Samstarfsaðilar
/

Deildu:

Edwin Roald.

Umhverfissamtökin Golf Environment Organization, GEO, hafa lýst yfir stuðningi við hugmyndir íslenska golfvallahönnuðarins Edwins Roalds um að endurheimta þann ótakmarkaða sveigjanleika sem áður var við lýði gagnvart holufjölda á golfvöllum, en Edwin telur að slík breyting muni stórauka möguleika golfleiksins til að höfða betur til kylfinga, sjónarmiða um umhverfisvernd og verða öflugri þátttakandi í samfélaginu. Á vefsvæðinuwhy18holes.com, sem Edwin heldur úti, segir Jonathan Smith, framkvæmdastjóri GEO:

„Why18holes-nálgunin er upplífgandi og kærkomin hugmynd sem hvetur til aukins sveigjanleika og aðlögunarhæfni við hönnun golfvalla. Hugmyndin um að landslag og aðrar auðlindir, sem í boði eru, skuli móta allar meiriháttar ákvarðanir sem teknar eru, meira að segja hversu margar holurnar verða, er kraftmikil og sannfærandi. Við dáumst að og hvetjum Edwin í viðleitni hans til að endurhugsa þætti í golfvallahönnun sem svo lengi hefur verið litið á sem sjálfsagða, sem og í leit hans að nýstárlegum lausnum sem sækja innblástur í aldagömul gildi.“

Golf Environment Organization eru umhverfissamtök sem stofnuð hafa verið til að hvetja golfhreyfinguna til að temja sér sjálfbæra starfshætti. Umhverfismerki þeirra, GEO Certified, er orðið mjög útbreitt í golfheiminum og eru Keilir og Nesklúbburinn einu íslensku golfklúbbarnir meðal þeirra 160 á heimsvísu sem hana hafa fengið.

Næstu misseri verða fyrstu nýju golfvellirnir kynntir til sögunnar, sem farið hafa í gegnum vottunarkerfi GEO fyrir nýframkvæmdir, og er sjálfur ólympíuvöllurinn í Ríó þar á meðal. Af þessu að dæma hefur GEO vaxið fiskur um hrygg og náð traustri fótfestu í heimsgolfinu, sem varpar skýru ljósi á þá þýðingu sem stuðningsyfirlýsing samtakanna hefur fyrir hugmyndir Edwins um sveigjanlegri holufjölda.

Fyrr á þessu ári hafði hinn konunglegi og forni golfklúbbur St. Andrews, R&A, sent frá sér ámóta stuðingsyfirlýsingu, en R&A leiðir golfhreyfinguna á heimsvísu utan Bandaríkjanna og Mexíkó. Þá yfirlýsingu er einnig að finna á vef Edwins, why18holes.com.

 

Deildu:

Auglýsing