Auglýsing

Magnús Geir Eyjólfsson skrifar – greinin birtist í tímaritinu Golf á Íslandi í desember 2018.

Georgía (landið en ekki ríkið í Bandaríkjunum) hefur ekki verið ofarlega á lista kylfinga yfir golfáfangastaði fram til þessa. Líkast til vegna þess að þar hefur ekki verið einn einasti golfvöllur í fullri lengd. Þar til núna, því í sumar opnaði fyrsti 18 holu golfvöllurinn í landinu, Tbilisi Hills. Fyrir var aðeins einn 9 holu golfvöllur í 90 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Tbilisi.

Það er í raun synd að golfið hafi ekki fest rætur í Georgíu fyrr, enda kjöraðstæður til golfiðkunar í landinu, þar er sólríkt og landslagið stórbrotið. Það eina sem hefur vantað er fjármagnið – þar til nú. Metnaðarfullur hópur alþjóðlegra fjárfesta frá Eistlandi sá tækifæri og völdu þeir 600 hektara land í Tbilisi hæðum sem gnæfa fyrir ofan borgina.

Markhópurinn er erlendir golfáhugamenn.

„Við stefnum á að verða einn af 100 bestu golfvöllum Evrópu. Þetta er sannarlega besti golfvöllurinn í Georgíu,“ segir framkvæmdastjórinn Perry Einfeldt. Markmiðið er háleitt en alls ekki galið því völlurinn er vissulega stórbrotinn. Það á ekki síst við um útsýnið. Fyrri hluti vallarins gnæfir yfir Tbilisi og síðari hlutinn stendur undir hinu forna Shavnabada-klaustri sem gnæfir á tindi samnefnds fjalls. Á fallegum sumardegi má sjá tignarleg Kákasusfjöllin í fjarska. Fyrsti stóri áfanginn er nú þegar í höfn því fyrr í ár varð Tbilisi Hills hluti af European Tour Properties sem Perry segir að sé mikill gæðastimpill fyrir klúbbinn og komi til með að hjálpa mjög til með markaðssetningu erlendis.

Eins og áður sagði opnaði völlurinn í byrjun sumars, en eingöngu fyrir meðlimi. Þeir eru ekki nema um 50 talsins í dag, mestmegnis útlendingar sem starfa í Georgíu og þeir örfáu Georgíumenn sem eru meðlimir eiga það sammerkt að hafa starfað erlendis. Perry segist skynja mikinn áhuga meðal heimamanna, en bætir við að helsti markhópurinn sé erlendir ferðamenn. „Þá erum við fyrst og fremst að horfa til kylfinga frá Norðurlöndum og meginlandi Evrópu. En það er í raun magnað hversu margir eru byrjaðir að spila því við höfum ekkert auglýst starfsemina. Við erum rétt að fara af stað núna.“

Frekari uppbygging fram undan

Völlurinn sjálfur er hannaður af Lassi Pekka Tilander. Hæðótt landslagið og trjágróðurinn spila stærstan þátt í vellinum, sem og fjöldinn allur af sandgryfjum. Völlurinn hentar jafnt byrjendum sem lengra komnum kylfingum enda fjórir teigar á hverri braut. Allur aðbúnaður er til hreinustu fyrirmyndar – þarna er fullbúið æfingasvæði, verslun með golfvörur, golfbílar með gagnvirkum skjá og öll umhirða er fyrsta flokks.

Tilfinningin við að spila völlinn er á pari við að spila á fyrsta flokks velli á Ítalíu eða í Portúgal.

Hér verður að nefna 16. holuna sem er hreint út sagt ævintýraleg. Upphafshöggið, sem slegið er undir Shavnabada-klaustrinu, er slegið niður í móti. Höggið má ekki vera of langt því á miðri braut er stórt gil sem þarf að slá yfir. Annað höggið þarf að vera vel slegið því flötin er vel varin af sandgryfjum til hægri og skóglendi til vinstri. Ef vel tekst til er fugl innan seilingar en að sama skapi er stutt í sprengjuna ef illa tekst til. Að loknum hring er ekki úr vegi að heilsa upp á munkana í Shavnabada og skella sér í vínsmökkun.

Fram undan eru svo enn frekari framkvæmdir. Í haust hefst bygging á nýju og glæsilegu klúbbhúsi þar sem opnaður verður veitingastaður. Alls er ráðgert að byggja 3 þúsund einingar af íbúðarhúsnæði umhverfis völlinn, bæði íbúðir og villur sem tengjast munu vellinum beint.


Georgía nýtur sífellt meiri hylli evrópskra ferðamanna

Georgía nýtur sífellt meiri hylli evrópskra ferðamanna. Uppgangur í landinu hefur verið mikill á undanförnum árum og í höfuðborginni Tbilisi er að finna fjölda hótela og veitingastaða og ekki skemmir fyrir að verðlagið er lágt.

Landið er rómað fyrir góðan mat og dýrindis vín, en vín var fyrst bruggað í Georgíu 8 þúsund árum fyrir Krist. Frá apríl og fram í október er hitastigið 20 til 35 gráður og því tilvalið að leika golf eða skella sér í sólbað við Svartahafið.

Á veturna er svo hægt að fara á skíði í Kákasusfjöllunum en skíðasvæðið í Gudauri þykir með þeim allra bestu í austanverðri Evrópu.

Magnús Geir Eyjólfsson skrifar.

 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ