Annað mót Unglingamótaraðarinnar og fyrsta mót Golf 14 fara fram 23.-25. maí á Kirkjubólsvelli í Sandgerði
Golfklúbbur Sandgerðis er framkvæmdaraðili mótsins sem er hluti af Unglingamótaröð GSÍ og Golf 14.
Unglingamótaröðin
Mótið fer fram dagana 23.-25. maí í flokki 15-18 ára og leikinn er 54 holu höggleikur án forgjafar. Að loknum 36 holum skal leikmönnum fækkað þannig að 70% leikmanna sem eru með besta skor í hvorum flokki halda áfram keppni.
Allar upplýsingar og skráningu má finna í hlekk hér að neðan
Staðan eftir fyrstu keppnisdaga
Frábært skor hefur einkennt mótið hingað til. Aðstæður og veður hafa verið með besta móti miðað við árstíma og okkar framtíðarkylfingar hafa nýtt sér það til fulls.
Í piltaflokki 15-18 ára eru kylfingar frá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar að raða sér í efstu sætin. Gunnar Þór Heimisson leiðir mótið með einu höggi. Gunnar hefur leikið báða sína hringi á 66 höggum, eða sex undir pari vallar. Hann hefur einungis fengið fjóra skolla á fyrstu tveimur hringjunum og er jafn með flesta fugla allra keppenda, eða fjórtán talsins.
Einu höggi á eftir Gunnari eru Guðjón Frans Halldórsson og Arnar Daði Svavarsson á ellefu höggum undir pari. Frábært skor hjá okkar framtíðarkylfingum.
Arnar Daði var efstur eftir fyrsta hring mótsins, sem hann lék á 65 höggum. Hann fylgdi því eftir með hring upp á 68 högg í gær hefur leikið mjög gott golf. Arnar fékk tvo erni á fyrsta hring og er einn af tveimur keppendum sem hafa afrekað það.
Guðjón Frans lék fyrsta hring mótsins á 71 höggi en gerði sér svo lítið fyrir og sló vallarmet á öðrum degi mótsins. Þann hring spilaði hann á 62 höggum, tíu undir pari. Hann var sex undir á fyrri níu og fjóra undir á seinni. Guðjón fékk einn örn, níu fugla og einn skolla á hringnum magnaða.
Efstu tólf kylfingarnir í piltaflokki eru undir pari fyrir síðasta keppnisdag, sem verður að teljast vel gert!
Í stúlknaflokki 15-18 ára er það Elva María Jónsdóttir, GK, sem leiðir mótið. Hún lék sína hringi á 75 og 70 höggum. Elva hefur leikið stöðugt golf í mótinu hingað til, en hún hefur fengið sex fugla og sjö skolla.
Höggi á eftir Elvu er Embla Hrönn Hallsdóttir, GKG. Hún hefur leikið sína hringi á 75 og 71 höggi, og gerir sig líklega til að hreppa toppsætið á síðasta keppnisdeginum. Líkt og Elva hefur hún leikið vel, og fengið sjö fugla, sjö skolla og einn tvöfaldan skolla.
Bryndís Eva Ágústsdóttir, GA, og Elísabet Ólafsdóttir, GKG, eru jafnar í þriðja sætinu á fjórum yfir pari.
Það er stutt á milli efstu kylfinga í bæði pilta- og stúlknaflokki og verður spennandi að fylgjast með hvernig lokadagurinn þróast.
Golf 14
Mótið fer fram dagana 24.-25. maí í nokkrum flokkum.
- 14 ára og yngri 36 holur – leika 18 holur á laugardegi og 18 holur á sunnudegi
- 14 ára og yngri 9 holur – leika 9 holur á sunnudegi
- 12 ára og yngri 9 holur – leika 9 holur á sunnudegi
Allar upplýsingar og skráningu má finna í hlekk hér að neðan
Staðan eftir fyrstu keppnisdaga Golf 14
Flokkar 14 ára og yngri drengja og stúlkna hóf leik í gær og munu leika sínar seinni 18 holur í dag. Aðrir flokkar sem spila 9 holur í mótinu hefja leik eftir hádegi.
Í drengjaflokki er það Dalvíkingurinn Barri Björgvinsson sem leiðir mótið. Barri lék fyrri hringinn á höggi undir pari, með þrjá fugla og tvo skolla.
Höggi á eftir Barra eru Matthías Jörvi Jensson, GKG, og Emil Máni Lúðvíksson, GKG, sem léku fyrsta hringinn á pari.
Í stúlknaflokki er Elísabet Þóra Ólafsdóttir, NK, í fyrsta sæti. Hún lék fyrsta hringinn á 84 höggum.
Á eftir henni, og jafnar í öðru sæti, eru Eiríka Malaika Stefánsdóttir og Hrefna Líf Steinsdóttir. Eiríka er í Golfklúbbi Mosfellsbæjar og Hrefna í Golfklúbbnum Keili. Þær léku báðar á 88 höggum.
Það er bjart og fallegt á Sandgerði í dag og má búast við alvöru keppni um efstu sætin!
Í Unglingamótaröðinni eru 80 keppendur frá 11 klúbbum. GKG sendir flesta kylfinga, alls 20, í mótið
Klúbbur | Stúlkur | Piltar | Samtals |
GA | 3 | 6 | 9 |
GK | 5 | 9 | 14 |
GKG | 9 | 11 | 20 |
GL | 0 | 5 | 5 |
GM | 4 | 5 | 9 |
GOS | 1 | 0 | 1 |
GR | 5 | 8 | 13 |
GS | 1 | 2 | 3 |
GSE | 2 | 0 | 2 |
GV | 1 | 0 | 1 |
NK | 0 | 3 | 3 |
Í Golf 14 eru 70 keppendur frá 10 klúbbum. GKG sendir einnig flesta í það mót, eða 15.
Klúbbur | Stúlkur | Drengir | Samtals |
GA | 1 | 4 | 5 |
GB | 0 | 1 | 1 |
GHD | 0 | 1 | 1 |
GK | 6 | 8 | 14 |
GKG | 4 | 11 | 15 |
GM | 4 | 5 | 9 |
GO | 3 | 2 | 5 |
GR | 1 | 9 | 10 |
GVS | 0 | 1 | 1 |
NK | 1 | 8 | 9 |