Auglýsing

Hulda Clara Gestsdóttir, GKG og Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, eru á meðal keppenda á Evrópumóti einstaklinga hjá áhugakylfingum sem fram fer í dagana 20.-23. júlí. Keppt er á Golf de St Germain golfsvæðinu sem er rétt við París í Frakklandi.

Þetta er í 35. sinn sem þessi keppni fer fram en það er Golfsamband Evrópu, EGA, sem er framkvæmdaraðili mótsins. Mótið fór fyrst fram árið 1986 og þar mæta til leiks bestu áhugakylfingar Evrópu í kvennaflokki.

Alls eru 144 keppendur og koma þeir frá 35 mismunandi þjóðum. Keppnisfyrirkomulagið er höggleikur og eru leiknir fjórir 18 holu hringir á fjórum keppnisdögum. Niðurskurður er eftir þriðja keppnisdaginn og komast 60 efstu áfram á lokahringinn þar sem að keppt er um Evrópumeistaratitil áhugakylfinga í kvennaflokki 2022.

Þetta er í þriðja sinn sem Ragnhildur keppir á þessu móti – en besti árangur hennar er 61. sæti árið 2019. Hulda Clara lék á þessu móti líkt og Ragnhildur í fyrra þar sem þær komust ekki í gegnum niðurskurðinn að loknum þriðja keppnisdegi.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, á bestan árangur á þessu móti, 4. sætið árið 2017.

Le Grand Parcours völlurinn á Golf de Saint Germain svæðinu er á meðal 10 bestu golfvalla Frakklands og oftar en ekki á topp 20 lista yfir bestu golfvelli Evrópu. Opna franska meistaramótið hefur farið níu sinnum fram á þessu svæði og Heimsmeistaramót áhugakylfinga í kvennaflokki, Espirito Santo Trophy, var á þessu svæði árið 1964.

Emma Spitz frá Austurríki er í 7. sæti heimslistans og Amalie Leth-Nissen frá Danmörku, sem er í 9. sæti heimslista áhugakylfinga, eru stigahæstu leikmenn mótsins á heimslistanum. Í heildina eru 21 kylfingar á topp 100 á heimslistanum á meðal keppenda. Þar má nefna Hannah Darling frá Skotlandi sem er í 7. efsta sæti af evrópskum kylfingum á heimslista áhugakylfinga í kvennaflokki. Hún náði flottum árangri í höggleikskeppninni á EM í liðakeppni sem fram fór nýverið í Wales – þar sem hún var efst. Árið 2019, þegar Darling var 14 ára, var hún efst á EM einstaklinga þegar keppni var hálfnuð. Hún hefur ekki tekið þátt á síðustu tveimur EM mótum einstaklinga vegna heimsfaraldurs.

Caley McGinty, sem er í 5. sæti yfir evrópska kylfinga á heimslista áhugakylfinga í kvennaflokki, er á meðal keppenda en hún var í Evrópumeistaraliði Englands sem sigraði á EM í Wales.

Sænski kylfingurinn Ingrid Lindblad, sem er í 2. sæti heimslista áhugakylfinga, mætir ekki í titilvörnina – þar sem hún er að keppa á Evian risamótinu á atvinnumótaröðunum LPGA/LET í Frakklandi. Lindblad lék gegn hinni 15 ára gömlu Perlu Sól Sigurbrandsdóttur á EM í liðakeppni nýverið sem að Perla Sól gaf ekkert eftir og tapaði naumlega 2/1 í viðureign þeirra.

Allir sex keppendurnir úr stúlknaliði Frakklands, sem sigraði á EM stúlkna á Urriðavelli nýverið, eru á meðal keppenda á þessu móti.

Paula Schulz-Hanssen frá Þýskalandi er eini keppandinn sem hefur áður sigrað á EM einstaklinga í kvennaflokki hjá áhugakylfingum.

Cayetana Fernandez Garcia-Poggio frá Spáni og Francesca Fiorellini frá Ítalíu eru einnig líklegar til afreka á þessu móti. Þær hafa báðar sigrað á stórum áhugamannamótum á þessu tímabili. Fernandez sigraði á Copa. S.M. La Reina mótinu í heimalandi sínu og Fiorellini sigraði á Opna portúgalska áhugamannamótinu fyrr á þessu ári.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ