Gunnlaugur Árni Sveinsson, ásamt alþjóðlegu úrvalsliði háskólagolfara, hefur sigrað lið Bandaríkjanna á Arnold Palmer Cup, sterkasta áhugamannamóti heims.
Mótið fór fram á Congaree golfvellinum í Suður-Karólínu 5.-7. júní og var leikið með sama sniði og í Ryder og Solheim bikurunum. Lið Bandaríkjanna spilar við lið alþjóðlegra kylfinga en allir kylfingarnir koma úr bandaríska háskólagolfinu. Liðin samanstanda af 12 körlum og 12 konum.
Gunnlaugur er fyrsti íslenski kylfingurinn sem fær boð í mótið og lék frábært golf allan tímann. Hann skilaði alþjóðlega liðinu tveimur vinningum og sigraði m.a. næstefsta kylfing heimslistans.
Lokaumferð
Í lokaumferð Arnold Palmer Cup var leikinn tvímenningur, þar sem hver og einn keppandi lék einstaklingsviðureign í holukeppni. Staðan fyrir þessa síðustu umferð var 20-16, alþjóðlega liðinu í vil. 24 stig voru þó í pottinum og sigurinn langt frá því að vera í höfn.
Gunnlaugur mætti þar Carson Bacha, sem er 19. á heimslista áhugamanna. Gunnlaugur mætti Bacha einnig á öðrum keppnisdegi mótsins og hafði betur í þeirri viðureign.

Leikurinn var jafn frá upphafi, og leiddi Gunnlaugur með einni holu eftir sex holu leik. Hann var þá tvo undir pari. Hann lék seinni hluta hringsins áfram vel, eða einn undir pari en það dugði ekki til. Bacha nældi sér í fjóra fugla á síðustu níu holunum og sigraði viðureignina 2/1. Gulli lék hring sinn á þremur undir pari, en einungis 5 af 48 keppendum mótsins léku betur en þrjá undir pari, og því augljóslega hörkuskor.

Alþjóðlega liðið fór létt með lið Bandaríkjanna í tvímenningnum og sigraði mótið að lokum 35-25. Þetta var kærkominn sigur, þar sem Bandaríkin höfðu unnið þrjú af síðustu fjórum mótum, og voru talin sigurstrangleg fyrir mótið í ár.

Gunnlaugur lék frábærlega í mótinu og skilaði tveimur vinningum. Einn kylfingur fékk færri skolla en Gunnlaugur í mótinu, en Gulli fékk fjögur stykki á 72 holum mótsins. Ótrúlegur árangur hjá Gunnlaugi sem heldur áfram að ryðja brautina fyrir íslenska kylfinga á alþjóðlegum vettvangi.
Annar keppnisdagur og staðan fyrir lokaumferðina
Í dag verða leiknar 36 holur í fjórmenning, þar sem kylfingar skiptast á að slá sömu kúlunni.
Fyrri hringur Gunnlaugs Árna(Gulla) var leikinn með hinum norska Michael Alexander Mjaaseth, sem er sæti á eftir Gulla á heimslista karla, í 36. sæti. Þeir mættu þar sterkasta pari Bandaríkjanna í Jackson Koivun og Carson Bacha! Koivun er annar á heimslistanum og Bacha situr í því nítjánda.

Koivun hefur verið talinn ein bjartasta von Bandaríkjanna, en hann er á öðru ári í Auburn háskólanum og hefur nú þegar leikið á fjórum PGA mótum. Hann hefur verið svo öflugur á síðasta árinu að hann gæti hætt í háskólanum og farið beint á mótaröð þeirra bestu. Aðspurður sagðist hann þó ekki vera að flýta sér og vildi njóta þessa dýrmætu ára.
Leik þeirra er lokið, en Gunnlaugur og Michael sigruðu bandaríska teymið eftir ótrúlegar seinni níu holur.
Fyrri níu holurnar léku Gulli og Michael tvo yfir pari og voru ekki alveg að finna taktinn. Þeir Bandarísku léku einn yfir pari og voru einni holu yfir í holukeppninni. Eftir Bandarískan sigur á 10. holu voru Gulli og Michael þá tvær holur niður. Þá settu þeir félagarnir vægast sagt í fluggír.
Holur 2-8 léku þeir sjö undir pari, með örn, fimm fugla og eitt par. Á þeim kafla sneru þeir leiknum algjörlega við og sigruðu leikinn með tveimur holum.

Frábær sigur hjá Gulla! Alþjóðlega liðið styrkti sína stöðu í fyrri umferð dagsins og leiðir nú 12.5-7.5.

Í seinni umferð dagsins mun Gulli leika með hinni öflugu Maria José Marin frá Kólumbíu. Hún situr í 5. sæti á heimslista kvenna og munu þau mynda saman sterkt teymi.

Eins og við var að búast léku Gulli og Maria vel. Þau sigruðu Bandaríska parið 3/1, og voru þá 3 holur upp þegar 1 hola var eftir. Saman léku þau hringinn tvo undir pari, með þrjá fugla og einn skolla.
Gunnlaugur skilaði því fullu húsi stiga í dag eftir tvo öfluga sigra. Alþjóðlega liðið er yfir 20-16 í heildarkeppninni en sigurinn er þó langt frá því að vera í höfn. Á síðasta keppnisdeginum er leikinn tvímenningur, þar sem einn kylfingur úr alþjóðlega liðinu mætir einum kylfing úr liði Bandaríkjanna í holukeppni. Þar eru 24 stig í boði og því mikilvægt að klára mótið af krafti.
Gunnlaugur mætir þar Carson Bacha, sem er 19. á heimslista áhugamanna. Gunnlaugur mætti honum einnig á öðrum keppnisdegi mótsins og hafði þar betur.

Bacha var að ljúka háskólanámi sínu úr Auburn háskólanum, þar sem hann hefur leikið síðastliðin fimm árin. Þetta er hans síðasta mót undir merkjum skólans. Eftir tapið gegnog vill eflaust gera allt til að ljúka sínum háskólaferli á sigri.
Gunnlaugur er með tvo sigra og eitt tap úr sínum fyrstu þremur leikjum í mótinu. Með sigri í leik dagsins væri lið hans skrefi nær sigri í mótinu. Bandaríska liðið hefur unnið þrjú af síðustu fjórum mótum, svo þetta yrði kærkominn sigur fyrir alþjóðlega liðið.
Fyrsti keppnisdagur
Gunnlaugur Árni Sveinsson hefur hafið leik í Arnold Palmer Cup, sterkasta áhugamannamóti heims. Fyrsta hringinn lék hann í liði með hinni sænsku Meja Örtengren gegn þeim Catherine Park og Jack Turner.
Bandaríska parið lék hringinn frábærlega, var sex undir pari eftir sextán holur og sigraði leikinn 3&2. Alþjóðlega liðið er þó með forystu eftir fyrsta daginn 6.5-5.5, og Gulli og félagar því í góðum málum þegar fjórðungi móts er lokið!
Upprunaleg frétt
Gunnlaugur Árni Sveinsson hefur í dag leik í Arnold Palmer Cup, sem er sterkasta áhugamannamót heims.
Mótið fer fram á Congaree golfvellinum í Suður-Karólínu dagana 5.-7. júní og er leikfyrirkomulagið með sama sniði og í Ryder og Solheim bikurunum. Lið Bandaríkjanna spilar þar við lið alþjóðlegra kylfinga en allir kylfingarnir koma úr bandaríska háskólagolfinu. Liðin samanstanda af 12 körlum og 12 konum.
Ljóst er að það sé mikið afrek að vera valinn í alþjóðlega liðið, en Gunnlaugur er fyrsti íslenski kylfingurinn sem fær boð í mótið.
Hér má fylgjast með skori mótsins
Fyrirkomulag
Á fyrsta keppnisdegi er leikinn betri bolti. Einn karl og ein kona mynda saman tveggja manna teymi og gildir betra skorið á hverri holu. Gunnlaugur mun spila með hinni sænsku Meja Örtengren gegn þeim Catherine Park og Jack Turner kl. 11:15 að staðartíma, 15:15 að íslenskum tíma.
Meja er einn besti áhugakylfingur heims, en hún er líkt og Gunnlaugur á sínu fyrsta ári í háskólagolfinu. Hún situr í 14. sæti á heimslista áhugakylfinga. Gulli situr í 35. sæti á karlalistanum, en andstæðingar dagsins eru ekki af verri endanum.
Catherine Park er í 7. sæti kvennalistans. Hún hefur unnið fjögur háskólamót á sínum ferli og lék einnig í Arnold Palmer Cup í fyrra. Jack Turner er í 22. sæti karlalistans eftir stöðugar og góðar niðurstöður á árinu. Hann er þó sigurlaus. Það má búast við hörku viðureign í dag.

Á öðrum keppnisdegi eru leiknar 36 holur. Báðir hringirnir eru leiknir í fjórmenning, þar sem kylfingar leika einum bolta og skiptast á að slá. Fyrir hádegi mun Gunnlaugur leika með öðrum karlkylfing og eftir hádegi verður hann paraður með kvenkylfing.
Á síðasta keppnisdegi er svo leikinn tvímenningur.

Mótið er sterkasta áhugamannamót heims, í fyrra fékk mótið 1000 stig í styrkleika af 1000 mögulegum á heimslista áhugakylfinga. Margir af bestu kylfingum heims hafa tekið þátt í mótinu, m.a. Ludvig Åberg, Bryson DeChambeau, Justin Thomas, Collin Morikawa og Rickie Fowler. Á meðal keppenda í ár eru kylfingar sem hafa leikið á stærstu sviðum golfíþróttarinnar, meðal annars á Masters mótinu núna fyrr í apríl. Aðrir keppendur eru með þátttökurétt í U.S. Open risamót karla síðar í mánuðinum.

Gunnlaugur, sem er fæddur 2005, stundar nám við LSU í Louisiana og hefur leikið frábærlega á sínu fyrsta ári í háskólagolfinu. Gunnlaugur sigraði á The Blessings Collegiate Invitational mótinu á síðasta ári og hefur verið á meðal efstu manna í mörgum mótum á árinu. Skólalið hans í LSU þótti líklegt til að komast alla leið í lokamót háskólagolfsins en sat eftir í sterku svæðismóti í byrjun maí. Gunnlaugur lék þar best allra kylfinga LSU og var nálægt því að spila sig inn í lokamótið á einstaklingsframtakinu einu saman.
Hann situr í dag í 35. sæti á heimslista áhugamanna, og í 22. sæti á lista yfir bestu háskólakylfinga Bandaríkjanna. Þetta verður að teljast magnaður árangur fyrir Gunnlaug sem er á sínu fyrsta ári í skólanum. Árangur hans í háskólagolfinu má sjá betur hér að neðan.
Mót | Sæti |
NCAA Amherst Regional | 4 |
2025 SEC Men’s Golf Championship | 26 |
The Ford Collegiate | 14 |
Calusa Cup | 39 |
Pauma Valley Invitational | 3 |
40th Louisiana Classics | 6 |
Puerto Rico Classic | 3 |
Ka’anapali Classic | 24 |
Fallen Oak Collegiate Invitational | 2 |
The Blessings Collegiate Invitational | 1 |
Valero Texas Collegiate | 19 |
Visit Knoxville Collegiate | 25 |