Ótrúlegt holl hóf leik á Danish Golf Challenge mótinu í morgun. Mótið er hluti af HotelPlanner mótaröðinni sem er sú næst sterkasta í Evrópu.
Eftir þriggja daga leik voru Nick Carlson, GM, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, og Haraldur Franklín Magnús, GR, allir jafnir á tveimur höggum undir pari og í 53. sæti mótsins.
Svo skemmtilega hitti á að þeir félagarnir lentu allir saman í holli á lokadegi mótsins. Það verður því íslenskur bragur yfir einu af hollum mótsins í dag, en þeir félagarnir fóru af stað kl. 06:35 í morgun.
Eftir sex holur eru Guðmundur og Haraldur jafnir í 46. sæti eftir að hafa spilað á pari hingað til í dag. Guðmundur hefur fengið sex pör á meðan Haraldur hefur nælt sér í tvo fugla og tvo skolla.
Nick Carlson er höggi á undan, einn undir pari og jafn í 40. sæti. Eftir örn á fimmtu holu, sem var hans annar í mótinu, fékk Nick skolla á þeirri sjöttu.