Auglýsing

Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ skrifar:

Það er nauðsynlegt að setja sér stefnu fyrir nánustu framtíð. Golfhreyfingin gerði það árið 2013 og hefur reynt að fylgja henni eftir til dagsins í dag. Sumt hefur gengið vel og annað síður. Nú er tímabil þeirrar stefnu liðið og kominn tími til að stilla áttavitann á nýjan leik til næstu ára.

Um þessar mundir er stjórn Golfsambands Íslands að kynna drög að stefnu sinni til næstu átta ára. Drögin eru afrakstur ómældrar vinnu síðastliðinna tveggja ára og hefur óteljandi fjöldi einstaklinga, úr öllum kimum hreyfingarinnar, komið að vinnunni. GSÍ hefur lagt sig fram við að kynna afrakstur vinnu sinnar jafn óðum og því höfum við getað fengið viðbrögð frá golfklúbbunum í gegnum allt ferlið. Við erum þakklát þeim sem hafa aðstoðað okkur við að móta drögin til þessa.

<strong>Haukur Örn Birgisson <strong>

Í upphafi vinnunnar spurðum við sjálf okkur eftirfarandi spurningar: “Ef við ætluðum að stofna Golfsamband Íslands á morgun – hvert yrði hlutverk þess?” Við þóttumst viss um að hlutverk sambandsins yrði ekki ákveðið það sama og það er í dag.

Við lögðum því fram nokkuð róttækar hugmyndir á sumum sviðum starfseminnar. Í tillögunum er lögð til skýrari aðgreining á því sem mætti telja til kjarnastarfsemi sambandsins annars vegar og valkvæðrar starfsemi hins vegar. Kjarnastarfsemi er starfsemi sem golfklúbbar landsins geta ekki sjálfir sinnt og verkefni sem ekki verður hjá því komist að golfsambandið sinni, svo sem samkvæmt lögum GSÍ og ÍSÍ á hverjum tíma.

Valkvæðri starfsemi þarf að sinna vel en það eru fleiri aðilar en golfsambandið sem gætu sinnt slíkri starfsemi, t.d. golfklúbbar, PGA á Íslandi eða annar þriðji aðili. Í þessu felast mikil tækifæri að okkar mati sem eru umræðunnar virði.

Stefnudrögin hafa meiri áhrif á suma málaflokka en aðra. Þetta var ekki síst gert til þess að fá fram umræðu um hlutverk sambandsins á tilteknum sviðum. Má þar helst nefna móta- og afreksmál en það eru málaflokkar þar sem hlutverk sambandsins hefur lítið breyst síðastliðin tuttugu ár. Stöðnun er ekki góð og það getur verið nauðsynlegt að stíga frá teikniborðinu af og til og horfa á heildarmyndina úr smá fjarlægð. Það höfum við reynt að gera undanfarna mánuði og munum halda því áfram næstu vikur.

Nú stendur yfir kynningarherferð golfsambandsins þar sem drögin eru kynnt fyrir golfklúbbum landsins. Við höfum náð að funda með flestum af stærri klúbbum landsins og hafa viðbrögðin heilt yfir verið góð. Á fundunum hefur komið fram bæði gagnrýni og lof á stefnumótunardrögin. Það er frábært, því til þess var leikurinn gerður. Frá upphafi lá fyrir að drögin myndu taka breytingum, í takt við framkomnar athugasemdir. Við eigum enn eftir að funda með tugum golfklúbba og það er alveg ljóst að endanleg stefna mun liggja fyrir í breyttri mynd, frá því sem lagt var af stað með. Endanleg stefna verður svo vonandi samþykkt af hreyfingunni allri á Golfþingi í lok nóvember næstkomandi.

Golfíþróttin á Íslandi hefur átt afar góðu gengi að fagna undanfarin ár. Þrátt fyrir það, þá er mikilvægt að stunda sjálfsskoðun. Það er alltaf hægt að bæta um betur. Markmið nýrrar stefnumótunar GSÍ og rauði þráðurinn í stefnunni er að forgangsraða verkefnum, nýta fjármuni sambandsins sem best og skapa skýrari skil á milli hlutverka sambandsins annars vegar og golfklúbbanna hins vegar.

Golfsambandið samanstendur af 62 golfklúbbum um allt land og það er eðlilegt að skoðanir séu skiptar og áherslur ólíkar. Það er klárt markmið nýrrar stefnumótunar að bæta starfsemi golfsambandsins til framtíðar og ég er þess fullviss að jákvæð og uppbyggileg samtöl við forsvarsfólk golfklúbbanna á næstu vikum muni leiða til betri niðurstöðu og sterkari samstöðu, sem verður ómetanlegt veganesti til næstu ára.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ