Auglýsing

Fyrsta mót keppnistímabilsins 2017 á Íslandsbankamótaröð barna – og unglinga hefst í dag á Strandarvelli á Hellu.  Íslandsbankamótaröðin hefur notið vinsælda hjá yngri afrekskylfingnum landsins á undanförnum árum. Tímabilið í ár verður það fimmta í röðinni frá því samstarf Golfsambands Íslands við Íslandsbanka hófst.

Um 200 keppendur eru skráðir til leiks á Íslandsbankamótaröðinni um þessa helgi. Samhliða mótinu á Strandarvelli á Hellu verður keppt á laugardaginn á Áskorendamótaröðinni á Svarfhólsvelli á Selfossi.

Áhugaverðar breytingar á Íslandsbankamótaröðinni verða gerðar á þessu ári. Helst ber þar að nefna að bætt hefur verið við einum aldursflokki, 19-21 árs, hjá báðum kynjum. Er það gert til þess að koma við móts við þá kylfinga sem ná ekki forgjafarviðmiðum sem eru til staðar á Eimskipsmótaröðinni – og einnig vegna þess hve margir kylfingar eru að keppa á þessu aldursbili.

Alls verða mótin sex líkt og undanfarin ár og samhliða verður leikið á Áskorendamótaröð Íslandsbanka. Sú mótaröð er ætluð fyrir keppendur sem vilja öðlast keppnisreynslu áður en þeir stíga inn á sviðið á sjálfri Íslandsbankamótaröðinni.

Í tveimur elstu aldursflokkunum verða leiknar 54 holur á öllum mótunum nema á Íslandsmótinu í holukeppni. Það er gert vegna reglna um heimslista áhugamanna.

Alls eru keppnisflokkarnir fjórir hjá báðum kynjum á Íslandsbankamótaröðinni, 19-21 árs, 17-18 ára, 15-16 ára og 14 ára og yngri.

Leikfyrirkomulag Áskorendamótaraðarinnar er eftir alþjóðlegri fyrirmynd mótaraðar fyrir unga kylfinga. Þessi mótaröð er hugsuð sem fyrstu skref og stuðningur við keppnisþátttöku væntanlegra framtíðarkylfinga.

Á Áskorendamótaröðinni á fyrst og fremst að vera gaman og aðaláherslan lögð á að læra leikinn og mismunandi leikform hans. Þjálfarar og foreldrar eru hvattir til þess að taka virkan þátt í að gera þessi mót sem skemmtilegust fyrir þátttakendur með leiðbeinandi og jákvæðu hugarfari í kringum mótin.

Mótin á Íslandsbankamótaröðinni sumarið 2017:
26.-28. maí: Strandarvöllur, GHR (1).
9.-11. júní: Hólmsvöllur, GS (2).
16.-18. júní: Húsatóftavöllur, GG (3), Íslandsmótið í holukeppni.
14.-16. júlí: Garðavöllur, GL (4), Íslandsmótið í höggleik.
28.-30. júlí: Jaðarsvöllur, GA (5).
25.-27. ágúst: Leirdalsvöllur, GKG (6).

Mótin á Áskorendamótaröð Íslandsbanka sumarið 2017:
27. maí: Svarfhólsvöllur, GOS (1).
10. júní: Kirkjubólsvöllur, GSG (2).
17. júní: Gufudalsvöllur, GHG (3).
13. júlí: Garðavöllur, GL (4).
29. júlí: Jaðarsvöllur, GA (5).
26. ágúst: Setbergsvöllur, GSE (6).

 

 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ