Þórður Rafn Gissurarson atvinnukylfingur úr GR og Ólafur Björn Loftsson úr GKG hafa lokið keppni á 1. stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina. Þórður Rafn endaði í 16. sæti og komst á 2. stigið en Ólafur Björn var einu höggi frá því að komast áfram. Þetta er í annað sinn sem Þórður Rafn kemst á 2. stig úrtökumótsins í sjö tilraunum en Ólafur Björn hefur einu sinni komist á 2. stigið í fimm tilraunum.
Þetta er í sjöunda sinn sem Þórður Rafn keppir á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina en hann hefur einu sinni komist inn á 2. stigið en það var árið 2014.
Ólafur Björn Loftsson úr GKG, sem varð Íslandsmeistari á Grafarholtsvelli árið 2009, lék á Golf d’Hardelot í Frakklandi. Ólafur Björn er að keppa í fimmta sinn á 1. stigi úrtökumótsins en hann komst inn á 2. stigið árið 2014.
Lokastaðan Ribagolfe í Portúgal:
Lokastaðan á Golf d’Hardelot.
Þórður Rafn skrifar eftirfarandi á fésbókarsíðu sína:
„Á morgun hefst 1.stig úrtökumótsins fyrir evrópsku mótaröðina hjá mér. Mun spila í Portúgal í þetta skiptið, rétt hjá Lissabon. Ribagolfe heitir völlurinn og er nokkuð skemmtilegur. Langur, frekar þröngur og má lítið missa höggin til hliðar. Verður mikið af 6 og 7 járnum inn á flatirnar. Sem betur fer eru flatirnar mjúkar þannig að maður getur vera aggressívur í innáhöggunum. Ég hef leik á 1. teig kl. 9 í fyrramálið. Spila með Portúgala og Walesverja. Game-planið er að spila leiðinlegt golf. Hitta brautirnar og koma sér svo í skikkanlegan séns í innáhöggunum.“
[pull_quote_right]Game-planið er að spila leiðinlegt golf. Hitta brautirnar og koma sér svo í skikkanlegan séns í innáhöggunum.[/pull_quote_right]
Alls taka átta karlar þátt á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina í ár frá Íslandi og er það met. Axel Bóasson úr GK og Pétur Freyr Pétursson úr GR komust ekki áfram á 1. stigi úrtökumótsins en þeir tóku þátt á mótum sem fram fóru í Þýskalandi og Englandi.
Frá árinu 1985 hafa 25 karl kylfingar reynt sig á úrtökumótinu fyrir stærstu mótaröð Evrópu en aðeins Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG hefur náð alla leið í karlaflokki. Að venju þurfa keppendur að fara í gegnum þrjú úrtökumót til þess að komast alla leið inn á Evrópumótaröðina.
Um 700 kylfingar taka þátt á 1. stigi úrtökumótsins og um 25% þeirra komast inn á 2. stigið.