Auglýsing

Árný Lilja Árnadóttir fékk í dag viðurkenningu sem sjálfboðaliði ársins hjá Golfsambandi Íslands. Þessi viðurkenning var veitt í fyrsta sinn árið 2014 og er Árný Lilja áttundi sjálfboðaliðinn sem fær þessa viðurkenningu.

Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ, afhenti viðurkenninguna á þingi GSÍ sem fram fer í Reykjavík.

Árný Lilja hefur starfað sem sjálfboðaliði fyrir Golfklúbb Skagafjarðar og þar áður Golfklúbb Sauðárkróks í tugi ára. Árný Lilja hefur unnið af krafti í flestum nefndum GSS og tekið þátt í starfi klúbbsins með miklum krafti og staðið sig með sóma.

Árið 2021 var engin undantekning nema síður sé hjá Arnýju Lilju. Hún tók að sér að þjálfa fjölmennasta nýliðahóp GSS frá upphafi. Aðsóknin var slík að hópnum var skipt upp í þrjá hópa. Æfingar fóru fram tvívegis í viku í 5 vikur samfellt – og allt þetta gerði Arný Lilja í sjálfboðaliðastarfi.

Árný Lilja handarbrotnaði þegar námskeiðið var hálfnað en hún lét það ekki stöðva sig og hélt áfram að hvetja nýliða GSS áfram. Árný Lilja er mikil fyrirmynd fyrir nýliða GSS sem bera mikla virðingu fyrir henni.

Árný, starfar sem sjúkraþjálfari á Sauðárkróki, gengur í öll verk sem þarf að leysa hjá GSS í sjálfboðavinnu.

Á undanförnum þremur árum hefur mikil fjölgun verið hjá GSS og eru nýliðanámskeið Árnýjar Lilju stór hluti af þeirri aukningu. Árný Lilja starfar sem sjúkraþjálfari en hún er dóttir Árna Jónssonar sem starfaði lengi sem golfkennari hjá GA og GSS. Hún hefur greinilega erft golfkennsluhæfileika föðurs síns.

Fjölskylda Árnýjar hefur látið ýmislegt gott af sér leiða í starfi GSS í gegnum tíðina. Rafn Ingi eiginmaður hennar er fyrrum formaður GSS og synir þeirra eru nú þegar farnir að aðstoða við golfkennsluna.

Árný hefur verið liðsstjóri kvennasveitar GSS sem hefur keppt í efstu deild undanfarin misseri. Hún er ein af fáum golfdómurum GSS og lætur sitt ekki eftir liggja þegar óskað er eftir starfskröftum hennar til að dæma á opnum mótum GSS. Hún hefur einnig ávallt verið til aðstoðar í öllu mótahaldi GSS og þá sérstaklega fyrir börn, unglinga og konur.

Sjálfboðaliðar ársins frá upphafi:

2014: Guðríður Ebba Pálsdóttir, GB
2015: Viktor Elvar Viktorsson, GL
2016: Guðmundur E. Lárusson. GA
2017: Már Sveinbjörnsson, GK
2018: Reynir Pétursson, GÍ
2019: Helgi Örn Viggósson, GR
2020: Þorkell Helgason, NK
2021: Árný Lilja Árnadóttir, GSS

Haukur Örn Birgisson forseti GSí og Árný Lilja Árnadóttir. Mynd/seth@golf.is

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ