Frá Jaðarsvelli, Golfklúbbur Akureyrar, 2020. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

Golfklúbbar landsins hafa margir hverjir sett fram áhugaverða tölfræði varðandi golfsumarið 2020. Golfklúbbur Akureyrar er þar á meðal og í samantekt GA kemur fram að golfsumarið 2020 fer í metabækurnar á flestum sviðum. Akureyri var vinsæll áfangastaður í golfferðir á árinu 2020 hjá íslenskum kylfingum. 

Alls var Jaðarsvöllur opinn í 163 daga sem er næst lengsta opnun frá árinu 2014 þegar skipulögð talning hófst. Í fyrra var opið í 166 daga en hertar sóttvarnarreglur sem tóku gildi þann 1. nóvember gerðu það að verkum að nýtt met var ekki sett á þessu sviði árið 2020 hjá GA. 

Alls voru leiknir 26.982 hringir á Jaðarsvelli sem er það mesta frá árinu 2014. Það er 25% aukning frá metárinu 2014 eða 5000 hringjum meira. Þess má geta að veðrið var eitt það besta í manna minnum á Akureyri sumarið 2014. 

Að meðaltali voru leiknir  166 hringir á dag á Jaðarsvelli. Í júní, júlí og ágúst voru að meðaltali spilaðir 212 hringir á dag á Jaðarsvelli sem eru 50 fleiri hringir á dag miðað við sama tíma árið 2019. 

Félagsmenn úr GA léku alls 18.022 hringi á Jaðarsvelli sumarið 2020 og 20.129 alls þegar hringir í mótum eru taldir með hjá félagsmönnum GA. Þetta er um 20% aukning frá árinu 2019 eða sem nemur 3.000 hringjum. 

Spilaðir hringir í mótum hjá GA voru 3.658 hringir eða rétt tæplega 200 færri en árið 2019. 

Heilt yfir var þátttaka í mótum í sumar góð hjá GA og jókst þátttakan á milli ára en það voru ívið færri mót í ár en undanfarin ár og meira um að völlurinn væri opinn fyrir almennt spil. 

GA félagar spiluðu 2.107 hringi í mótum og aðrir 1.551 hring. 

Af þeim 26.982 hringjum sem spilaðir voru á Jaðarsvelli voru 6.853 hringir spilaðir af öðrum en GA félögum eða rétt rúmlega 25% hringja. Það er gríðarleg aukning frá undanförnum árum og er greinilegt að mikill íslenskur ferðamannastraumur var norður á Akureyri í sumar. 

Hjá vinavallaklúbbum GA var mikil aukning, 125% aukning var á spili hjá Keilisfélögum og hjá GM félögum, 61% hjá GKG félögum og 69% hjá GO félögum. 

Erlendir kylfingar voru ekki áberandi á Jaðarsvelli í sumar. Forsvarsmenn GA vonast að sjálfsögðu til að staðan verði betri á næsta ári. Nú þegar hafa 27 erlendir kylfingar skráð sig til leiks í Arctic Open 2021. 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ