leik sínum gegn Kristófer Orra. Kristófer lék einnig mjög vel í leiknum, en Tómas hafði að lokum betur 3/2.

Leikur Böðvars og Andra var sá síðasti í umferðinni, þar sem Böðvar tók sinn tíma í að sigra leik sinn í 16 manna úrslitunum. Leikurinn var jafn allan tímann og voru þeir báðir í forystu á tímabili. Sjö fuglar Böðvars reyndust lykillinn að sigrinum, en leiknum lauk á 18. holu, 1/0.

Arnar Daði og Gunnar Þór, liðfélagar úr GKG, mættust eftir góða sigra fyrr um daginn. Arnar sigraði leikinn 3/2, og er nú skollalaus í 44 holur. Frábær árangur hjá Arnari, sem er fæddur 2009 og yngsti kylfingurinn í undanúrslitunum.

Aron Snær mætti heimamanninum Kristjáni Þór. Aron var með yfirhöndina meirihluta leiksins, fékk átta fugla og sigraði að lokum 3/1.

Á morgun fara fram undanúrslit og úrslit mótsins. Allir eiga þeir góðan möguleika á sigri og verður spennandi að fylgjast með.

  • Tómas Hjaltested gegn Böðvari Braga kl. 07:45
  • Aron Snær gegn Arnari Daða kl. 07:53

Fyrsti keppnisdagur

Aðstæður dagsins voru krefjandi á köflum, en skorið var gott þrátt fyrir það. Hlíðavöllur er í frábæru standi og var vel tekið á móti keppendum á bæði 1.- og 10. teig.

84 kylfingar voru skráðir í mótið. Fyrirkomulag dagsins var 36 holu höggleikur, þar sem efstu 16 kylfingarnir kæmust áfram í útsláttarhluta mótsins.

Á fyrri hringnum var hart barist, og ljóst að ekki myndi muna miklu á milli efstu manna.

Róbert Leó Arnórsson, kylfingur GKG lék fyrsta hringinn best. Hann lauk leik á 66 höggum, fimm undir pari. Róbert lék fyrri níu holurnar á pari og þær seinni fimm undir pari. Hann fékk sjö fugla og einn tvöfaldan skolla, og leiddi með tveimur höggum þegar höggleikurinn var hálfnaður.

Fyrsti hringur Róberts

Tómas Eiríksson Hjaltested og Veigar Heiðarsson léku fyrri hringinn næstbest, á 68 höggum. Tómas, sem er nýkominn heim af Opna breska áhugamannamótinu, var að eigin sögn frekar þreyttur á fyrri níu holunum. Hann kom inn á 38 höggum, en var bjartsýnn fyrir seinni helmingnum.

Ég þarf bara að sulla í mig einum hvítum monster – Tómas Eiríksson Hjaltested, eftir níu holur

Seinni níu holurnar lék Tómas nánast óaðfinnanlega, spilaði þær sex undir pari, og mátti engu muna að hann hefði farið undir 30 höggin. Hann var því í kjörstöðu þegar átján holur höfðu verið leiknar af mótinu.

Fyrri hringur Tómasar

Hringur Veigars var töluvert stöðugri, en hann lék bæði fyrri og seinni níu holurnar á 34 höggum. Agaður leikur Veigars og góð högg með fleygjárnum einkenndu hringinn. Hann var bjartsýnn fyrir seinni hring dagsins, og var einbeittur að sjá.

Fyrri hringur Veigars

Þegar mótið var hálfnað var farið að móta fyrir hvaða kylfingar ættu möguleika á að ná einu af efstu 16 sætunum. Á einum tímapunkti voru átta kylfingar jafnir á pari vallarins, í 12.-19. sæti. Höggi á eftir þeim voru níu kylfingar á einum yfir, sem voru ákveðnir að sækja fugla á seinni hring dagsins.

Staðan á tímabili

Aðstæður á seinni hringnum voru nokkuð erfiðari en á þeim fyrri. Farið var að rigna á keppendur og vindurinn reyndist mörgum erfiður.

Meðalskorið hækkaði lítillega á milli hringa og var 76.1 högg, samanborið við 76 högg á fyrri hring.

Ríkjandi Íslandsmeistari karla í holukeppni, Logi Sigurðsson, lék best allra á seinni hringnum, og í höggleiknum í heild sinni. Logi var þrjá yfir pari eftir ellefu holur á fyrri hring dagsins en setti þá í annan gír. Hann lék síðustu sjö holur fyrri hringsins þrjá undir pari og seinni hringinn á fjórum undir pari. Á seinni hringnum fékk Logi fimm fugla og einn skolla, sem skilaði honum 67 högga hring og skori upp á fjóra undir par í heildina.

Annar hringur Loga

Hástökkvarar seinni hringsins voru þeir Aron Emil Gunnarsson og Böðvar Bragi Pálsson. Báðir léku þeir seinni hringinn á 69 höggum, eftir að hafa leikið fyrri hringina á 74 og 75 höggum. Aron fór upp um nítján sæti á milli hringja, á meðan Böðvar tók stökk upp um tuttugu sæti.

Að höggleiknum loknum var þó enn ekki ljóst hvaða kylfingar kæmust áfram í holukeppnina. Fimm kylfingar voru jafnir í 13.-17. sæti, og þurftu því að leika um fjögur laus pláss í úrslitunum. Það voru þeir Böðvar Bragi Pálsson, Axel Bóasson, Kristófer Orri Þórðarson, Arnar Daði Svavarsson og Jóhannes Guðmundsson. Bæði Arnar Daði og Jóhannes tryggðu sig inn í bráðabanann með fugli á 18. holunni.

Fyrsta hola bráðabanans var 10. holan. Axel, Kristófer og Arnar Daði slóu að gríni í upphafshögginu á meðan Jóhannes og Böðvar slóu járn af teig. Bæði Axel og Arnar hittu flötina og áttu pútt fyrir erni, en allir áttu þeir góðan séns á fugli. Axel og Arnar tvípúttuðu fyrir fuglinum og Böðvar fékk einnig frábæran fugl. Púttin geiguðu hjá Kristófer og Jóhannesi, sem héldu áfram á 11. holuna og léku um eitt laust sæti.

Á 11. holunni fengu þeir báðir par, Kristófer missti fuglapútt sitt og Jóhannes setti gott pútt í fyrir pari.

Síðasta hola bráðabanans var 18. holan. Þar hitti Kristófer flötina á meðan Jóhannes var rétt fyrir utan. Tvípútt og par dugði fyrir sigrinum og Kristófer Orri því á leið í 16 manna úrslitin.

Mótið heldur áfram á morgun, en þá hefst holukeppnin sjálf.

Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit í höggleiknum:

Fyrirkomulag mótsins er 36 holu höggleikur, þar sem 16 efstu kylfingarnir komast áfram í holukeppnina. Þaðan hefst útsláttarkeppni sem lýkur mánudaginn 23. júní, þar sem Íslandsmeistari karla í holukeppni er krýndur.

Dagskrá mótsins:

  • Laugardagur 21. júní – 36 holu höggleikur
  • Sunnudagur 22. júní – 16 og 8 manna úrslit
  • Mánudagur 23. júní – undanúrslit og úrslit

Keppendur eru alls 84 og koma þeir frá 12 mismunandi klúbbum. Flestir keppendur eru frá Golfklúbbnum Keili, eða 20 talsins. Golfklúbbur Reykjavíkur er með 19 keppendur og Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar er með 13.

Á keppendalistanum eru m.a. fyrrum Íslandsmeistararnir Axel Bóasson, Aron Snær Júlíusson, Sigurður Bjarki Blumenstein, Rúnar Arnórsson og Kristján Þór Einarsson. Einnig er efsti maður stigalistans, Tómas Eiríksson Hjaltested, skráður í mótið en hann er kominn í 32 manna úrslit Opna breska áhugamannamótsins. Með áframhaldandi góðu gengi í því móti mun hann ekki ná rástímanum sínum á laugardaginn í Mosfellsbæ. Ríkjandi Íslandsmeistarinn Logi Sigurðsson er á meðal keppenda og stefnir að því að verða annar karlkylfingurinn til að verja titil sinn í mótinu.

KlúbburFjöldi
1Golfklúbbur Akureyrar5
2Golfklúbbur Hveragerðis1
3Golfklúbbur Ísafjarðar2
4Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar13
5Golfklúbbur Mosfellsbæjar7
6Golfklúbbur Reykjavíkur19
7Golfklúbbur Selfoss4
8Golfklúbbur Suðurnesja3
9Golfklúbbur Vestmannaeyja1
10Golfklúbburinn Keilir20
11Golfklúbburinn Leynir4
12Nesklúbburinn5

Meðalforgjöfin í mótinu er +0.75, forgjafarlægsti kylfingurinn er með +6.1 og sá forgjafarhæsti með 4.2.

Alls hafa 26 kylfingar fagnað þessum titli í karlaflokki frá árinu 1988 þegar Íslandsmótið í holukeppni fór fyrst fram.

Birgir Leifur Hafþórsson er sigursælastur með alls fjóra titla 1994, 1996, 2004 og 2010. Björgvin Sigurbergsson er með þrjá titla, 1992, 1998 og 200.

Sex leikmenn hafa sigrað tvívegis, Úlfar Jónsson (1988 og 1993), Haraldur Heimisson (2001 og 2003), Ottó Sigurðsson (2005 og 2007), Kristján Þór Einarsson (2009 og 2014), Axel Bóasson (2015 og 2020) og Rúnar Arnórsson (2018 og 2019). Rúnar er sá eini sem hefur náð að verja titilinn í karlaflokki í þau 36 skipti sem mótið hefur farið fram.

ÁrNafnKlúbburFjöldi titlaStaðsetning
1988Úlfar JónssonGK1Hólmsvöllur, GS
1989Sigurður PéturssonGR1Grafarholtsvöllur, GR
1990Sigurjón ArnarssonGR1Hvaleyrarvöllur, GK
1991Jón KarlssonGR1Strandarvöllur, GHR
1992Björgvin SigurbergssonGK1Hólmsvöllur, GS
1993Úlfar JónssonGK2Hvaleyrarvöllur, GK
1994Birgir Leifur HafþórssonGL1Strandarvöllur, GHR
1995Örn ArnarsonGA1Grafarholtsvöllur, GR
1996Birgir Leifur HafþórssonGL2Hólmsvöllur, GS
1997Þorsteinn HallgrímssonGV1Hvaleyrarvöllur, GK
1998Björgvin SigurbergssonGK2Grafarholtsvöllur, GR
1999Helgi ÞórissonGS1Hólmsvöllur, GS
2000Björgvin SigurbergssonGK3Strandarvöllur, GHR
2001Haraldur HeimissonGR1Garðavöllur, GL
2002Guðmundur I. EinarssonGR1Hvaleyrarvöllur, GK
2003Haraldur HeimissonGR2Hólmsvöllur, GS
2004Birgir Leifur HafþórssonGKG3Grafarholtsvöllur, GR
2005Ottó SigurðssonGKG1Hvaleyrarvöllur, GK
2006Örn Ævar HjartarsonGS1Grafarholtsvöllur, GR
2007Ottó SigurðssonGKG2Urriðavöllur, GO
2008Hlynur Geir HjartarsonGK1Korpúlfsstaðavöllur, GR
2009Kristján Þór EinarssonGM1Kiðjabergsvöllur, GBR
2010Birgir Leifur HafþórssonGKG2Garðavöllur, GL
2011Arnór Ingi FinnbjörnssonGR1Strandarvöllur, GHR
2012Haraldur Franklín MagnúsGR1Leirdalsvöllur, GKG
2013Guðmundur Ágúst KristjánssonGR1Hamarsvöllur, GB
2014Kristján Þór EinarssonGM2Hvaleyrarvöllur, GK
2015Axel BóassonGM1Jaðarsvöllur, GA
2016Gísli SveinbergssonGK1Hólmsvöllur, GS
2017Egill Ragnar GunnarssonGKG1Vestmannaeyjavöllur, GV
2018Rúnar ArnórssonGK1Hólmsvöllur, GS
2019Rúnar ArnórssonGK2Garðavöllur, GL
2020Axel BóassonGK2Jaðarsvöllur, GA
2021Sverrir HaraldssonGM1Þorláksvöllur, GÞ
2022Sigurður Bjarki BlumensteinGR1Hlíðavöllur, GM
2023Aron Snær JúlíussonGKG1Hamarsvöllur, GB
2024Logi SigurðssonGS1Garðavöllur, GL

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ