Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ.
Auglýsing

Það verður nóg um að vera fyrir íslenska afrekskylfinga í sumar á öllum aldri. Í gær fór fram kynningarfundur hjá Golfsambandi Íslands þar sem farið var yfir helstu mót keppnistímabilsins á Eimskipsmótaröðinni, Íslandsbankamótaröð yngri kylfinga auk landsliðsverkefna GSÍ.

Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ sagði m.a. að ástand golfvalla landsins væri víða betra en fyrir ári síðan – þrátt fyrir hamfaravetur. Haukur sagði að vallarstarfsmenn á golfvöllum hefðu með fyrirbyggjandi aðgerðum unnið „kraftaverk“ í því að koma í veg fyrir kalskemmdir við erfiðar aðstæður. Haukur sagði að mikil eftirvænting væri fyrir golfsumrinu en fyrsta mótið á Eimskipsmótaröðinni fer fram um helgina – og á sama tíma hefst einnig keppni á Íslandsbankamótaröð yngri kylfinga, og Áskorendamótaröð yngri kylfinga.

Haukur sagði ennfremur að öflug fyrirtæki kæmu til samstarfs við Golfsambandið til að gera mótahald sambandsins sem öflugast. Eimskipafélag Íslands er þar í fararbroddi og heldur áfram að styðja við mótaröð þeirra bestu eins og nafnið á mótaröðinni ber með sér. Önnur öflug fyrirtæki eru í samstarfi við GSÍ og færði Haukur við þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Golfsambandið heldur áfram að færa áhugasömum kylfingum skor af Eimskipsmótaröðinni og verður skor keppenda uppfært á 3 holu fresti í öllum mótum sumarsins á Eimskipsmótaröðinni. Skor keppenda er skráð af sjálfboðaliðum viðkomandi klúbba sem halda mótin í IPAD. Skor keppenda verður uppfært holu fyrir holu á lokadögum Íslandsmótsins í golfi sem fram fer á Leirdalsvelli.

Hörður Þorsteinsson framkvæmdastjóri Golfsambands Íslands fór yfir helstu atriðin í mótahaldinu. Öll mótin á Eimskipsmótaröðinni eru í það minnsta 54 holur eða þrír keppnishringir – og þarf því að leika 36 holur á einum keppnisdegi á mörgum þeirra. Hörður sagði ennfremur að í eldri flokkum á Íslandsbankamótaröðinni yrðu einnig þrír keppnishringir – en það er gert til þess að mótin telji til stiga á heimslista áhugakylfinga. Alls verða mótin sjö á Eimskipsmótaröðinni og er það fjölgun um eitt mót frá því á síðasta tímabili. Keppt verður á Hamarsvelli í Borgarnesi í fyrsta sinn í höggleikskeppni á Eimskipsmótaröðinni en Íslandsmótið í holukeppni fór fram í Borgarnesi í fyrra. Einnig snýr Eimskipsmótaröðin á ný á Jaðarsvöll á Akureyri og sagði Hörður að mikil eftirvænting væri fyrir því móti hjá gestgjöfunum sem og kylfingum.

Breytingar á KPMG bikarnum

KPMG Bikarinn fer að þessu sinni fram á Leirdalsvelli hjá GKG og eru nokkuð miklar breytingar á fyrirkomulagi Bikarsins. Undanfarin ár hefur verið keppnin verið milli Höfuðborgarinnar og Landsbyggðarinnar, en nú verður fyrirkomulagið með þeim hætti að áhugamenn leika við atvinnukylfinga okkar. Það verður eflaust hörð keppni þar sem yngri kylfingarnir eru í hópi áhugakylfinganna og vilja þeir eflaust sýna reynsluboltunum úr hópi atvinnumannanna styrk sinn.

Mikið um að vera hjá landsliðum GSÍ

Úlfar Jónsson landsliðsþjálfari fór einnig yfir helstu verkefni sumarsins. Kvennalandsliðið fer á heimsmeistaramótið í Japan en karlalandsliðið fer ekki á það mót. Karlalandsliðið leikur á Evrópumótinu í Finnlandi eftir að hafa tryggt sér keppnisrétt með góðum árangri í undankeppni fyrir EM í fyrrasumar. Piltalandslið  Íslands er í sömu stöðu og keppir í Noregi í sumar í A-riðli. Kvennalandsliðið leikur í Slóveníu í A-riðli og það er því nóg um að vera í landsliðsverkefnum sumarsins. Þar fyrir utan eru fjölmörg mót á dagskrá erlendis þar sem íslenskir afrekskylfingar verða á ferðinni. Úlfar sagði það ánægjulegt að yngri afrekskylfingum stæðust nú forgjafakröfur sem gerðar eru á ýmis sterk áhugamannamót – og það opni ýmsar dyr og auki möguleika íslenskra kylfinga.

Eimskipsmótaröðin hefst með Nettómótinu á Hólmsvelli í Leiru

Fyrsta mótið á Eimskipsmótaröðinni ber nafnið Nettó-mótið og fer það fram á Hólmsvelli í Leiru. Golfklúbbur Suðurnesja hefur verið með öflugt mótahald í vor og völlurinn löngu kominn í leikhæft ástand. Það er því ágætt að hefja leikinn á Eimskipsmótaröðinni á Suðurnesjum. Leiknar verða 54 holur á tveimur dögum og er hámarksfjöldi keppenda 84.

Alls eru 18 konur skráðar til leiks og á meðal keppenda er Íslandsmeistarinn í höggleik 2013, Sunna Víðisdóttir úr GR. Signý Arnórsdóttir úr GK varð stigameistari á Eimskipsmótaröðinni í fyrra og er hún á meðal keppenda á Hólmsvelli. Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK er kominn til landsins eftir vetursetu í Bandaríkjunum. Flestir af yngri kylfingum landsins sem stunda háskólanám í Bandaríkjunum eru á meðal keppenda. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er enn í Bandaríkjunum við æfingar og keppni.

Í karlaflokki eru 66 kylfingar skráðir til leiks. Stigameistari síðasta árs, Rúnar Arnórsson úr Keili, er á meðal keppenda og flestir af sterkustu kylfingum landsins verða með í Leirunni. Þar má nefna Harald Franklín Magnús úr GR, sem varð annar á Íslandsmótinu í höggleik í fyrra. Birgir Leifur Hafþórsson, Íslandsmeistarinn í höggleik 2013, er fjarverandi að þessu sinni en hann keppir á atvinnumóti í Svíþjóð í þessari viku.

Nokkrir fyrrum Íslandsmeistarar í höggleik eru skráðir til leiks. Björgvin Þorsteinsson úr GA sem er sexfaldur Íslandsmeistari verður með, Kristján Þór Einarsson úr GKj., Sigmundur Einar Másson úr GKG auk Haraldar Franklín.

Íslandsbankamótaröð yngri kylfinga og Áskorendamótaröðin verða einnig um helgina. Alls verða um 200 kylfingar á þeim mótum en Íslandsbankamótaröðin fer fram á Garðavelli á Akranesi og Áskorendamótaröðin á Setbergsvelli. Margir af sterkustu yngri kylfingum landsins sem eru yngri en 18 ára þurftu því að velja á milli þess að leika á Eimskipsmótaröðinnni um þessa helgi eða Íslandsbankamótaröðinni.

EIMSKIPSMÓTARÖÐIN

Öll mótin á Eimskipsmótaröðinni eru að lágmarki 54 holur og á þessu fyrsta móti verða leiknar 36 holur á laugardegi og síðan 18 holur á sunnudegi.

NETTÓ MÓTIÐ 24.-25. maí

Hólmsvelli í Leiru. Golfklúbbur Suðurnesja hefur verið með öflugt mótahald í vor og völlurinn löngu kominn í leikhæft ástand. Það er því ágætt að hefja leikinn á Eimskipsmótaröðinni á Suðurnesjum. Leiknar verða 54 holur á tveimur dögum og er hámarksfjöldi keppenda 84.

EGILS GULL MÓTIÐ 30. maí – 1. júní

Strandavelli á Hellu. Golfklúbbur Hellu hefur langa hefð í mótahaldi og kylfingar á Eimskipsmótaröðinni þekkja völlinn vel. Strandavöllur er tilbúinn snemma á vorin og þó svo sumarið sé rétt að hefjast, þá er nú þegar lokið nokkrum mótum á Strandarvelli.

SÍMAMÓTIÐ 13. júní – 15. júní

Hamarsvelli Borgarnesi. Þetta er í fyrsta skipti sem haldið er 54 holu mót á Eimskipsmótaröðinni á Hamarsvelli í Borgarnesi. Hvítir teigar voru gerðir á síðasta ári og var Íslandmótið í holukeppni 2013 fyrsta mótið sem haldið var í meistaraflokki á vellinum. Góður rómur var gerður af vellinum á því móti og nú fá okkar bestu kylfingar að takast á við völlinn í höggleik. Leiknar verða 54 holur á 3 dögum og er hámarksfjöldi keppenda 144.

SECURITAS MÓTIÐ 27.-29. júní,
ÍSLANDSMÓTIÐ Í HOLUKEPPNI

Íslandsmótið í holukeppni fer að þessu sinni fram í Hafnarfirði á Hvaleyrarvelli í umsjón Golfklúbbsins Keilis. Hvaleyrarvöllur hefur alltaf verið vinsæll meðal keppenda og verður eflaust hart barist um hvert sæti í mótinu. Þrjátíu og tveir stigahæstu kylfingar á Eimskipsmótaröðinni í karla- og vennaflokki fá keppnisrétt í mótinu þar sem kylfingunum er raðað í 8 riðla og fara sigurvegarar hvers riðils áfram í útsláttarkeppni þar til einn stendur uppi sem sigurvegari.

EIMSKIPSMÓTIÐ 24.-27. júlí,
ÍSLANDSMÓTIÐ Í GOLFI

Hápunktur hvers golfsumars er Íslandsmótið í höggleik, eða Íslandsmótið í golfi eins og við nefnum það og verður að þessu sinni haldið á Leirdalsvelli í umsjón Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar. Þetta er í fyrsta skipti sem Íslandsmótið í golfi fer fram á vellinum og því eflaust margir sem vilja skrifa sig inní söguna og verða fyrstir til að verða Íslandsmeistari á þeim velli.

Að venju verður sýnt beint frá Íslandsmótinu í sjónvarpinu og jafnframt verður öflugur fréttaflutningur af mótinu á golf.is, þar sem hægt verður að fylgjast með skori mótsins holu fyrir holu.

EIMSKIPSMÓTARÖÐIN (6) 15.-17. ágúst

Garðavelli á Akranesi. Íslandsmótið í golfi fer fram á Garðavelli 2015 og eru Leynismenn nú að vinna við að bæta völlinn enn frekar og gera klárt fyrir næsta ár. Verður því áhugavert að sjá þær breytingar sem gerðar hafa verið á vellinum undanfarið. Leiknar verða 54 holur á 3 dögum og er hámarksfjöldi keppenda 144.

GOÐA MÓTIÐ (7) 30. -31. ágúst

Lokamótið á Eimskipsmótaröðinni, fer fram á Jaðarsvelli í umsjón Golfklúbbs Akureyrar. Það er mjög  ánægjulegt að fá Jaðarsvöll aftur inn sem vettvang fyrir bestu kylfinga landsins. Akureyringar hafa verið í miklum framkvæmdum á liðnum árum og því hefur völlurinn ekki verið tilbúinn til stórverkefna fyrr en nú. Afrekskylfingar okkar eru því örugglega spenntir að takast á við völlinn eftir gagngerar endurbætur. Leiknar verða 54 holur á 2 dögum og er hámarksfjöldi keppenda 84.

Sveitakeppnir víðsvegar um landið í ágúst

Að venju verða fjölmörg önnur mót á vegum GSÍ og má þar t.d. nefnda Sveitakeppni GSÍ, en keppt er í 5. deildum í karlaflokki og 2. deildum í kvennaflokki. Þessar deildarkeppnir fara fram 8.-10. ágúst þar sem 1. deild karla fer fram á Hamarsvelli í Borgarnesi og 1. deild kvenna á Hlíðarvelli í Mosfellsbæ.

Auk þess er keppt í sveitakeppnum í unglingaflokkum og flokkum eldri kylfinga. Þær deildarkeppnir fara fram helgina 22.-24. ágúst.

Íslandsmót eldri kylfinga og 35 + fara fram helgina 17.-19. júlí. Íslandsmót í flokki 35 ára og eldri, fer fram að þessu sinni á Vestfjörðum og verða leiknar 9 holur á Ísafirði og 9 holur í Bolungarvík. Það verður fróðlegt að fylgjast með gangi mála á þessum „fyrsta“ 18 holu velli Vestfjarða.

Íslandsmót eldri kylfinga 55 ára og eldri karla og 50 ára og eldri kvenna verður á Grafarholtsvelli hjá Golfklúbbi Reykjavíkur og er það vel við hæfi að þessi elsti klúbbur landsins sem fagnar á þessu ári 80 ára afmæli taki á móti elstu kylfingum okkar á þeirra stærsta móti.

 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ