Auglýsing

Keppnistímabilið á Áskorendamótaröðinni í golfi hjá atvinnukylfingum í karlaflokki hefur verið óvenjulegt vegna Covid-19 ástandsins á þessu ári. Mörg mót hafa verið felld niður en í dag hófst fjórða síðasta mótið á keppnistímabilinu. Það mót fer fram á Ítalíu og eru Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, og Haraldur Franklín Magnús, GR, á meðal keppenda. 

Nánar um mótið á Ítalíu hér:

Haraldur Franklín lék fyrsta hringinn á -1 eða 71 höggi og er hann í 62. sæti. Guðmundur Ágúst er í 81. sæti á +1 eða 73 höggum. Todd Clements frá Englandi er efstur á -8 og 19 aðrir keppendur eru á -5 eða betra skori eftir 1. keppnisdaginn.

Áskorendamótaröðin er næst sterkasta atvinnumótaröð Evrópu og 20 efstu á stigalistanum í lok keppnistímabilsins tryggja sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta tímabili. 

Næstu þrjú mót fara öll fram á Spáni, og lokamótið fer fram á Mallorca dagana 19.-22. nóvember. Næstu tvö mót á eftir mótinu á Ítalíu fara bæði fram á Novo Sancti Petri velllinum á Spáni – sem er vel þekkt „Íslendingasvæði“ en þar hafa fjölmargir íslenskir kylfingar leikið á undanförnum árum í skipulögðum golfferðum.

Aðeins 45 stigahæstu kylfingarnir komast inn á lokamótið og er Guðmundur Ágúst Kristjánsson í góðri stöðu varðandi lokamótið. Guðmundur Ágúst er í 31. sæti eins og er á stigalistanum. Haraldur Franklín er í sæti nr. 112 en á samt sem áður möguleika á að bæta stöðu sína á næstu mótum. 

Birgir Leifur Hafþórsson, sjöfaldur Íslandsmeistari í golfi, er eini íslenski atvinnukylfingurinn í karlaflokki sem hefur komist inn á lokamótið á Áskorendamótaröðinni. Birgir Leifur var í 35. sæti fyrir lokamótið en endaði í 37. sæti á lokastigalistanum. Það er besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á Áskorendamótaröðinni. 

Birgir Leifur er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur komist inn á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu með fullan keppnisrétt. 

Aðeins fimm íslenskir karlkylfingar hafa verið með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni frá árinu 1999 þegar Birgir Leifur braut ísinn.

Birgir Leifur á 16 keppnistímabil að baki á Áskorendamótaröðinni og alls 155 mót. Besti árangur hans er 1. sæti árið 2017 á móti í Frakklandi og er það eini sigur hans á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. 

Árið 2002 lék Björgvin Sigurbergsson, GK,  á 11 mótum á Áskorendamótaröðinni og endaði í 179. sæti á stigalistanum. 

Axel Bóasson, GK, lék á 16 mótum árið 2018 og endaði í sæti nr. 224 á stigalistanum. 

Guðmundur Ágúst, GR,  er á sínu öðru tímabili á Áskorendamótaröðinni. Hann lék á 6 mótum í fyrra og endaði í sæti nr. 109 á stigalistanum. 

Haraldur Franklín, GR, er á sínu fyrsta tímabili á Áskorendamótaröðinni.

Mótin sem eru framundan á Áskorendamótaröðinni eru: 

5.-8. nóvember:
Iberostar Real Club de Golf Novo Sancti Petri, Cadiz.

11.-14. nóvember:
Iberostar Real Club de Golf Novo Sancti Petri, Cadiz.

19.-22. nóvember:
T-Golf & Country Club, Mallorca, Baleares.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ