Auglýsing

Ragnhildur Kristinsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir tryggðu sér í dag sæti á lokaúrtökumótinu fyrir LET Evrópumótaröðina 2024. Lokaúrtökumótið fer fram 16.-20. desember í Marokkó.

Leiknir voru þrír 18 holu hringir eða alls 54 holur á þremur keppnisdögum og kepptu leikmenn alltaf á sama vellinum.

Alls tóku 221 leikmenn þátt, sem er metþátttaka, og var keppt er á þremur völlum á Lalla Aicha golfsvæðinu í Marokkó. Til samanburðar voru 156 keppendur á 1. stigi úrtökumótsins í fyrra.

Guðrún Brá lék frábært golf þegar mest á reyndi á lokahringnum á Rotana vellinum á Lalla Aicha golfsvæðinuí Marokkó. Þar lék hún á 66 höggum eða -6. Hún lék hringina þrjá á 69 (-3), 78 (+5) og 66 (-6). Hún endaði í 13. sæti en alls komust 31 keppendur áfram af þessum velli.

Lóa Dista Jóhannsson, sem var þriðji íslenski kylfingurinn á 1. stigi úrtökumótsins komst ekki áfram en þetta var í fyrsta sinn sem hún tekur þátt á úrtökumóti fyrir LET Evrópumótaröðina sem er í efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í kvennaflokki í Evrópu. Lóa lék Rotana völlinn á +12 samtals (80-72-76) og endaði í 56. sæti.

Ragnhildur lék á Samanah vellinum á Lalla Aicha golfsvæðinu. Hún lék samtals á -1 eða 215 höggum (66-71-78). Hún endaði í 10. sæti á þessum velli og komst örugglega áfram.

Smelltu hér fyrir rástíma, skor og úrslit á úrtökumótinu fyrir LET Evrópumótaröðina 2023:

Á lokaúrtökumótinu sem fram fer dagana 16.-20. desember á Al Maaden og Royal Golf völlunum í Marrakech keppa 156 leikmenn um keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni á næsta tímabili.

Þar koma inn um 90 leikmenn sem léku á LET Evrópumótaröðinni á síðasta tímabili en náðu ekki að halda keppnisrétti sínum. Eins og áður segir má gera ráð fyrir að um 60 keppendur komist inn á lokaúrtökumótið af 1. stiginu í Marokkó, og til viðbótar koma 11 leikmenn af 1. stiginu sem fram fór á Indlandi nýverið.

Niðurskurður er eftir fjórða keppnisdaginn á lokaúrtökumótinu og að loknum fimmta keppnisdegi fá 20 efstu fá keppnisrétt á LET. Keppendur í sætum 21.-50 fá takmarkaðan keppnisrétt á LET á næsta tímabili og keppendur sem komast í gegnum niðurskurðinn eftir fjórða keppnisdag fá einnig takmarkaðan keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni.

Guðrún Brá hefur verið með keppnisrétt á LET Evrópumótaröð atvinnukylfinga undanfarin þrjú ár en þrefaldi Íslandsmeistarinn í golfi náði ekki að halda keppnisrétti sínum á síðasta tímabili. Keiliskonan lék á lokaúrtökumótinu í fyrra og endaði þar í 42. sæti sem gaf henni takmarkaðan keppnisrétt á LET á síðasta tímabili.

Ragnhildur Kristinsdóttir, sem er ríkjandi Íslandsmeistari í golfi, var með keppnisrétt á LET Access atvinnumótaröðinni á síðasta tímabili en mótaröðin er í næst efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu í kvennaflokki. GR-ingurinn tók þátt í fyrsta sinn í fyrra á 1. stigi úrtökumótsins fyrir LET Evrópumótaröðina. Þar endaði hún í 81. sæti sem gaf henni keppnisrétt á LET Access atvinnumótaröðinni á síðasta tímabili.

Lóa Dista Jóhannsson er áhugakylfingur og er í landsliðshóp GSÍ. Hún er fædd árið 2006 og nemandi í bandaríska háskólanum Embry – Riddle. Lóa er búsett í Bandaríkjunum og er hún að taka þátt í fyrsta sinn á úrtökumótinu fyrir LET Evrópumótaröðina. Hún er skráð í Golfklúbb Borgarness hér á landi.

Noria völlurinn á Lalla Aicha golfsvæðinu var þriðji völlurinn í þessu mót en þar tóku alls 71 kylfingar þátt.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ