Útsýnið er gott til allra átta við sjöundu flötina á Tungudalsvelli.
Auglýsing

Nú er komið að lokum. Það þarf að endurnýja í stjórninni og svo er ég búinn að týna golfinu og þarf að finna það aftur,“ segir Tryggvi Sigtryggsson sem gegnt hefur embætti formanns Golfklúbbs Ísafjarðar undanfarin níu ár. Tryggvi segir að hann sé nokkuð sáttur við stöðu mála hjá GÍ og fjárhagsstaðan sé með ágætum.

Tryggvi verður sjötugur næsta vor en hann starfar enn sem framhaldsskólakennari í málmiðngreinum við Menntaskólann á Ísafirði. Hann ætlaði sér að vera hættur kennslu en hljóp í skarðið í vetur þar sem ekki fannst kennari í hans stað.

[pull_quote_right]Ég byrjaði í golfi árið 1988 eða 1989 þegar ég fór á námskeið að vori til. Í kjölfarið fékk maður að leika frítt í eitt sumar og það var nóg fyrir mig. Ég hef verið hér síðan.[/pull_quote_right]

Við byggðum okkur sumarhús hér rétt fyrir ofan völlinn og það má því segja að ég sé nokkuð mikið hérna uppfrá,“ segir Tryggvi. Hann náði um tíma að vera með 10,8 í forgjöf en er langt frá því í dag, að eigin sögn. „Ég er „bógí“ spilari í dag, ég get ekki sagt að ég sé góður í golfi en það er alltaf jafn gaman að spila.

Tryggvi Sigtryggsson hefur verið formaður GÍ undanfarin níu ár en hann ætlar að láta af embætti á næsta aðalfundi.
Tryggvi Sigtryggsson hefur verið formaður GÍ undanfarin níu ár en hann ætlar að láta af embætti á næsta aðalfundi.
Skemmtilegur tími

Tryggvi fór fljótlega í nefndarstörf eftir að hann hóf að leika golf. Nafni minn Tryggvi, sem var áður formaður, plataði mig í nefndir og síðar varð ég formaður. Þessi tími hefur verið mjög skemmtilegur og ég hef starfað með góðu fólki í stjórninni. Fjárhagur GÍ var frekar erfiður þegar ég kom inn í þetta og hefur mestur tími stjórnar farið í borga niður skuldir. Það var dýrt að koma upp klúbbhúsinu og við fengum skell hvað lánin varðar í hruninu.  Framkvæmdir hafa því ekki verið miklar á vellinum á þessum tíma. Við komumst yfir skaflinn í fyrra, skuldum lítið sem ekkert í dag og getum því farið í framkvæmdir á vellinum sjálfum. Þeir sem hafa komið að starfi GÍ í gegnum tíðina hafa allir lagt sig fram fyrir klúbbinn og verkaskiptingin hefur verið nokkuð skýr.“

[quote_box_right]Um 2600 manns búa á Ísafirði og hefur félagafjöldinn hjá Golfklúbbi Ísafjarðar verið nokkuð stöðugur. Um 140 félagar eru í GÍ en það vantar fleiri yngri kylfinga í klúbbinn og konurnar mættu einnig vera fleiri.[/quote_box_right]

„Það eru alltof fáir krakkar í golfinu hérna. Það er mikil samkeppni á milli íþróttagreina og mikið í boði. Hér er öflugt starf í boltagreinunum, skíðadeildin er sterk og við fáum því miður ekki mikið af krökkum til okkar þó að golfvöllurinn sé ekki langt frá bænum. Við erum með ágætt starf fyrir börnin en ég tel að litlir og fámennir klúbbar á landsbyggðinni þyrftu að fá meiri aðstoð frá GSÍ hvað kennsluþáttinn varðar. Við stöndum ekki undir því að vera með kennara í vinnu en eitthvert samvinnuverkefni margra klúbba með aðkomu GSÍ gæti gert gæfumuninn að mínu mati.“

Séð upp eftir 9. braut á Tungudalsvelli og glæsilegt klúbbhús GÍ stendur þar á hæsta punkti vallarstæðisins.
Séð upp eftir 9. braut á Tungudalsvelli og glæsilegt klúbbhús GÍ stendur þar á hæsta punkti vallarstæðisins.
Vantar öfluga sláttuvél

Tryggvi segir að vallarstjóri Tungudalsvallar, Steinar Páll Ingólfsson, hafi unnið þrekvirki að koma vellinum í gott stand eftir ótrúlega erfiða tíð á undanförnum misserum. „Því miður getum við ekki verið með vallarstjóra í fullu starfi – þetta er því hlutastarf yfir sumartímann. Það er búið að vera leiðindaveður undanfarin þrjú ár og vorið í ár var óvenjuslæmt. Við höfum líka misst völlinn undir snjó um miðjan september. Tungudalurinn er snjóakista og það er oft erfitt hjá okkur á vorin að koma þessu af stað. Völlurinn hefur verið á þessu svæði í þrjá áratugi en við vorum í fyrstu með aðstöðu út í Hnífsdal. Túnin sem voru hér fyrir réðu að mestu hvernig völlurinn var mótaður og hannaður. Undirlagið er að mestu mór og það gerir okkur frekar erfitt fyrir þegar mikil bleyta er á vellinum. Það hefur samt ekki verið vandamál í sumar því það kom ekki rigning hér fyrir en langt var liðið á júlí.“

[quote_box_left]Vélakostur GÍ er ágætur að mati formannsins en hann hefur „hjartahnoðað“ margar vélar klúbbsins í gang í gegnum tíðina enda er það hans sérsvið. [/quote_box_left]

„Það vantar töluvert í vélakostinn til þess að við séum vel settir. Stóra málið er að fá nýja og öfluga vél til að slá kargann. Flatirnar eru handslegnar hérna og það er töluverð vinna og þá sérstaklega þar sem við erum með 15 flatir sem þarf að slá.“

Vallastjórinn Steinar Páll Ingólfsson hafði í nógu að snúast við að koma Tungudalsvelli í gott ástand eftir mikla kuldatíð í vor og sumar.
Vallastjórinn Steinar Páll Ingólfsson hafði í nógu að snúast við að koma Tungudalsvelli í gott ástand eftir mikla kuldatíð í vor og sumar.
Tími kominn á framkvæmdir á vellinum

[pull_quote_left]Það er ekki á dagskrá á Ísafirði að fara í stækkun á Tungudalsvelli. Með bættum samgöngum er lítið mál að skreppa út í Bolungarvík og leika þar golf ef kylfingar vilja fá tilbreytingu og leika á nýjum velli.[/pull_quote_left]

„Við erum með langtímaplan um töluverðar breytingar á vellinum og vonandi verður farið í þær framkvæmdir á næstu árum.  Það er búið að gera ýmislegt, s.s.glompur, og ein ný flöt er í vinnslu. Við erum ánægðir með að vera með níu holur og þegar það er svona stutt á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur þá er alltaf hægt að fara í „Víkina“ og leika níu holur þar ef maður vill fá tilbreytinguna. Þetta eru bara 10-15 mínútur hér á milli,“ segir Tryggvi en allir klúbbfélagar á Vestfjörðum geta leikið án endurgjalds á nánast öllum öðrum völlum á svæðinu.

Árgjaldið fyrir fullorðna í Golfklúbbi Ísafjarðar er 42.000 kr. og telur Tryggvi að það megi ekki hækka það mikið. „Það er of lítið af konum, ég giska á að það séu um tíu sem eru að spila og helmingur þeirra er virkur í mótahaldinu hjá okkur. Það eru samt sem áður kvennakvöld í hverri viku og kennsla í boði fyrir þá sem vilja. Við erum ekki með golfkennara en það er ágætur kylfingur hér í klúbbnum sem sér um þetta. Rögnvaldur Magnússon, Bolvíkingur sem er með PGA réttindi, var með vikunámskeið hér í vor. Það námskeið var vel sótt af kylfingum á öllum aldri,“ sagði Tryggvi Sigtryggsson formaður og var rokinn út á völl með hópi félagsmanna sem ætlaði að dytta að gróðri á vellinum.

Vallarstæðið á Tungudalsvelli er stórkostlegt og þaðan sést vel yfir Ísafjarðarbæ og Skutulsfjörð.
Vallarstæðið á Tungudalsvelli er stórkostlegt og þaðan sést vel yfir Ísafjarðarbæ og Skutulsfjörð.

[quote_box_left]Við erum með sex holu par 3 völl hér hinum megin við ána. Það kostar ekkert að spila þar, við leggjum mikla vinnu í að halda þessu gangandi og það er töluverður hópur sem nýtir sér þessa aðstöðu. Fólk sem er að byrja í golfi eða krakkar sem eru bara að leika sér í golfi. Við fáum alltaf eitthvað af fólki til okkar í klúbbinn sem hefur byrjað á þessum velli.[/quote_box_left]

Mikið af ferðafólki kemur í Tungudalinn

„Tjaldstæðið er við golfvöllinn og í júlímánuði höfum við ávallt fengið mikið af ferðafólki sem spilar golf hjá okkur hér í Tungudal. Við bjóðum upp á daggjald á völlinn og fólk kann vel að meta það. Það leikur oft níu holur að morgni, gerir síðan eitthvað annað um miðjan daginn og leikur aftur á kvöldin. Við erum með starfsmann í afgreiðslunni í golfskálanum frá hádegi og fram undir kvöldmat þegar mesta umferðin er yfir sumartímann.“

Vantar aðstoð við að koma golfnámskeiðum af stað

Það sem brennur mest á okkur er að fá meiri aðstoð við að koma golfnámskeiðum af stað, klúbbarnir á þessu svæði geta ekki staðið undir þeim kostnaði sjálfir. Það væri líka gaman að fá einn þekktan kylfing til að koma hingað vestur eina helgi, vera með kennslu, fyrirlestur og spila á móti hér á svæðinu. Slíkt yrði mikil lyftistöng fyrir litla klúbba eins og Golfklúbb Ísafjarðar. Birgir Leifur Hafþórsson kom á slíkt mót í Bolungarvík fyrir nokkrum árum og það var aðsóknarmet í mótið þegar hann mætti til leiks. Fólk sér ekki þessa kappa á hverjum degi og það er forvitið að vita hversu langt þeir slá miðað við aðra og slíkt.“

 

Séð yfir 2. og 8. flöt á Tungudalsvelli.
Séð yfir 2. og 8. flöt á Tungudalsvelli.

 

 

Útsýnið er gott til allra átta við sjöundu flötina á Tungudalsvelli.
Útsýnið er gott til allra átta við sjöundu flötina á Tungudalsvelli.
Ásgeir Guðbjartsson skipstjóri á Ísafirði er betur þekktur í daglegu tali sem Geiri. Bjartar eða Geiri á Guggunni. Hann er hér til vinstri á myndinni að pútta á 9. flöt á Tungudalsvelli.
Ásgeir Guðbjartsson skipstjóri á Ísafirði er betur þekktur í daglegu tali sem Geiri. Bjartar eða Geiri á Guggunni. Hann er hér til vinstri á myndinni að pútta á 9. flöt á Tungudalsvelli.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ