Samstarfsaðilar
Haraldur Franklín Magnús. Mynd/seth@golf.is

Haraldur Franklín Magnús, GR, er í 28. sæti þegar keppni er hálfnuð á Áskorendamótaröðinni sem fer fram á Novo Sancti Petri á Spáni. Haraldur Franklín er á pari vallar samtals (74-70). Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, komst ekki í gegnum niðurskurðinn en hann lék fyrstu tvo hringina á +9 samtals (76-77).

Mótið fer fram á Novo Sancti Petri í Cadiz héraði á Spáni og er það jafnframt næst síðasta mótið á keppnistímabilinu á ChallengeTour.

Haraldur Franklín Magnús, GR, var fyrsti maður á biðlista fyrir þetta mót og á síðustu stundu var ljóst að hann komst inn á keppendalistann.

Staða keppenda er uppfærð hér:

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, mynd/seth@golf.is

Áskorendamótaröðin er næst sterkasta atvinnumótaröð Evrópu í karlaflokki á eftir sjálfri Evrópumótaröðinni.

Guðmundur Ágúst var einu höggi frá því að komast í gegnum niðurskurðinn á síðasta móti sem fór einnig fram á þessum velli. Haraldur Franklín var ekki á meðal keppenda en hann var fimmti á biðlista fyrir mótið.

Guðmundur Ágúst var í sæti nr. 42 á stigalistanum á Áskorendamótaröðinni fyrir þetta mót. Haraldur Franklín er í sæti nr. 102 á stigalistanum.

Aðeins 45 stigahæstu kylfingarnir komast inn á lokamótið á Áskorendamótaröðinni sem fram fer á Mallorca 19.-22. nóvember og er Guðmundur Ágúst Kristjánsson í góðri stöðu varðandi lokamótið. Á lokamótinu á Mallorca keppa 45 efstu keppendurnir á stigalistanum um 20 efstu sætin sem tryggja keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta tímabili. 

Guðmundur Ágúst hefur farið hratt upp stigalistann á Áskorendamótaröðinni á þessu tímabili. Hann var í sæti nr. 135 þegar keppnistímabilið hófst. Besti árangur hans er 5. sætið á móti sem fram fór í Norður-Írlandi í byrjun september á þessu ári. 

Birgir Leifur Hafþórsson, sjöfaldur Íslandsmeistari í golfi, er eini íslenski atvinnukylfingurinn í karlaflokki sem hefur komist inn á lokamótið á Áskorendamótaröðinni. Birgir Leifur var í 35. sæti fyrir lokamótið en endaði í 37. sæti á lokastigalistanum. Það er besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á Áskorendamótaröðinni. 

Birgir Leifur er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur komist inn á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu með fullan keppnisrétt. 

Aðeins fimm íslenskir karlkylfingar hafa verið með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni frá árinu 1999 þegar Birgir Leifur braut ísinn.

Birgir Leifur á 16 keppnistímabil að baki á Áskorendamótaröðinni og alls 155 mót. Besti árangur hans er 1. sæti árið 2017 á móti í Frakklandi og er það eini sigur hans á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. 

Árið 2002 lék Björgvin Sigurbergsson, GK,  á 11 mótum á Áskorendamótaröðinni og endaði í 179. sæti á stigalistanum. 

Axel Bóasson, GK, lék á 16 mótum árið 2018 og endaði í sæti nr. 224 á stigalistanum. 

Guðmundur Ágúst, GR,  er á sínu öðru tímabili á Áskorendamótaröðinni. Hann lék á 6 mótum í fyrra og endaði í sæti nr. 109 á stigalistanum. 

Haraldur Franklín, GR, er á sínu fyrsta tímabili á Áskorendamótaröðinni.

Mótin sem eru framundan á Áskorendamótaröðinni eru: 

11.-14. nóvember:
Iberostar Real Club de Golf Novo Sancti Petri, Cadiz.

19.-22. nóvember:
T-Golf & Country Club, Mallorca, Baleares.

Deildu:

Auglýsing