Íslandsmótið í holukeppni 2025 í kvennaflokki fer fram á Hlíðavelli Golfklúbbs Mosfellsbæjar dagana 20.-23. júní.
Rástímar fyrir 8 manna úrslit, undanúrslit og úrslit eru aðgengileg í Golfbox.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit.
Annar keppnisdagur
Eftir frí á laugardegi mætti kvennaflokkurinn aftur til leiks í 16 manna úrslitunum í dag. Aðstæður voru frábærar í dag, lítill sem enginn vindur, bjart og völlurinn flottur. Keppendur nýttu sér það og skiluðu inn mjög góðum hringjum í holukeppninni.
Í 16 manna úrslitunum sást mikið af tilþrifum á vellinum.
Pamela Ósk hélt áfram góðri spilamennsku sinni úr höggleiknum með 5/4 sigri á Emblu Hrönn. Pamela lék hringinn tvo undir pari, fékk fjóra fugla og hélt inn í 8 manna úrslitin full af sjálfstrausti.
Heiðrún Anna lék best allra í 16 manna úrslitunum þegar hún sigraði Berglindi Erlu 5/3. Heiðrún fékk fimm fugla á hringum og var skollalaus. Önnur úrslit umferðarinnar má sjá hér:

Í 8 manna úrslitunum mættust:
- Pamela Ósk og Berglind Björns
- Eva Kristins og Andrea Ýr
- Heiðrún Anna og Auður Bergrún
- Elsa Maren og Ásdís Rafnar
Pamela lék enn einn góða hringinn. Hún spilaði fjóra undir pari og sigraði Berglindi 5/4. Pamela er nú sex undir pari í mótinu í heild sinni, sex höggum betri en Heiðrún Anna.

Andrea og Eva spiluðu báðar sinn besta hring í mótinu. Þrátt fyrir að Eva væri fjóra undir pari eftir sextán holur lauk leiknum þar. Andrea spilaði sjö undir pari, fékk sjö fugla, örn, tvo skolla og vann sér inn sæti í 8 manna úrslitunum.

Leikur Heiðrúnar og Auðar var spennandi frá fyrstu holu. Báðar léku þær vel, og fengu þrjá fugla hvor. Auður var með yfirhöndina meirihluta leiks, en góður endasprettur Heiðrúnar skilaði henni sigrinum að lokum.

Síðasti leikurinn var GR viðureign Elsu og Ásdísar. Lítið skildi þær að frá upphafi hrings. Fjórir fuglar Ásdísar skiluðu henni 1/0 sigri og sæti í undanúrslitunum á morgun.

Leikir morgundagsins:
- Pamela Ósk gegn Andreu Ýr kl. 08:01
- Heiðrún Anna gegn Ásdísi Rafnar kl. 08:09

Fyrsti keppnisdagur
Hlíðavöllur er í toppstandi og veðrið var frábært þegar fyrstu kylfingar fóru út í morgun. Það var Akureyringurinn Andrea Ýr Ásmundsdóttir sem opnaði mótið á fínu höggi. Skömmu eftir að fyrstu kylfingar hófu leik fór að rigna, en eftir að rigningunni lauk var frábært veður fyrir golf. Sólin skein, vindur var lítill sem enginn, Hlíðavöllurinn skartaði sínu fegursta og flott spilamennska einkenndi daginn. Seinni hluta dags bætti aðeins í vindinn, en það truflaði kylfinga lítið.
Á fyrri hringnum var það Auður Bergrún Snorradóttir sem lék best, en hún kom í hús á 72 höggum, einum yfir pari. Auður var fjóra yfir pari eftir ellefu holur en lék síðustu sjö holur sínar þrjá undir pari. Hún fékk þar glæsilega fugla á holum, fjórtán, fimmtán og sautján, en engu mátti muna að hún fengi líka fugl á átjándu holuna eftir frábært upphafshögg.

Skor mótsins var gott, en á eftir Auði voru fjórar jafnar á 73 höggum, þær Pamela Ósk, Heiðrún Anna, Elísabet Sunna og Eva Kristinsdóttir.

Á seinni hringnum kom í ljós hvaða 16 kylfingar færu áfram í holukeppnina. Ljóst var að keppnin yrði hörð, en á tímabili voru einungis tvö högg sem skildu að kylfinginn í tíunda og tuttugasta sæti.
Pamela Ósk Hjaltadóttir lék best allra kylfinga á seinni hringnum, og átti þar besta hring dagsins. Hún lék á 69 höggum, tveimur undir pari og tryggði sér með því efsta sætið í höggleiknum. Hún hóf hringinn af krafti og lék fyrri níu holurnar á 33 höggum, tveimur undir pari. Seinni níu holurnar voru stöðugar, einn skolli, einn fugl og sjö pör.

Eftir hringinn var þó ekki ljóst hvaða kylfingar kæmust áfram í 16 manna útslitin. Fjórar voru jafnar í 16. sætinu á fimmtán höggum yfir pari og þurfti því að leika bráðabana um eitt laust sæti í útsláttarkeppninni. Það voru þær Embla Hrönn Hallsdóttir, Lilja Maren Jónsdóttir, Elísabet Ólafsdóttir og Þóra Sigríður Sveinsdóttir.
Það var Embla Hrönn sem komst áfram í 16 manna úrslitin og mætir þar Pamelu Ósk um sæti í 8 manna úrslitunum. Það er því ljóst hvaða kylfingar komast áfram í næsta hluta mótsins og við óskum öllum góðs áframhaldandi gengis.
Mótið í kvennaflokki heldur áfram þann 22. júní, en þann 21. júní leikur karlaflokkurinn 36 holu höggleik sinn.
Upprunaleg frétt
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit í höggleiknum:
Fyrirkomulag mótsins er 36 holu höggleikur, þar sem 16 efstu kylfingarnir komast áfram í holukeppnina. Þaðan hefst útsláttarkeppni sem lýkur mánudaginn 23. júní, þar sem Íslandsmeistari kvenna í holukeppni er krýndur.
Dagskrá mótsins:
- Föstudagur 20. júní – 36 holu höggleikur
- Laugardagur 21. júní – frí
- Sunnudagur 22. júní – 16 og 8 manna úrslit
- Mánudagur 23. júní – undanúrslit og úrslit

Keppendur eru alls 50 og koma þeir frá 8 mismunandi klúbbum. Flestir keppendur eru frá GKG og GM, eða 12 talsins. Golfklúbbur Reykjavíkur er með 11 keppendur og Golfklúbburinn Keilir er með 7.
Á keppendalistanum er m.a. efsta kona stigalistans, Heiðrún Anna Hlynsdóttir, sem hefur unnið bæði mótin sem hún hefur leikið í á tímabilinu. Einnig eru Auður Bergrún, Bryndís Eva og Eva Kristinsdóttir á meðal keppenda. Þær mæta ferskar í mótið úr sterku boðsmóti Annika Sörenstam sem fór fram 17.-19. júní.
Klúbbur | Fjöldi | |
1 | Golfklúbbur Akureyrar | 4 |
2 | Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar | 12 |
3 | Golfklúbbur Mosfellsbæjar | 12 |
4 | Golfklúbbur Reykjavíkur | 11 |
5 | Golfklúbbur Selfoss | 2 |
6 | Golfklúbbur Suðurnesja | 1 |
7 | Golfklúbburinn Keilir | 7 |
8 | Golfklúbburinn Setberg | 1 |
Meðalforgjöfin í mótinu er 2.67, forgjafarlægsti kylfingurinn er með +2.1 og sá forgjafarhæsti með 7.4.
Íslandsmeistarar í holukeppni í kvennaflokki frá upphafi:
Alls hafa 19 leikmenn sigrað í kvennaflokki á Íslandsmótinu í holukeppni frá árinu 1988 þegar mótið fór fyrst fram.
Ragnhildur Sigurðardóttir hefur sigrað oftast eða 6 sinnum alls (1990, 1993, 1997, 2000, 2001 og 2005), Ólöf María Jónsdóttirer með 5 titla alls (1995, 1996, 1998, 1999 og 2004), Karen Sævarsdóttir er með 4 titla alls. (1988,1991, 1992 og 1994). Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur sigrað þrívegis (2011, 2013 og 2020). Fjórir leikmenn hafa sigrað tvívegis: Þórdís Geirsdóttir (1989 og 2007), Signý Arnórsdóttir (2009 og 2012), Guðrún Brá Björgvinsdóttir (2017 og 2021) og Saga Traustadóttir (2019 og 2022). Saga er sú eina sem hefur skilað þessum titli til tveggja golfklúbba, en hún var Í GR árið 2019 en hún hefur verið í GKG undanfarin ár. Anna Júlía Ólafsdóttir, ríkjandi meistari, er ekki á meðal keppenda í ár og mun því ekki verja titil sinn í mótinu.
Ár | Nafn | Klúbbur | Fjöldi titla |
1988 | Karen Sævarsdóttir | GS | 1 |
1989 | Þórdís Geirsdóttir | GK | 1 |
1990 | Ragnhildur Sigurðardóttir | GR | 1 |
1991 | Karen Sævarsdóttir | GS | 2 |
1992 | Karen Sævarsdóttir | GS | 3 |
1993 | Ragnhildur Sigurðardóttir | GR | 2 |
1994 | Karen Sævarsdóttir | GS | 4 |
1995 | Ólöf María Jónsdóttir | GK | 1 |
1996 | Ólöf María Jónsdóttir | GK | 2 |
1997 | Ragnhildur Sigurðardóttir | GR | 3 |
1998 | Ólöf María Jónsdóttir | GK | 3 |
1999 | Ólöf María Jónsdóttir | GK | 4 |
2000 | Ragnhildur Sigurðardóttir | GR | 4 |
2001 | Ragnhildur Sigurðardóttir | GR | 5 |
2002 | Herborg Arnarsdóttir | GR | 1 |
2003 | Helga Rut Svanbergsdóttir | GM (GKj) | 1 |
2004 | Ólöf María Jónsdóttir | GK | 5 |
2005 | Ragnhildur Sigurðardóttir | GR | 5 |
2006 | Anna Lísa Jóhannsdóttir | GR | 1 |
2007 | Þórdís Geirsdóttir | GK | 1 |
2008 | Ásta Birna Magnúsdóttir | GK | 1 |
2009 | Signý Arnórsdóttir | GK | 1 |
2010 | Valdís Þóra Jónsdóttir | GL | 1 |
2011 | Ólafía Þórunn Kristinsdóttir | GR | 1 |
2012 | Signý Arnórsdóttir | GK | 2 |
2013 | Ólafía Þórunn Kristinsdóttir | GR | 2 |
2014 | Tinna Jóhannsdóttir | GK | 1 |
2015 | Heiða Guðnadóttir | GM | 2 |
2016 | Berglind Björnsdóttir | GR | 1 |
2017 | Guðrún Brá Björgvinsdóttir | GK | 1 |
2018 | Ragnhildur Kristinsdóttir | GR | 1 |
2019 | Saga Traustadóttir | GR | 1 |
2020 | ÓIafía Þórunn Kristinsdóttir | GR | 3 |
2021 | Guðrún Brá Björgvinsdóttir | GK | 2 |
2022 | Saga Traustadóttir | GKG | 2 |
2023 | Perla Sól Sigurbrandsdóttir | GR | 1 |
2024 | Anna Júlía Ólafsdóttir | GKG | 1 |