Eva Kristinsdóttir, kylfingur GM, lauk leik í 19. sæti í sterku boðsmóti á vegum Annika Sörenstam, Annika Invitational. Leiknar voru 54 holur á Bokskogens vellinum í Svíðþjóð, sem er einkar glæsilegt svæði í suðurhluta landsins. Auður Bergrún Snorradóttir og Bryndís Eva Ágústsdóttir voru einnig á meðal keppenda í mótinu.
Eva lék alla hringi sína á 74 höggum, tveimur yfir pari. Hún lauk því leik á sex yfir pari í heildina og jöfn í 19. sæti mótsins. Mjög stöðugt og gott skor hjá Evu, sem mætir fersk í Íslandsmótið í holukeppni, sem hefst 20. júní.



Auður Bergrún Snorradóttir, GM, endaði jöfn í 59. sæti mótsins á tuttugu höggum yfir pari. Hún lék hringi sína á 76-82-78. Auður lék par 3 holur vallarins einkar vel, var tvo yfir pari á þeim holum í mótinu og fékk þrjá fugla.
Bryndís Eva Ágústsdóttir, GA, endaði í 72. sæti á 34 höggum yfir pari í heildina. Hún lék hringi sína á 80-88-82. Bryndís var einn yngsti kylfingurinn á svæðinu, en hún er 16 ára gömul og mun eiga fleiri tækifæri á þátttöku í mótinu.
Þátttaka í mótinu
Auður Bergrún Snorradóttir, Bryndís Eva Ágústsdóttir og Eva Kristinsdóttir eru á meðal keppenda í sterku boðsmóti, The ANNIKA Invitational Europe, sem fer fram í Svíþjóð.
Keppendur á þessu móti eru í fremstu röð áhugakylfinga og er Annika Sörenstam gestgjafi mótsins. Keppendur eru allir yngri en 18 ára og fengu 78 keppendur boð um að taka þátt í þessu móti sem fram fór í fyrsta sinn árið 2012. Annika Sörenstam er sigursælasti kylfingur allra tíma í kvennaflokki í atvinnugolfi. Hún hætti keppni árið 2008 en þá hafði hún sigrað á 96 atvinnumótum víðsvegar um veröldina, sem er met. Hún sigraði á 72 mótum á LPGA mótaröðinni í Bandaríkjunum, og hún sigraði á 10 risamótum á ferlinum.
Leikið er á Bokskogens vellinum í Svíðþjóð, sem er einkar glæsilegt svæði í suðurhluta landsins. Fyrirkomulag mótsins er 54 holu höggleikur, sem leikinn er yfir þrjá daga.

Hér má fylgjast með skori mótsins
Dagskráin hefur verið þétt hjá þremeningunum í sumar. Allar hafa þær leikið bæði hér á Íslandi sem og erlendis. Auður situr í þriðja sæti á stigalista 17-18 ára á Unglingamótaröðinni, Eva er í 13. sæti sama lista og Bryndís er efst á lista 15-16 ára kylfinga.
Annika Sörenstam kom til Íslands í byrjun júní árið 2018 eins og sjá má í þessari frétt.