Site icon Golfsamband Íslands

Vestfirðir: Kraftmikið starf á Bíldudal

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar, seth@golf.is

Litlueyrarvöllur á Bíldudal er einn af fjölmörgum áhugaverðum 9 holu golfvöllum landsins. Golfklúbbur Bíldudals var stofnaður 9. ágúst árið 1992.

Frá þeim tíma hafa félagsmenn byggt upp góða aðstöðu við Litlueyrarvöll. Félagar í klúbbnum hafa gert upp gamalt íbúðarhús sem er á svæðinu og breytt því í aðstöðu fyrir félagsstarfið. Falleg fjöll verja völlinn fyrir ákveðnum vindáttum og setja þau skemmtilegan svip á umhverfið. 

Ég hafði mælt mér mót við Heiðar Inga Jóhannsson formann GBB á fögrum laugardagsmorgni í veðurblíðunni á Bíldudal. Heiðar er búsettur á Tálknafirði og hann tafðist aðeins. Ég nýtti tímann til þess að fara út á Litlueyrarvöll og taka nokkrar myndir. Þar var maður við vinnu sem hafði í nógu að snúast. Hann var klæddur í kuldagalla með „iðnaðarmannaheyrnartól“ á höfðinu. Ég kynnti mig og eftir stutta stund kom í ljós að hann var öllum hnútum kunnugur í starfi GBB. „Ég var einn af stofnefndum klúbbsins, fyrsti formaðurinn og gegndi því embætti í mörg ár,“ sagði Karl Þór Þórisson og brosti. 

Karl Þór Þórisson.

Karl Þór var í óðaönn að slá kargann á milli brauta og notaði til þess Hondu CR-V jeppling sem hann hengdi gamla brautarsláttuvél aftan í.

„Ég er miklu fljótari að þessu svona og það er komið upp í vana að gera þetta svona,“ segir Karl Þór en sonur hans aðstoðar einnig við umhirðu vallarins yfir sumartímann.

„Við sláum einnig svæði í eigu Vesturbyggðar og þær tekjur fara beint til klúbbsins,“ bætir Karl Þór við. „Ég er rafvirki og það er nóg að gera í því. En yfir sumartímann tek ég þetta verkefni að mér ásamt syni mínum. Við fáum eitthvað greitt fyrir þessa vinnu en fyrst og fremst erum við að þessu til að halda vellinum í því standi sem við viljum hafa hann. Við erum að útbúa nýja vélageymslu sem er gjöf frá Arnarlaxi. Það er gríðarleg framför fyrir klúbbinn þar sem við höfum þurft að geyma vélarnar út um allt – og stundum úti yfir vetrartímann,“ bætir Karl Þór við og heldur áfram að sinna sínum verkum úti á velli. 

Heiðar Ingi Jóhannsson formaður GBB

„Sló fyrstu höggin við Mjólkárvirkjun“

Heiðar Ingi Jóhannsson formaður renndi í hlað við klúbbhúsið ásamt konu sinni Kristjönu Andrésdóttur. Það var því ekki eftir neinu að bíða. Við tylltum okkur niður í ágætri aðstöðu klúbbsins og fengum okkur kaffibolla á meðan við ræddum saman. Heiðar Ingi er eins og áður hefur komið fram búsettur á Tálknafirði og hann þarf því að aka yfir einn fjallveg til þess að komast í golf. 

„Það er ekkert mál að keyra þetta yfir sumartímann og ég kvarta ekki þó að vegurinn mætti að sjálfsögðu vera betri,“ segir Heiðar Ingi en hann starfar sem smiður og keypti nýverið fyrirtækið sem hann hefur unnið hjá í mörg ár. „Maður lifir ekki af golfinu einu saman,“ segir Heiðar Ingi í léttum tón. 

Við byrjuðum á því að ræða um hvernig Heiðar Ingi hafi slysast í golfið.

„Það var þannig að ég fór í heimsókn til vinar míns sem vann í Mjólkárvirkjun hér á Vestjörðum. Hann útbjó þrjár holur við virkjunina og þar fórum við saman í golf. Það endaði með því að hann gaf mér kylfurnar. Þetta hefur verið í kringum árið 1992. Eftir þessa heimsókn átti ég kylfur og þar af leiðandi fór ég að kíkja af og til yfir á Bíldudal til að prófa mig áfram. Eitt leiddi af öðru en ég byrjaði hægt og rólega.“ 

Kraftmikill en fámennur hópur 

Heiðar Ingi segir að starfið hjá GBB gangi ágætlega fyrir sig. Reksturinn er í jafnvægi og góð þátttaka er í mótahaldi GBB. Fjöldi félagamanna í GBB er þannig að formaðurinn gæti án efa munað öll nöfnin og jafnvelt kennitölurnar líka. Fámennið er ekki vandamál í huga Heiðars Inga. 

„Við erum hér til að njóta þess að spila og vera saman. Hér eru t.d. konur á áttræðisaldri sem leika golf á hverjum degi. Sú elsta er enn að lækka sig í forgjöf. Golfið er fyrir fólk á öllum aldri. Það er góður hópur hér í GBB og margir mjög virkir í starfinu. Ég held að það sé rétt munað að félagarnir eru 33 alls og um helmingur þeirra mætir nánast í öll mót og viðburði. Við erum með tvær mótaraðir þar sem keppt er vikulega. Mótin eru 9 holur og keppnisfyrirkomulagið er með ýmsum hætti til þess að allir eigi möguleika. Meistaramótið er einn af hápunktum sumarsins og einnig Sjávarútvegsmótaröðin. Þar höldum við eitt mót. Til viðbótar eru líklega um 7–8 önnur mót sem ýmis fyrirtæki taka þátt í að styðja með verðlaunum. Markmið klúbbsins er að vera með góðan og vel hirtan 9 holu völl. Frá því ég byrjaði hefur margt breyst. Og stundum þegar ég kom á völlinn hér á árum áður var búið að færa flatir og teiga með stuttum fyrirvara. Það hafa verið teiknaðar 18 holur á þessu svæði, líklega hefur það verið gert í einhverjum gleðskap enda þurfum við ekki á 18 holu velli að halda eins og staðan er í dag.“ 

Vantar golfkennara á svæðið

Formaðurinn segir að skortur á golfkennslu og fræðslu á Vestfjörðum geri það að verkum að starfið sé ekki eins kröftugt og hægt væri að hafa það. 

„Það sem okkur vantar er að fá golfkennara til að efla starfið enn frekar. Þá er ég að tala um meira en eina helgi eða staka daga. Ólafur Jóhannesson, PGA-kennari, hefur komið af og til hingað á eigin vegum. Að mínu mati þarf GSÍ í samstarfi við stóru golfklúbbana að finna einhverja lausn á því hvernig smærri klúbbar úti á landi geta fengið aðstoð á þessu sviði. Golfíþróttin er ekki ofarlega á forgangslista þeirra sem ráða hér í sveitarstjórninni. Við þurfum því að gera flest allt í sjálfboðavinnu. Við erum t.d. með öflugan félagsmann sem á gröfu, og með hans aðstoð höfum við getað gert ótal hluti sem við hefðum annars ekki gert.“ 

Ný vélageymsla og bætt aðstaða 

Ný vélageymsla var í smíðum við klúbbhúsið þegar við heimsóttum GBB. Heiðar Ingi segir að fyrirtækið Arnarlax hafi komið af krafti inn í starf klúbbsins með ýmsum hætti. 

„Arnarlax hefur sýnt okkur mikla velvild. Fyrirtækið gaf klúbbnum nýja vélageymslu. Mannvirkið er vissulega ekki það stærsta á svæðinu en er góð lausn fyrir okkur á þessum tímapunkti. Það er svipaður íbúafjöldi á Bíldudal og á Tálknafirði, samtals rúmlega 500 íbúar. Það skiptir því miklu máli að finna fyrir stuðningi frá fyrirtækjum hér á svæðinu. Fjárhagur klúbbsins er á góðum stað. Við getum státað okkur af því að klúbburinn hefur nánast alltaf átt fyrir þeim framkvæmdum sem ráðist hefur verið í. Fjárhagsstaðan er góð. Félagsgjaldið fyrir fullorðna er 25.000 kr. á ári. Við leggjum frekar áherslu á að vera með öfluga innanfélagsmótaröð, þar sem keppendur greiða 500 kr. fyrir þátttökuna. Við fáum góðan stuðning frá ýmsum fyrirtækjum varðandi mótahaldið, verðlaun og slíkt. Félagsmenn setja það ekki fyrir sig að taka þátt í mörgum mótum þegar félagsgjaldið er svona lágt.“ 

Vestfirðir hafa á undanförnum árum notið meiri vinsælda í heimsóknum ferðamanna. Heiðar Ingi segir að það eigi einnig við um heimsóknir kylfinga á Litlueyrarvöll. 

„Við fáum töluvert af ferðamönnum á völlinn. Það er engin starfsmaður til að taka á móti þeim en það eru allir heiðarlegir og gera upp vallargjaldið áður en haldið er af stað. Kalli er reyndar mjög oft hérna úti á velli en ekki alltaf. Íslendingar eru í meirihluta gesta hér á vellinum en það kemur einnig fyrir að erlendir ferðamenn leiki á vellinum. Framtíðin er aðeins í óvissu hjá okkur varðandi vallarstæðið. Vesturbyggð á ekki allt landið, hluti landsins er í einkaeigu. Eins og staðan er í dag þá eru talsverðar líkur á því að leigan á landinu verði mun hærri en áður. Það þarf að leysa og vonandi finnum við góða lendingu í því máli,“ segir Heiðar Ingi Jóhannsson formaður Golfklúbbs Bíldudals. 

Fleiri myndir frá Bíldudal er að finna hér.

Fleiri myndir frá Bíldudal er að finna hér.

Exit mobile version