Vormót GÞ hefst laugardaginn 24. maí á Þorláksvelli hjá Golfklúbbi Þorlákshafnar.
Í mótinu munu keppendur leika 36 holur án forgjafar í breyttri punktakeppni, bæði í liðakeppni og einstaklingskeppni. Leiknar eru 18 holur á laugardegi í ProAm móti og 18 holur á sunnudegi. Stigagjöf er eftirfarandi:
- Albatross: 8 punktar
- Örn: 5 punktar
- Fugl: 2 punktar
- Par: 0 punktar
- Skolli: -1 punktur
- Tvöfaldur skolli eða verra: -3 punktar
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit.
Fyrri keppnisdagur
Veðrið lék við kylfinga á fyrri keppnisdegi VitHit Vormóts GÞ. Þvert á veðurspá fyrr í vikunni var logn og blíða á Þorlákshöfn í dag. Völlurinn er einnig í flottu standi svo það voru svo gott sem fullkomnar aðstæður til að spila golf.
Fyrirkomulagið í dag var ProAm mót þar sem tveir almennir kylfingar léku með tveimur kylfingum úr GSÍ mótinu. Í Vormótum er fyrirkomulagið breytt punktakeppni, en stigagjöfina má sjá hér að ofan.
Mikil gleði var á vellinum í dag og skorið eftir því.
Í karlaflokki var það Sigurður Bjarki Blumenstein, GR, sem lék best, en hann fékk 15 punkta á hringnum. Einn örn, sex fuglar og tveir skollar skiluðu honum efsta sætinu. Sigurður var einn af fimm kylfingum í karlaflokki sem fengu örn á hring dagsins, en ernir geta skipt sköpum í breyttu punktakeppninni.
Á eftir Sigurði er Arnór Tjörvi Þórisson, GR, sem lék á 14 punktum. Arnór fékk flesta fugla allra kylfinga í dag, eða níu talsins.
Jafnir í þriðja sæti eru Tómas Hjaltested, GR, og Kristófer Karl, GM. Tómas varð annar í Vormóti GM um síðustu helgi og hefur því sumarið af krafti. Kristófer fékk örn á níundu holu eftir frábært teighögg á par 4 holunni.
Í kvennaflokki er Heiðrún Anna Hlynsdóttir, GOS, efst eftir fyrri keppnisdag. Hún er tólf punktum á undan öðru sætinu, en Heiðrún lék gott golf í dag og lauk leik með 8 punkta.
Heiðrún fékk bæðir flest pör og flesta fugla í kvennaflokki.

Á eftir Heiðrúnu koma Katrín Hörn, GKG, og Hafdís Alda, GK, á -4 og -5 punktum. Það verður hart barist um verðlaunasætin á morgun.
Guðrún Birna Snæþórsdóttir var eini kylfingurinn í kvennaflokki sem fékk örn. Það gerði hún á 9. holunni, sem spilaðist ein af erfiðari holum dagsins.
Keppendur eru alls 42, sem var hámarksfjöldi í mótið. Koma þeir frá 9 klúbbum víðs vegar af landinu.
Í karlaflokki eru 34 keppendur. Meðalforgjöf í karlaflokki er +2, sú lægsta er +5.3 og sú hæsta er 0.7. Fimmtán kylfingar eru með +2 eða lægra í forgjöf, og má því búast við hörkuskori í mótinu. Sigurvegari Vormóts GM, Andri Már Óskarsson er á meðal keppenda. Einnig mæta Tómas Eiríksson Hjaltested og Aron Emil Gunnarsson, sem voru í verðlaunasæti á síðasta móti.
Í kvennaflokki eru 8 keppendur. Meðalforgjöf keppenda er 2.9, sú lægsta er +1.1 og sú hæsta er 7. Engin af efstu fjórum keppendunum úr Vormóti GM tekur þátt þessa helgina þannig búast má við sveiflum á stigalistanum.
GR á flesta keppendur í mótinu eða 14 talsins, GK er með 8 keppendur og GKG eru með 7.
Klúbbur | Konur | Karlar | Samtals |
GA | 0 | 1 | 1 |
GBO | 0 | 1 | 1 |
GK | 2 | 6 | 8 |
GKG | 3 | 4 | 7 |
GM | 1 | 3 | 4 |
GOS | 2 | 3 | 5 |
GR | 0 | 14 | 14 |
GS | 0 | 1 | 1 |
NK | 0 | 1 | 1 |