Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG.
Auglýsing

Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG, heldur sigurgöngu sinni áfram í holukeppninni á The Amateur Championship eða Opna breska áhugamannamótinu sem fram fer á Ballyliffin golfsvæðinu á Írlandi.

Í morgun sigraði hann Tim Wiedemeyer frá Þýskalandi í 32-manna úrslitum eða 2. umferð og keppir hann í 16. manna úrslitum eftir hádegi í dag þar sem hann mætir Marcel Fonseca frá Spáni.

Leikurinn gegn Tim Wiedemeyer var jafn og spennandi, og réðust úrslitin á lokaholunni þar sem að þýski kylfingurinn fékk skolla (+1) en Gunnlaugur Árni fékk par. Sigur Gunnlaugs Árna gegn Wiedemeyer er áhugaverður þar sem að Þjóðverjinn er í sæti nr. 180 á heimslista áhugakylfinga en Gunnlaugur Árni er í sæti nr. 947.

Marcel Fonseca er í sæti nr. 682 á heimslista áhugakylfinga.

Gunnlaugur Árni lék gegn Kevin Christhoper Jagers frá Eistlandi í gær í 64. manna úrslitum – þar sem að Gunnlaugur Árni tryggði sér sigurinn á lokaholunni. Þar setti Gunnlaugur Árni niður um 4 metra pútt fyrir fugli og sigri í leiknum.

Logi Sigurðsson, GS og Veigar Heiðarsson, GA léku einnig á þessu móti en þeir komust ekki áfram eftir höggleikskeppnina.

Gunnlaugur Árni endaði í 28. sæti á 145 höggum (+2) (72-73), Logi Sigurðsson endaði á 149 höggum (+6) (72-77), og Veigar Heiðarsson endaði á 155 höggum (+12) (76-79).

Smelltu hér fyrir úrslit leikja í holukeppninni:

Mótið er eitt af sterkustu áhugamannamótum veraldar – en það fór fyrst fram árið 1885. Margir þekktir kylfingar hafa sigrað á þessu móti og má þar nefna Bobby Jones, Sergio Garcia og José María Olazábal.

Alls voru 288 keppendur sem hófu leik og kepptu þeir um 64 efstu sætin og þar með keppnisrétt í holukeppninni sem tók við eftir höggleikskeppnina.

Sigurvegarinn fær boð um að taka þátt á risamótum atvinnukylfinga, The Open og Opna bandaríska meistaramótinu – og oftast hefur sigurvegarinn fengið boð um að taka þátt á Mastersmótinu á Augusta.

Keppnisvellirnir eru tveir: Ballyliffin-Glashedy (Par 72) og Ballyliffin-Old Course (Par 71).
Keppnisfyrirkomulagið er höggleikur fyrstu tvo dagana, eftir það komast 64 efstu í holukeppni þar sem að kylfingurinn í efsta sæti höggleiksins leikur gegn kylfingnum í 64. sæti. Í holukeppninni eru leiknar tvær umferðir á dag, og úrslitaleikurinn er 36 holur á einum degi.

Smelltu hér fyrir lokastöðu í höggleiknum:

Dagbjartur Sigurbrandsson, GR, var hársbreidd frá því að komast inn í þetta mót en hann tók þátt í úrtökumóti s.l. föstudag þar sem hann fór í bráðabana um laust sæti í mótinu.

Haraldur Franklín Magnús, GR, komst alla leið í 16-manna úrslit á þessu móti árið 2013.

Frá vinstri Veigar Logi Gunnlaugur Árni og Dagbjartur MyndÓBL


Deildu:

Auglýsing
 
Auglýsing
 

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ