/

Deildu:

Auglýsing

Regla 10 fjallar um leikröð. Reglan er einföld og líklega eitt af því fyrsta sem kylfingar læra. Á fyrsta teig ræður rástafla eða hlutkesti leikröðinni. Sá sem á lægsta skor á holu leikur síðan fyrstur á næsta teig. Eftir teighöggin leikur sá næst sem á boltann sem er lengst frá holunni.

Skiptir einhverju máli hvort leikið er í réttri röð? Oftast ekki. Í holukeppni passa menn sig á að leika í réttri röð, því ef keppandi slær sinn bolta þegar mótherji hans á að leika getur keppandinn átt það yfir höfði sér að mótherjinn afturkalli höggið. Í höggleik (þ.á.m. punktakeppni) hefur það engar afleiðingar þótt leikið sé í rangri röð, nema ef keppendur koma sér saman um það til að einhver keppendanna hagnist á því.

Sú staðreynd að það er almennt refsilaust að víkja frá reglunni um leikröð í höggleik hefur leitt til þess að kylfingar eru sífellt oftar hvattir til að leika „ready golf“, til að flýta leik.
Hvatningin um að leika „Ready golf“ felst í aðalatriðum í tvennu:

Kylfingar séu vakandi fyrir því að tefja ekki leik að óþörfu og séu tilbúnir til að slá sinn bolta þegar það er hægt.

Kylfingar komi sér saman um að líta framhjá reglunni um leikröð ef það flýtir leik.
Þótt „Ready golf“ sé oft tengt við seinna atriðið má segja að það fyrra sé jafnvel mikilvægara. Í því felst að nýta tímann sem best, huga að kylfuvali þegar gengið er að boltanum, vera tilbúinn með kylfu og tí þegar kemur að manni að leika á teig o.s.frv.

Að tileinka sér „ready golf“ á við alls staðar á golfvellinum.

Á teignum
Sá sem á teiginn á að vera tilbúinn til að slá fyrstur. Ef hann er ekki tilbúinn slær einhver annar í ráshópnum fyrstur. Skorkortið er fyllt út á meðan aðrir í ráshópnum slá.

Á brautinni
Allir í ráshópnum ættu að fara að sínum bolta eins fljótt og hægt er. Á meðan beðið er eftir að næsti ráshópur á undan sé úr færi ættu kylfingar að undirbúa sitt högg, velja kylfu, taka hana úr golfpokanum og vera tilbúnir að slá. Ef sá sem er lengst frá holunni og „á að slá næstur“ hefur tafist slær einhver annar sem er tilbúinn.

Ef leita þarf að bolta fara aðrir í ráshópnum samt fyrst að sínum bolta og undirbúa sig. Langoftast finnst boltinn sem leitað er að mjög fljótlega og því er óþarfi að allur ráshópurinn fari strax í að leita. Þegar ljóst er að eigandi boltans finnur hann ekki eftir snögga yfirferð fara aðrir í ráshópnum til hans og hjálpa honum að leita, helst eftir að hafa sjálfir slegið sinn bolta.

Á flötinni
Þegar boltinn er kominn inn á flötina ættu allir að geyma golfpokann sinn við flötina þar sem gengið er í átt að næsta teig. Með því móti verður flötin fyrr laus fyrir næsta ráshóp á eftir.
Ef sá sem á boltann lengst frá holunni er ekki tilbúinn (er t.d. að raka glompu) púttar einhver annar sem er tilbúinn.
Mikilvægt er að nýta tímann á meðan aðrir pútta til að skoða púttlínuna, að því marki sem það er hægt án þess að trufla aðra.
Ástæðulaust er að merkja mjög stutt pútt, ef hægt er að pútta því og ljúka leik um holuna án þess að stíga í púttlínu annarra.
Um leið og síðasti kylfingurinn hefur púttað á að setja flaggstöngina í holuna og yfirgefa flötina. Skorkortið fyllum við út á næsta teig.
„Ready golf“ er eitt af því sem allir kylfingar ættu að temja sér. Ekkert í golfreglunum stendur í vegi fyrir því í höggleik.
„Ready golf“ snýst fyrst og fremst um að fylgja hugarfari skátanna um að vera ávallt viðbúin(n). Það felur ekki í sér að við þurfum að flýta okkur, heldur að við höfum hugann við golfið, hugsum fram í tímann og séum tilbúin að slá þegar það er hægt.

Hörður Geirsson
hordur.geirsson@gmail.com

IMG_3600

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ