/

Deildu:

Auglýsing

Þing Golfsambands Íslands verður haldið dagana 19.-20. nóvember nk.

Þingið fer fram á Fosshótel Reykjavík, Þórunnartún 1, 105 Reykjavík.

Hér verða helstu upplýsingar um þingið birtar – fréttin verður uppfærð fram að þinginu og á meðan því stendur.

Fyrirkomulag á þinghaldinu er að þingsetning verður á föstudeginum, þar sem þingtillögur verða kynntar og sendar til starfsnefnda. Nefndir munu starfa fram eftir á föstudagskvöldi og stefnt er að því að ljúka nefndarstörfum þann daginn.

Pappír verður í algjöru lágmarki á þinginu og því eru þingfulltrúar hvattir til þess að mæta með fartölvur, spjaldtölvur eða síma á þingið til þess að komast í gögn þingsins.

 • Kl. 10:00 Þingstörfum áfram haldið.
 • Kl. 12:30 Hádegisverður
 • Kl. 13:30 Þingstörfum fram haldið samkvæmt dagskrá
  • Álit kjörnefndar
  • Kosning stjórnar sbr. 9. gr.
  • Kosning tveggja endurskoðenda og tveggja til vara
  • Kosning þriggja manna og þriggja til vara í áfrýjunardómstól GSÍ. Kosning þriggja manna í dómstól GSÍ. Kosning þriggja manna og þriggja til vara í áhugamennskunefnd, aganefnd, dómaranefnd og forgjafar- og vallarmatsnefnd.
  • Kosning fimm manna í kjörnefnd, sbr. 6. mgr. 5. gr.
  • Kosning fulltrúa og varafulltrúa GSÍ á Íþróttaþing ÍSÍ árið sem Íþróttaþing fer fram, skv. lögum ÍSÍ.
  • Þingslit.

Skýrsla stjórnar


Kynnt á Golfþingi 2021

Kæru félagar.

Nú þegar 79. starfsári Golfsambands Íslands er að ljúka er tilefni að gera upp golftímabilið og rifja upp helstu viðfangsefni ársins.

Ný stefna Golfsambands Íslands var samþykkt á Golfþingi 2019 og hefur stjórn og starfsfólk GSÍ unnið samkvæmt henni. Segja má að stefnan hafi falið í sér töluverðar breytingar á skipulagi sambandsins og þeim verkefnum sem sambandinu er ætlað að sinna. Það er okkar mat að vel hafi tekist við að innleiða stefnuna og hafa viðtökur golfklúbbanna verið góðar. 

Stjórn og starfsfólk

Stjórn Golfsambands Íslands var þannig skipuð á síðasta starfsári:

Forseti:

Haukur Örn Birgisson GO

Stjórn:

Hansína Þorkelsdóttir GKG, formaður upplýsingatækninefndar

Hulda Bjarnadóttir NK, formaður markaðs- og kynningarnefndar

Hörður Geirsson GK, varaforseti

Kristín Guðmundsdóttir GÖ, gjaldkeri og formaður fjárhagsnefndar

Jón S. Árnason GA, formaður afreksnefndar

Jón B. Stefánsson GR, formaður landsnefndar eldri kylfinga

Ólafur Arnarson GKG

Viktor Elvar Viktorsson GL, formaður mótanefndar

Þorgerður K. Gunnarsdóttir GK, formaður laganefndar

Á Golfþingi 2019 var einnig kjörinn í stjórn Golfsambands Íslands Páll Sveinsson. Skömmu eftir Golfþingið var Páll kjörinn formaður Golfklúbbs Selfoss og ákvað hann því að draga sig úr stjórn GSÍ. Hefur stjórnin því frá þeim tíma verið skipuð níu stjórnarmönnum auk forseta. 

Á skrifstofu sambandsins störfuðu þau Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri, Kristín María Þorsteinsdóttir, kynningar- og mótastjóri, Arnar Geirsson skrifstofustjóri, Sigurður Elvar Þórólfsson, útbreiðslustjóri, Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri, og Sóley Bærings, verkefnastjóri. 

Stjórn golfsambandsins hélt alls 12 fundi á starfsárinu. Vegna samkomutakmarkana hafa nokkrir fundanna farið fram með rafrænum hætti og hefur stjórn einnig notast við aðrar rafrænar samskiptaleiðir, eftir því sem þörf hefur verið á. Á fundunum hafa stjórnarmenn átt góðar og gagnlegar umræður, skipst á skoðunum en ávallt komist að sameiginlegri niðurstöðu. Stjórn hefur haldið áfram uppteknum hætti og birtir allar fundargerðir stjórnarfunda á heimasíðu sambandsins, www.golf.is.

Starfsnefndir sambandsins hafa verið opnar félagsmönnum úr hreyfingunni og er óhætt að segja að fjölmargir hafi komið að starfi golfsambandsins með þeim hætti. Við viljum færa öllum þessum einstaklingum okkar bestu þakkir fyrir samstarfið á tímabilinu.

Mótahald

Í samræmi við nýja stefnu golfsambandsins, fellur það nú í hlut golfklúbbanna að annast framkvæmd svokallaðra stigamóta á meðan golfsambandið annast framkvæmd Íslandsmótanna í golfi. Samtals voru haldin 17 Íslandsmót í golfi en til samanburðar hélt golfsambandið 36 golfmót árið 2019. Stjórn GSÍ er þakklát fyrir þann velvilja sem klúbbar hafa sýnt mótastarfi sambandsins á árinu.

Við viljum nota tækifærið og óska öllum sigurvegurum ársins til hamingju með árangurinn og ekki síst þeim Aroni Snæ Júlíussyni og Huldu Clöru Gestsdóttur úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar sem urðu Íslandsmeistarar á Jaðarsvelli á Akureyri. Bæði voru þau að hampa sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í flokki fullorðinna. Það er því miður of langt mál að telja upp alla Íslandsmeistarana en full ástæða til að ítreka hamingjuóskir til þeirra. Þau eiga framtíðina fyrir sér.

Ný stefna GSÍ 2020-2027

Ný stefna Golfsambands Íslands til ársins 2027 var einróma samþykkt á Golfþingi árið 2019. Hin nýja stefna felur í sér straumhvörf í starfi golfsambandsins, sérstaklega þar sem lögð er áhersla á skýrari aðgreiningu á því sem mætti telja til kjarnastarfsemi sambandsins annars vegar og annarrar starfsemi hins vegar. 

Það er mat stjórnar golfsambandsins að einstaklega vel hafi tekist til við innleiðingu nýju stefnunnar og að fyrstu tvö starfsárin í gildistíð stefnunnar hafi verið afar árangursrík. 

Stórafmæli

Á þessu ári fögnuðu nokkrir aðilar innan hreyfingarinnar stórafmælum og eru hamingjuóskir til eftirfarandi klúbba áréttaðar.

Golfklúbbur Hornafjarðar 50 ára

Golfklúbbur Selfoss 50 ára 

Golfklúbbur Grindavíkur 40 ára

Golfklúbburinn Gláma 30 ára

Golfklúbbur Vatnsleysustrandar 30 ára

Golfklúbbur Húsafells 25 ára

Útgáfu- og fræðslumál

Miklar breytingar urðu á útgáfuhlið golfsambandsins árið 2020. Í stað útgáfu á fimm til sex tölublöðum tímaritsins Golf á Íslandi hefur útgáfan verið færð yfir á rafrænt form og birtast nú fréttir, viðtöl og annað fræðsluefni jafn óðum á heimasíðu og samfélagsmiðlum golfsambandsins. Eitt prentað tölublað kom út á árinu í tengslum við Íslandsmótið í golfi, sem jafnframt fór í aldreifingu með Morgunblaðinu.   

Markaðs- og kynningarnefnd GSÍ vekur athygli á því að í miðlum sambandsins er ávallt pláss fyrir áhugaverðar greinar, myndir og annað sem golfklúbbar landsins hafa áhuga á að koma á framfæri.

Golfsamband Íslands hefur haldið áfram notkun sinni á samfélagsmiðlum en þar má helst nefna Facebook, Instagram og Twitter. Þannig hefur okkur tekist að ná til stærri hóps en áður í umfjöllun okkar um golfíþróttina. Bein útsending frá Íslandsmótinu í golfi leikur jafnframt stórt hlutverk þegar kemur að útbreiðslu og auglýsingu íþróttarinnar.

Afreksmál

Annað árið í röð hefur Covid haft mikil áhrif á afreksstarf GSÍ og hefur óvissa áfram einkennt skipulag og þátttöku í alþjóðlegum verkefnum. Þrátt fyrir fjölbreyttar áskoranir hefur gengið vel að aðlagast þessum aðstæðum og árangur okkar kylfinga verið góður. 

Sumarið var afar eftirminnilegt hjá mörgum af okkar sterkustu áhugakylfingum. Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir endaði í 2. sæti á Opna breska áhugamannamótinu í Skotlandi sem er eitt allra sterkasta áhugamannamót í heimi. Sigurvegarinn vann sér inn þátttökurétt á þremur risamótum atvinnukylfinga. Ragnhildur Kristinsdóttir sigraði höggleikinn í þessu sama móti og vöktu þær mikla og jákvæða athygli með sinni frammistöðu. Aron Snær Júlíusson endaði í 5. sæti á Evrópumóti einstaklinga í Frakklandi sem var besti árangur Íslendings frá upphafi í þessu móti. Ásamt því að verða Íslandsmeistari í golfi í fyrsta skipti er Aron kominn í 115. sæti á heimslista áhugamanna og nálgast besta árangur Íslendings á þeim lista.

Atvinnukylfingarnir Haraldur Franklín Magnús, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Andri Þór Björnsson og Bjarki Pétursson léku allir á Áskorendamótaröðinni í ár. Haraldur lék í 19 mótum og náði sínum besta árangri á mótaröðinni þegar hann lenti í 2. sæti í Hollandi í lok ágúst eftir spennandi bráðabana. Haraldur var hársbreidd frá því að tryggja sér takmarkaðan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni en hann endaði í 48. sæti á stigalista Áskorendamótaraðarinnar. Guðmundur Ágúst lék líkt og Haraldur á 19 mótum og náði best 8. sæti. Guðrún Brá Björgvinsdóttir hefur leikið í 15 mótum það sem af er árinu á Evrópumótaröðinni. Hún er í 77. sæti á stigalistanum og náði með góðum árangri í síðasta móti að tryggja sér þátttökurétt á lokamóti mótaraðarinnar sem fer fram í næstu viku á Spáni. Valdís Þóra hefur undanfarin misseri glímt við erfið meiðsli og tók þá ákvörðun snemma í vor að hætta í atvinnumennsku. Ólafía Þórunn hefur ekki leikið í ár en hún eignaðist son í sumar. Hún stefnir að því að fara af stað af fullum krafti á næsta ári.

Vegna faraldursins hafði landsliðsþjálfarinn, Greg Brodie, ekki tök á því að koma til Íslands til þess að sinna afreksfólkinu okkar. Af þeim sökum tók stjórn GSÍ þá erfiðu ákvörðun að segja honum upp störfum. Greg hafði staðið sig vel í þann stutta tíma sem hann hafði sinnt starfinu, en atvik voru einfaldlega með þeim hætti að ekki var hægt að réttlæta kostnað vegna landsliðsþjálfara sem búsettur var á erlendri grundu. Ólafur Björn Loftsson tók við keflinu af Greg. 

Forskot, afrekssjóður kylfinga, hélt áfram starfi sínu á árinu og samanstendur Forskotsfjölskyldan af sjö aðilum – Golfsambandi Íslands,  Íslandsbanka, Eimskip, Valitor, Icelandair Group, Bláa Lóninu og Verði. Úthlutað er árlega úr sjóðnum til okkar fremstu kylfinga. Golfsamband Íslands vill þakka aðilum sjóðsins fyrir allan þann ómetanlega stuðning sem þeir hafa sýnt íslenskum afrekskylfingum.

Árið 2016 gerðu Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands með sér samning sem hefur falið í sér stóraukin framlög til íslensks afreksíþróttafólks. Á þessu ári var 515 milljónum króna úthlutað úr sjóðnum og hlaut golfsambandið úthlutun upp á allt að 36 milljónum en GSÍ er í hópi svokallaðra A-sérsambanda innan sjóðsins. Viljum við nota tækifærið og þakka ÍSÍ fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða. 

 

Rekstur sambandsins

Rekstraráætlun golfsambandsins gerði ráð fyrir lítilsháttar hagnaði á árinu en hagnaður ársins varð tæpar 30 milljónir króna. Tekjur frá samstarfsaðilum jukust á milli ára og tekjur af félagagjöldum hækkuðu umtalsvert vegna mikillar fjölgunar iðkenda. Heildarvelta sambandsins var tæpar 200 milljónir króna, samanborið við 169 milljónir króna árið 2020.

Stjórn golfsambandsins reynir ávallt að sýna varkárni og aðhald í rekstri og er stefna stjórnar að eigið fé sambandsins verði ekki lægra en 20% af heildargjöldum þess á hverjum tíma, en aldrei lægra en 40 milljónir króna, til að tryggja að hægt sé að mæta óvæntum áföllum. Þetta markmið náðist árið 2019 og í dag er eigið fé sambandsins um 89 milljónir króna, sem er 52% af heildargjöldum sambandsins á árinu. Þar með er ljóst að eigið fé sambandsins er orðið umtalsvert umfram markmið. Ástæðuna fyrir þessari eignasöfnun má rekja til óvissuþátta í tengslum við Covid. Í upphafi sumars var ákveðið að stíga varlega til jarðar í útgjöldum sambandsins enda var útilokað að sjá fyrir þá miklu aukningu iðkenda sem síðar kom í ljós. Mikil varfærni í útgjöldum og óvænt tekjuaukning varð því til þess að hagnaður varð á rekstri sambandsins, langt umfram væntingar. Hefur þetta, ásamt hagnaði síðasta árs, orðið til þess að safnast hefur upp fé umfram áætlanir. Það er hvorki markmið golfsambandsins að vera rekið með miklum hagnaði né að safna umtalsverðu fé og af þeim sökum er mikilvægt að verja fénu í brýn verkefni svo hægt sé að lækka eigið fé sambandsins. Slíkt hefur óhjákvæmilega í för með sér taprekstur næstu árin en sambandið er vel í stakk búið til að takast á við það. 

Að lokum

Enn einu metári í íslenskri golfsögu er nú að ljúka. Hvert sem litið er blasa við tölur sem við höfum ekki áður séð. Fjöldi iðkenda hefur aldrei verið meiri, fjöldi leikinna hringja er í hámarki og afkoma golfklúbba landsins er með besta móti. Hlutfall kvenna er í fyrsta sinn komið í 33% og yfir 30% fjölgun var í aldurshópnum 16-29 ára. Svona mætti lengi telja. 

Við höfum áorkað miklu undanfarinn áratug og þá sérstaklega síðustu tvö árin. Á þessu tímabili höfum við lært margt enda höfum við þurft að takast á við óvæntar áskoranir,  þar sem okkur var ekki gefinn mikill viðbragðstími. Við megum vera stolt af árangrinum sem náðst hefur og megum fara full bjartsýni inn í næsta tímabil. 

Ef ég leyfi mér að fara yfir á persónulegar brautir þá hef ég nú tilkynnt að ég muni ekki sækjast eftir endurkjöri sem forseti golfsambandsins. Þetta verður því mitt síðasta Golfþing sem forseti hreyfingarinnar. 

Eftir að hafa starfað fyrir golfsambandið í 20 ár, setið í stjórn þess í 16 ár og verið forseti í átta ár, tel ég rétt að stíga frá borði. Þetta hefur verið æðislegur tími og ég hef notið hverrar mínútu. Í störfum mínum fyrir íslenskt golf hef ég kynnst ótal manns og eignast vini til lífstíðar. Þá hafa störf mín leitt mig áfram á alþjóðlegar brautir golfíþróttarinnar, sem ég hef enn ekki sagt skilið við. Fyrir allt þetta verð ég ævinlega þakklátur. 

Ég er afar stoltur af þeirri vinnu sem ég, stjórnir sambandsins og starfsfólk höfum skilað af okkur á þessum tveimur áratugum og ég veit að golfsambandið er á góðum stað í dag. Golfíþróttin hefur aldrei staðið styrkari fótum og hvert sem litið er, þá nýtur íþróttin sögulegrar velgengni. Mér finnst þetta því vera góður tímapunktur til að láta af störfum og fela nýjum aðilum verkefnið. Ég hlakka til að fylgjast með íþróttinni dafna af hliðarlínunni.

Um leið og ég óska nýjum forseta og stjórn velfarnaðar í störfum sínum þá færi ég stjórn og starfsfólki GSÍ, forsvarsmönnum, starfsfólki og sjálfboðaliðum golfklúbbanna mínar allra bestu þakkir fyrir samstarfið öll þessi ár. 

 

Haukur Örn Birgisson,

 

forseti Golfsambands Íslands 

 

Þingskjöl

Module cannot be rendered as the requested content is not (longer) accessible. Contact the administrator to get access.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ