/

Deildu:

Símamótið 2016
Þórður Rafn Gissurarson, GR
Auglýsing

„Ég taldi að núna væri rétti tíminn til að leggja atvinnumannaferilinn á hilluna í bili. Ég var frekar þreyttur á ferðalögunum sem fylgja þessu og ég gat ekki séð það fyrir mér að taka enn eitt árið á Pro Golf atvinnumótaröðinni eða annarri slíkri mótaröð,“ segir Þórður Rafn Gissurarson úr GR sem hóf nýverið störf á golfdeild ferðaskrifstofunnar Úrval Útsýn.

Þórður Rafn fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í golfi árið 2015 á Garðavelli en hann hefur leikið um margra ára skeið á þýsku Pro Golf atvinnumótaröðinni sem er þriðja styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu.

„Ég er orðinn þrítugur og ég held að það sé hámarksaldur til þess að vera á Pro Golf mótaröðinni eða slíkri mótaröð. Ég hefði eflaust haldið áfram ef ég hefði fengið einhver tækifæri á Áskorendamótaröðinni eða næst sterkustu mótaröð Evrópu. Það reyndist ekki vera fyrir hendi og ég er því að taka næsta skref í lífinu,“ bætir Þórður Rafn við en verkefnalistinn verður langur hjá honum í vetur.

„Ég er byrjaður í meistaranámi við háskólann við Bifröst, sem er fjarnám sem ég tek meðfram vinnunni hjá Úrval Útsýn. Í janúar 2018 byrja ég einnig í PGA golfkennaraskólanum hér á Íslandi – ef það nám verður í boði. Það verður því brjálað að gera.“

Þórður Rafn hefur ekki lagt golfkylfunum á hilluna og mun leika á Eimskipsmótaröðinni á Íslandi næsta sumar. „Ég sé bara til hvernig formið verður á mér. Mér stendur til boða að taka þátt í lokaúrtökumótinu fyrir Opna breska meistaramótið 2018 og það er á dagskrá að nýta þann glugga. Ef næsta sumar verður gott hér á landi í golfinu þá er aldrei að vita nema ég skelli mér í úrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina. Það er langt í þessa viðburði og allt getur breyst – en það verður allavega nóg að gera hjá mér,“ segir Þórður Rafn við golf.is.

 

author avatar
Sigurður Elvar

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ