Auglýsing

Íslandsmótið í golfi 2022 verður það fimmta í röðinni í Vestmannaeyjum frá því að völlurinn var stækkaður í 18 holur en fyrir þann tíma hafði mótið farið fjórum sinnum fram á Vestmannaeyjavelli þegar völlurinn 9 holur. Á næstu dögum verða birtar ýmsar greinar um fyrri Íslandsmót í tilefni af 80 ára afmælis Golfsambands Íslands á þessu ári.

Árið 1962 voru Vestmannaeyjar vettvangur Íslandsmótsins í golfi. Hér er texti um Íslandsmótið árið 1962 úr bókinni Golf á Íslandi sem Steinar J. Lúðvíksson og Gullveig Sæmundsdóttir skrifuðu.

Áður en einstaklingskeppnin hófst fór þar fram það sem kallað var „innanbæjarkeppni” en þar var um að ræða keppni sex manna sveita frá stóru klúbbunum þremur, GR, GV og GA. Eftir þá keppni voru menn sannfærðir um að Akureyringar yrðu erfiðir viðfangs þegar á hólminn væri komið og til marks um það var haft að íslandsmeistarinn frá árinu áður, Gunnar Sólnes, afrekaði það að leika níu holur á pari, 36 höggum. Auk „innanbæjarkeppninnar“ fór fram bæjarkeppni milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Fimmtán kylfingar voru í hvoru liði og fór svo að Reykjavik sigraði, fékk 8,5 vinninga á móti 6,5 vinningum Eyjamanna.

Óttar Yngvason með Íslandsmeistarabikarinn, sem hann fékk í hendurnar í fyrsta sinn árið 1962 í Vestmannaeyjum.
Myndin var tekin í maí 2022 á kynningarfundi GSÍ. Mynd/seth@golf.is

Þegar kom að sjálfu meistaramótinu voru sauðirnir greindir frá höfrunum. Þeir sem voru með 6 eða minna í forgjöf fengu keppnisrétt í meistaraflokki og voru þeir átján talsins. Öðrum keppendum var skipað í 1. og 2. flokk eftir ákveðnum reglum en alls voru keppendur í mótinu 47 talsins.

Eftir fyrsta daginn hafði ungur Reykvíkingur, Ólafur Bjarki Ragnarsson, náð forystunni og leikið mjög vel. Í öðru sæti var Árni Ingimarsson frá Akureyri sem var í miklu stuði á öðrum degi keppninnar og vann þá það afrek að leika níu fyrri holurnar á 34 höggum – höggi undir pari. Það gerði líka Eyjamaðurinn Lárus Ársælsson.

Þegar síðasti hringurinn hófst var mikil spenna hlaupin í keppnina. Þrír efstu mennirnir voru saman í hóp, Árni og Reykvíkingarnir Óttar Yngvason og Jóhann Eyjólfsson. Fjöldi áhugasamra áhorfenda fylgdist með þeim og gengu sumir með allar holurnar. Lengi vel mátti ekki á milli sjá en óttar lék síðustu þrjár holurnar sem sannur meistari og tryggði sér þar með titilinn. Var yfirvegun hans og rósemi við brugðið og lét hann ekkert koma sér úr jafnvægi. Hann lék á samtals 307 höggum. Jóhann varð annar á 310 höggum og Pétur Björnsson skaut sér upp i þriðja sætið með feikigóðri spilamennsku síðasta daginn.

Vestmannaeyingarnir Kristján Torfason og Óli Þórarinsson sigruðu í 1. flokki og Hafliði Guðmundsson bætti við i öldungameistarasafn sitt, sigraði bæði með og án forgjafar.

Óttar Yngvason tekur við hamingjuóskum frá Jóhanni Eyjólfssyni á lokaflötinni í Eyjum.
Ljósmynd: Borgarskjalasafn 1963
Síðasti ráshópur á Íslandsmóti karla í Vestmannaeyjum árið 1964, sem skipaður var þeim Magnúsi Guðmundssyni, Óttari Yngvasyni, Pétri Björnssyni og Gunnari Sólnes, lýkur leik á 5 braut. Mynd/Viðar Þorsteinsson.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ