Vormót GM hefst laugardaginn 17. maí á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar.
Mótið er fyrsta mót tímabilsins á GSÍ mótaröðinni og verða leiknar 36 holur yfir helgina. Fyrirkomulag mótsins er breytt punktakeppni, en stigagjöfin er eftirfarandi:
- Albatross: 8 punktar
- Örn: 5 punktar
- Fugl: 2 punktar
- Par: 0 punktar
- Skolli: -1 punktur
- Tvöfaldur skolli eða verra: -3 punktar
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit.
Fyrri keppnisdagur
GSÍ mótaröðin hófst formlega í dag á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Sólin skein í allan dag en vindurinn gerði leikinn strembnari. Fyrsta holl mótsins samanstóð af Axeli Bóassyni, Kristjáni Þór Einarssyni og Andra Má Björnssyni. Samanlögð forgjöf í því holli var +13.9.
Fyrri 9 reyndust keppendum erfiðar, en þar voru 8 af 10 erfiðustu holum dagsins. Þegar komið var á seinni níu fóru keppendur að sækja fleiri fugla. Fimm ernir deildust á milli hola 10, 12 og 13, en ernir gefa fimm dýrmæt stig í breyttu punktakeppninni.
Mikið af flottum skorum mátti sjá yfir daginn í dag þó vindurinn gerði mörgum erfitt fyrir.
Aron Emil Gunnarsson og Einar Bjarni Helgason léku best í karlaflokki og komu inn með 8 punkta. Aron fékk fimm fugla og tvo skolla, á meðan Einar fékk átta fugla, tvo skolla og tvo tvöfalda skolla. Þéttur pakki er á eftir þeim og ljóst að hart verður barist um fyrsta titil ársins á morgun.
Í kvennaflokki var það Karen Lind Stefánsdóttir sem spilaði best. Hún kláraði hringinn á -9 punktum. Næst á eftir henni er Berglind Erla Baldursdóttir á -12 punktum. Þar á eftir er stutt á milli kvenna og spennandi verður að sjá hvernig þetta spilast á morgun.
Keppendur eru alls 61, og koma frá 8 klúbbum víðs vegar af landinu.
Í karlaflokki er 51 keppandi. Meðalforgjöf í karlaflokki er +0.7, sú lægsta er +6.1 og sú hæsta er 3.6. Fimmtán kylfingar eru með +2 eða lægra í forgjöf, og má því búast við hörkuskori í mótinu. Fyrrum Íslandsmeistararnir Axel Bóasson og Kristján Þór Einarsson eru á meðal keppenda, sem og ríkjandi meistari Hvaleyrarbikarsins, Tómas Eiríksson Hjaltested.
Í kvennaflokki eru 10 keppendur. Meðalforgjöf keppenda er 3.3, sú lægsta er 0.2 og sú hæsta er 7.
GR á flesta keppendur í mótinu eða 19 talsins, GM er með 14 keppendur á meðan GK og GKG eru með 9.
Klúbbur | Konur | Karlar | Samtals |
GK | 1 | 8 | 9 |
GKB | 0 | 1 | 1 |
GKG | 2 | 7 | 9 |
GL | 0 | 3 | 3 |
GM | 5 | 9 | 14 |
GOS | 1 | 4 | 5 |
GR | 1 | 18 | 19 |
NK | 0 | 1 | 1 |