Auglýsing

Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ skrifar:

Lífleg umræða hefur skapast í golfinu um stefnumótun GSÍ, sérstaklega um mótamál barna og unglinga. Ég er þakklátur fyrir umræðuna og ég tel hana afar mikilvæga. Ég tel hins vegar ákveðins misskilnings gæta í umræðunni. Það er fullkomlega eðlilegt, enda ná fæstir að kynna sér stefnudrögin til hlítar. Af þeim sökum vil ég bæta við það sem ég hef áður sagt.

Um stefnumótunina almennt séð

Það er rétt að halda því til haga, strax í upphafi, að markmið stefnumótunarvinnunnar var að kalla fram umræðu um málefni GSÍ. Ein af grundvallarspurningunum er því: „hvert á hlutverk GSÍ að vera?“ Þessari spurningu þarf að svara áður en lengra er haldið og við spurningunni er ekkert eitt rétt svar. Innan GSÍ eru 62 golfklúbbar með afar ólíka nálgun á viðfangsefnið. Niðurstaðan um hlutverk GSÍ mun því ráðast af því hver vilji meirihluta golfklúbbanna verður – reynist ekki unnt að ná algjörri samstöðu um það. Það er hins vegar lykilatriði í allri umræðunni að þessari spurningu verði svarað. Að baki tillögum GSÍ búa því engin sjónarmið um að GSÍ sé að gefa tiltekin hlutverk upp á bátinn, því GSÍ hafi ekki lengur löngun í að sinna þeim áfram. Því fer fjarri.

Haukur Örn Birgisson.

Um mótamál

Mótamálin eru einn af 17 málaflokkum sem GSÍ hefur verið að skoða undanfarin misseri í stefnumótunarvinnu sinni. Þegar kemur að mótamálum hefur hlutverk GSÍ verið nánast óbreytt í 20 ár. Það segir mér enginn að ekki sé ástæða til að gera nokkrar breytingar á núverandi fyrirkomulagi – allir hljóta að vera sammála um það. Það er a.m.k. nauðsynlegt að taka umræðu um það. Ef niðurstaðan verður sú að halda áfram á sömu braut og við höfum fetað sl. 20 ár, þá gerum við það – með bros á vör. GSÍ sinnir því hlutverki sem golfklúbbarnir vilja að það sinni. Svo einfalt er það.

Ábendingar GSÍ í stefnumótunardrögum varðandi mótahald hafa lotið að því að mótin eru orðin gríðarlega mörg og staðan einfaldlega orðin slík að afar fámennt starfslið GSÍ getur illa haldið utan um framkvæmd svona margra móta. Þetta bitnar á keppendum í mótunum og utanumhaldi þeirra. Á hverju ári hefur Golfsamband Íslands umsjón með um 36 mótum, þar af 19 barna- og unglingamótum. Þessum mótum hefur fjölgað mikið undanfarin ár, sem hefur leitt til þess að sambandið getur ekki sinnt þeim eins vel og við viljum. Því miður. Það er því tvennt í stöðunni: Annað hvort að bæta við starfsfólki hjá GSÍ til að sjá um mótahald eða fá klúbbana til þess að taka virkari þátt í framkvæmd mótanna.

Svo komist verði hjá því að hækka gjöld klúbbanna til GSÍ þá viljum við leggja til síðari leiðina. Við viljum því kanna hvort golfklúbbarnir sjálfir væru tilbúnir til þess að létta undir og taka að sér framkvæmd, skipulagningu og umsjón hluta mótanna. Alveg eins og gert er hjá öðrum sérsamböndum, t.d. KSÍ. Þar taka ólík knattspyrnufélög að sér að sjá um sín eigin mót fyrir börn og unglinga. Má þar nefna Norðurálsmót ÍA, Arion banka mót Víkings, Goðamót Þórs/KA, Set-mótið á Selfossi, Orkumót ÍBV o.s.frv. Þessi mót hafa fest sig í sessi og eru mikið tilhlökkunarefni fyrir þátttakendur þeirra. Ég þekki það sjálfur, sem foreldri barna í fótbolta og handbolta. Það er engin ástæða að ætla að þetta geti ekki orðið fyrirkomulagið í golfinu og þess vegna erum við að skoða þennan möguleika.

Áfram myndi GSÍ sjá um fjölmörg barna- og unglingamót, en það væru Íslandsmótin í golfi, bæði í höggleik og holukeppni, einstaklinga, liða/sveita, af báðum kynjum og öllum aldursflokkum. Því fer fjarri að GSÍ sé að „draga sig úr“ mótahaldi fyrir börn og unglinga með fyrirliggjandi drögum. Ég held að fólk hafi misskilið þetta í umræðunni undanfarið og það er því sjálfsagt að leiðrétta það hér með.

Um þessi málefni þarf að taka umræðu og þar erum við stödd – í umræðufasanum. Umræðan hefur verið afar hjálpleg en það er mikilvægt að hún fari fram á yfirveguðum nótum og án allra upphrópanna. Það er ekki sanngjarnt, að mínu mati, að stilla málum þannig upp að GSÍ sé búið að missa áhugann á barna og unglingastarfi eða að GSÍ sé að senda vond skilaboð til yngri kylfinga. Ekkert er fjarri sanni. Þetta er mikilvægasti hópurinn íþróttarinnar og við þurfum að vanda til verka. Vinna saman.

Ég hlakka til að halda spjallinu áfram við golfklúbbana og ég veit að við lendum þessu máli, ásamt öðrum, á nótum sem allir eru sáttir við. Þannig náum við bestum árangri.


Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ