/

Deildu:

Jussi Pitkanen
Auglýsing

Jussi Pitkanen hefur verið ráðinn sem afreksstjóri Golfsambands Íslands og tekur hann við starfinu í byrjun ársins 2017. Jussi Pitkanen er 39 ára gamall, fæddur í Finnlandi, en hefur búið og starfað á Írlandi í mörg ár. Hann tekur við af Úlfari Jónssyni sem hefur verið landsliðsþjálfari GSÍ á undanförnum árum.

„Ég er mjög ánægður með niðurstöðuna eftir þetta faglega ráðningarferli og tel að með ráðningu Jussi Pitkanen munum við fá virkilega metnaðarfullan og hæfan einstakling til þess að leiða afreksmál GSÍ. Jussi Pitkanen hefur víðtæka reynslu á öllum sviðum sem mun nýtast honum og okkur vel á okkar vegferð við að fylgja okkar afreksstefnu og við byggja upp íslenska afrekskylfinga og landslið Íslands til framtíðar. Ég hlakka til að bjóða hann velkominn til starfa og fá hann til liðs við okkur hjá GSÍ,“ segir Brynjar Eldon Geirsson framkvæmdastjóri GSÍ en um 50 aðilar sóttu um stöðu afreksstjóra GSí og þar af bárust 46 umsóknir frá erlendum aðilum.

Í viðtali við golf.is segir Jussi Pitkanen að það ríki mikil tilhlökkun hjá honum að taka við nýja starfinu en hann verður búsettur í Dublin á Írlandi og kemur hingað til lands með reglulegu millibili.

Ég hef lengi haft það sem markmið og átt mér þann draum að fá tækifæri í slíku starfi. Á undanförnum árum hef ég einbeitt mér að því að afla mér enn meiri þekkingar til þess að vera tilbúinn til þess að leiða landsliðsstarf.

Það sem vakti mestan áhuga hjá mér á starfinu var starfslýsingin. Þar var tekið fram að sá sem yrði ráðinn ætti ekki aðeins að einbeita sér að afreksstarfinu hjá þeim elstu. Það var einnig óskað eftir því að sá sem yrði ráðinn ætti að leggja línurnar fyrir heildarmyndina í afreksstarfinu hjá GSÍ. Ég var viss um að reynslan mín og þekking gæti nýst vel í þetta verkefni.

Jussi Pitkanen er 39 ára gamall, fæddur í Finnlandi, en hefur búið á Írlandi í mörg ár. Hann er fjölskyldumaður og á einn son sem er fjögurra ára.

[pull_quote_right]Jussi Pitkanen er 39 ára gamall, fæddur í Finnlandi, en hefur búið á Írlandi í mörg ár[/pull_quote_right]

„Við búum rétt við Dublin á Írlandi. Á undanförnum þremur árum hef ég starfað hjá samtökum PGA á Bretlandi og Írlandi. Þar ég hef stýrt kennslu PGA þjálfara/kennara samhliða endurmenntunar – og þróunarstarfi,“ segir Jussi Pitkanen en hann starfaði í mörg ár hjá einum virtasta golfsérfræðingi veraldar, Dave Pelz.

„Ég var einn af kennurunum hjá Dave Pelz, sem hefur sérhæft sig í þekkingu og kennslu á stutta spilinu. Við komum að þjálfun hjá kylfingum á öllum stigum atvinnumennskunnar, þar má nefna leikmenn á Evrópumótaröðinni, LET Evrópumótaröð kvenna, Áskorendamótaröðinni, bestu áhugakylfingum heims. Í raun voru kylfingar á öllum getustigum að koma til okkar í þjálfun í stutta spilinu.“

Jussi reyndi fyrir sér sem atvinnukylfingur og sú reynsla leiddi hann áfram í meistaranám í íþróttaþjálfun við háskólann í Birmingham. „Í meistaranáminu mínu rannsakaði ég m.a. hvernig afrekskylfingum gengur að stíga skrefið úr áhugamennsku í atvinnumennsku.“

Foreldrar Jussi búa enn í Finnlandi þar sem að Evrópumót stúlknalandsliða fer fram á næsta ári en Jussi var klúbbmeistari á sínum tíma í þeim klúbbi sem heldur mótið. Ég á tvær systur, önnur þeirra býr í Toronto í Kanada, og hin býr í Bristol á Englandi. Í frístundum reyni ég að hreyfa mig eins og ég get, og ég hef gaman að því að keppa í götuhjólreiðum.“

Mitt fyrsta verkefni verður að kynnast því sem afrekskylfingar á Íslandi eru að gera og hvernig þeir eru að æfa. Ég nota ýmsar aðferðir til þess að safna upplýsingum um stöðu kylfinga og fæ þannig mikilvæg gögn fyrir framhaldið. Samvinna við golfklúbba og þjálfara þeirra á Íslandi er lykilþáttur í þessu öllu saman. Þegar ég sé gögnin sem við fáum út úr þessum mælingum get ég borið það saman við þau gögn sem til eru um bestu kylfinga heims. Þannig getum við fundið saman þá þætti í leiknum sem hver einstakur kylfingur þarf að bæta sig sérstaklega í. Ég kom til Íslands nýlega til þess að kynna mér aðstæður og það eru margir möguleikar hérna. Ég mun vinna náið með þeim þjálfurum sem eru að þjálfa afrekskylfingana hér á landi, mitt hlutverk er ekki að taka yfir þeirra störf, ég mun styðja við bakið á þjálfurunum, ræða möguleikana sem eru í stöðunni, og þetta er samvinnuverkefni.“

[pull_quote_right]Samvinna við golfklúbba og þjálfara þeirra á Íslandi er lykilþáttur í þessu öllu saman[/pull_quote_right]

Jussi bætir því við að hann hafi mikinn áhuga á að kynna sér söguna sem býr að baki árangri atvinnkylfinga frá Íslandi og nefnir þar Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur og Birgi Leif Hafþórsson sem dæmi. „Þau hafa náð lengst hér á landi og mér finnst mjög áhugavert að skoða sögu þeirra, hvað þau gerðu og hvernig, og ég get þá bætt reynslu minni í þann gagnagrunn sem er til staðar hér á landi hvað þetta varðar. Ég hef verið heppinn að kynnast nokkrum íslenskum afrekskylfingum í gegnum starf mitt hjá Dave Pelz. Ég hef verið í sambandi við nokkra þeirra frá þeim tíma og þeir hafa upplýst mig um ýmislegt sem hefur verið í gangi hér á landi.“

Jussi er sannfærður um að árangur Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur gefi öðrum íslenskum kylfingum enn meiri von og trú að allt sé hægt ef vinna er lögð í verkefnið.

„Ég ætla mér að læra af því sem Ólafía Þórunn hefur gert – og miðla því áfram til afrekskylfinga í mínu starfi. Markmiðið er að fá enn fleiri kylfinga til þess að ná alla leið á mótaraðir þeirra bestu.“

Að mati Jussi er Ísland sofandi risi hvað golfíþróttina varðar. „Þátttaka Íslendinga í golfi er einstök á heimsvísu, en um 10% þjóðarinnar spilar golf, ég sé mikil tækifæri í þessum staðreyndum og ég ætla að segja að Ísland sé risi í golfíþróttinni, við eigum eftir að ýta við þessum risa og vekja hann.“
[pull_quote_right]
Að mati Jussi er Ísland sofandi risi hvað golfíþróttina varðar[/pull_quote_right]

Jussi kemur til Íslands í lok janúar þar sem hann mun m.a. funda með PGA kennurum á Íslandi.
„Það verður fyrsta formlega verkefnið hjá mér. Ég mun koma til landsins í febrúar, mars og apríl. Þar hitti ég kylfinga á landsliðsæfingum og við keyrum í gang starfið okkar. Ég get varla beðið eftir að því að byrja. Ég er gríðarlega spenntur og þakklátur að hafa fengið tækifæri til þess að þróa golfíþróttina enn frekar í spennandi umhverfi á Íslandi,“ sagði Jussi Pitkanen við golf.is.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ