Auglýsing

Spánn sigraði á Evrópumót karlalandsliða sem lauk í gær á Royal St. George’s vellinum á Englandi. Svíar og Spánverjar léku til úrslita þar sem Spánn sigraði 4 1/2 – 2 1/2. Danir enduðu í þriðja sæti eftir 5-2 sigur gegn Englendingum.

Íslenska liðið lék í B-riðli í holukeppninni þar sem að keppt var um sæti 9-16. Ísland endaði í 16. sæti eftir að hafa tapað naumlega í þremur viðureignum í riðlinum. Nánar um úrslit leikja Íslands hér fyrir neðan.

Þetta er í fimmta sinn sem Spánn sigrar á EM karla en Spánn sigraði síðast árið 2017.

Lokastaðan:

1. Spánn
2. Svíþjóð
3. Danmörk
4. England
5. Írland
6. Ítalía
7. Frakkland
8. Þýskaland
9. Holland
10. Finnland
11. Eistland
12. Sviss
13. Wales
14. Belgía
15. Austurríki
16. Ísland
17. Skotland
18. Tékkland
19. Portúgal

Keppnisfyrirkomulagið var með þeim hætti að fyrstu tvo keppnisdagana var leikinn höggleikur þar sem að fimm lægstu skorin hjá hverju liði töldu. Liðunum varr raðað upp í riðla eftir árangri í höggleiknum, átta efstu liðin léku í holukeppni í A-riðli um Evrópumeistartitilinn og önnur lið léku um sætin þar fyrir neðan. Í B-riðli var leikið um sæti 9.-16 og í C-riðli um sætin þar fyrir neðan.

Í holukeppninni voru leiknir fjórmenningsleikir (Foursome) þar sem tveir leikmenn leika gegn tveimur öðrum leikmönnum og hvort lið leikur einum bolta. Og einnig voru leiknir tvímenningsleikir, þar sem einn leikmaður leikur gegn öðrum leikmanni.

Karlalandslið Íslands lék á Royal St. George’s vellinum á Englandi en þar tóku 19 þjóðir þátt. Keppnisvöllurinn er einn sá þekktasti en Opna mótið hefur 15 sinnum farið fram á þessum velli – síðast árið 2021. Vegna heimsfaraldurs undanfarin ár verða alls 19 þjóðir í efstu deild en engin þjóð féll úr efstu deild 2020 og 2021. Finnland, Tékkland og Eistland komust upp úr næst efstu deild árið 2021 og eru á meðal keppenda í efstu deild í ár.

Smelltu hér fyrir leikmannalista, rástíma, stöðu og úrslit.

Aron Emil Gunnarsson, Daníel Ísak Steinarsson, Kristófer Orri Þórðarson, Hákon Örn Magnússon, Hlynur Bergsson, Sigurður Bjarki Blumenstein, Ólafur Björn Loftsson afreksstjóri GSÍ og landsliðsþjálfari. Mynd/seth@golf.is

Í lokaumferðinni lék Ísland gegn Austurríki og var sá leikur jafn og spennandi. Austurríki hafði betur 3/2. Aron Emil Gunnarsson og Daníel Ísak Steinarsson töpuðu fjórmenningsleiknum 3/2, Hlynur Bergsson og Hákon Örn Magnússon sigruðu í sínum tvímenningsleikjum, Sigurður Bjarki Blumenstein og Kristófer Orri Þórðarson töpuðu sínum viðureignum.

Ísland mætti liði Wales í 2. umferð holukeppninnar og var sá leikur spennandi þar sem að Wales hafði betur 3/2. Kristófer Orri Þórðarson og Hlynur Bergsson sigruðu í fjórmenningsleiknum 3/2. Daníel Ísak Steinarsson sigraði í tvímenningsleiknum 2/0, Aron Emil Gunnarsson, Hákon Örn Magnússon og Sigurður Bjarki Blumenstein töpuðu sínum viðureignum.

3. keppnisdagur

Ísland mætti liði Hollands í fyrstu umferð holukeppninnar. Aron Emil Gunnarsson og Kristófer Orri Þórðarson léku í fjórmenningsleiknum sem tapaðist 3/2. Daníel Ísak Steinarsson tapaði naumlega í sinni viðureign í tvímenning, Hlynur Bergsson tapaði 6/5. Hákon Örn Magnússon sigraði 2/1 og Sigurður Bjarki Blumenstein sigraði 1/0 í sinni viðureign.

Íslands mætir liði Wales í næstu umferð og á nú aðeins möguleika á að ná 13. sætinu á þessu móti.

2. keppnisdagur

Sigurður Bjarki Blumenstein endaði í 42. sæti á 141 höggi (70-71) samtals +1.

Hákon Örn Magnússon endaði í 60. sæti á 144 höggum (76-68) samtals +4.

Hlynur Bergsson endaði í 85. sæti á 146 höggum (71-75) samtals +6.

Daníel Ísak Steinarsson endaði í 92. sæti á 148 höggum (77-71) samtals +8.

Aron Emil Gunnarsson endaði í 104. sæti á 150 höggum (74-76) samtals +10.

Kristófer Orri Þórðarson endaði í 109. sæti á 152 höggum (72-80) samtals +12.

Íslenska karlalandsliðið endaði í 16. sæti af alls 19 þjóðum eftir höggleikinn. Ísland leikur því um sæti nr. 9-16.

Spánn, Frakkland, England, Þýskaland, Danmörk, Ítalía, Svíþjóð og Írland leika um Evrópumeistaratitilinn og sæti nr. 1-8.

Um sæti 9-16 leika Holland, Finnland, Austurríki, Wales, Eistland, Sviss, Belgía og Ísland. Mótherjar Íslands í 1. umferð holukeppninnar verða Hollendingar.

Skotland, Tékkland og Portúgal leika um sæti nr. 17-19.

1. keppnisdagur

Íslenska liðið er í 16. sæti af alls 19 á +13 samtals. Danir eru efstir á -6 samtals og þar á eftir koma Finnar á -2 og Spánverjar á -1. Íslenska liðið er 11 höggum frá 8. sætinu og sæti í A-riðli.

Sigurður Bjarki Blumenstein, er í 22. sæti, á 70 höggum eða pari vallar – og lék hann best allra í íslenska liðinu á fyrsta keppnisdegi í höggleiknum.

Hlynur Bergsson er í 43. sæti og náði næst besta skora dagsins hjá íslenska liðinu eða 71 högg (+1).

Kristófer Orri Þórðarson er í 61. sæti á +2 eða 72 höggum.

Aron Emil Gunnarsson, er í 85. sæti, á +4 eða 74 höggum.

Hákon Örn Magnússon lék á +6 eða 76 höggum og er hann í 102. sæti

Daníel Ísak Steinarsson, lék á 77 höggum eða +7, og er hann í 106. sæti en skor hans taldi ekki hjá íslenska liðinu.

Danir eru ríkjandi Evrópumeistarar en Danmörk fagnaði sínum fyrsta EM titil í karlaflokki í fyrra á PGA Catalunya á Spáni. Þrír leikmenn Dana úr Evrópumeistaraliðinu eru í áfram í liðinu í ár, þeir Søren Lind, Hamish Brown, og Frederik Kjettrup.

Íslenska karlalandsliðið er þannig skipað:

Aron Emil Gunnarsson, Daníel Ísak Steinarsson, Kristófer Orri Þórðarson, Hákon Örn Magnússon, Hlynur Bergsson, Sigurður Bjarki Blumenstein, Ólafur Björn Loftsson afreksstjóri GSÍ og landsliðsþjálfari.

Hákon Örn Magnússon. Mynd/seth@golf.is
Daníel Ísak Steinarsson. Mynd/seth@golf.is
Kristófer Orri Þórðarson. Mynd/seth@golf.is .
Sigurður Bjarki Blumenstein. Mynd/seth@golf.is
Hlynur Bergsson. Mynd/seth@golf.is.
Aron Emil Gunnarsson. Mynd/seth@golf.is.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ