/

Deildu:

Aron Bjarki Bergsson. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing
– Aron Bjarki Bergsson vakti athygli á Íslandsmótinu á Jaðarsvelli

Viðtal úr 4. tbl. Golf á Íslandi 2016: 
Aron Bjarki Bergsson vakti athygli á Íslandsmótinu í golfi á Jaðarsvelli. Kylfingurinn, sem er 21 árs gamall, hefur lítið leikið hér á landi en hann hefur verið búsettur í Gautaborg allt sitt líf. Hann keppti fyrir GKG á Íslandsmótinu. Golf á Íslandi ræddi við Aron Bjarka um golfið og framtíðina.

Foreldrar Arons eru Bergur Stefánsson læknir sem er uppalinn í Framhverfinu í Reykjavík og Ingibjörg Stefánsdóttir sjúkraþjálfari sem ólst upp á Ólafsfirði og Akureyri.

Golf hefur verið iðkað lengi í fjölskyldu Arons en föðurafi hans, Stefán Einarsson (Gói), var einn af stofnfélögum Golfklúbbs Ólafsfjarðar á sínum tíma.

„Fjölskyldan mín flutti til Gautaborgar árið 1994 þegar pabbi fór í sérnám í nýrnalækningum. Arnar Bragi bróðir minn var þá eins árs og ég fæddist ári síðar. Við eigum systur sem er fædd árið 2000, Andreu, en hún er með 4,3 í forgjöf og lék einnig á Íslandsmótinu á Akureyri,“ segir Aron Bjarki en Arnar Bragi bróðir hans er knattspyrnumaður og leikur með Fylki í Pepsi-deildinni hér á Íslandi.

Var á samning hjá sænsku fótboltaliði

Aron Bjarki hefur einbeitt sér að golfinu eftir stúdentsprófið en hann starfar sem afleysingakennari í grunnskóla í Gautaborg. Hann byrjaði ekki af alvöru í golfi fyrr en hann var 19 ára en hann æfði fótbolta af krafti og var á samningi hjá IFK Gautaborg.

„Ég fékk forgjöf þegar ég var 12 ára (2007). Fram að því hafði ég leikið mér á æfingasvæðinu með fjölskyldunni og einnig var ég með í golfskóla á Akureyri þegar ég var 9 ára. Það var eiginlega ekki fyrr en ég var 19 ára sem ég byrjaði fyrir alvöru og fór að keppa í golfi. Ég hafði verið á fullu í fótbolta, var á samningi við IFK Gautaborg U19 í 2 ár og varð sænskur meistari með þeim og síðar með B-deildar liðinu Utsikten. En golfið heillaði meira og í maí 2015 fann ég að fótboltinn var farinn að taka of mikinn tíma frá golfinu. Þá rifti ég samningnum við Utsikten. Frá þeim tíma hefur forgjöfin lækkað frá 5 í +0,3.“

Aron Bjarki ásamt Bergi Stefánssyni föður sínum á Jaðarsvelli. Mynd/seth@golf.is
Aron Bjarki ásamt Bergi Stefánssyni föður sínum á Jaðarsvelli. Mynd/seth@golf.is

Aron hefur leikið á unglingamótaröð í Svíþjóð undanfarin ár en hann á enn eitt ár eftir á þeirri mótaröð.

„Í Svíþjóð er maður unglingur í golfi fram til 22 ára. Ég keppi á mótaröð sem kallast Skandia Tour. Sú mótaröð er í nokkrum styrkleikaflokkum. Ég byrjaði á því að keppa á mínu svæði við Gautaborg og síðan safnar maður stigum til þess að komast inn á næsta styrkleikaþrep. Á efsta styrkleikaþrepinu eru síðan haldin 6 mót sem fara fram víðsvegar um Svíþjóð. Samhliða þessu er unglingamótaröð, Junior Masters Invitational, en þar fara fram um 25 mót á ári um alla Svíþjóð, þar sem tvö fyrstu sætin gefa þátttökurétt á úrslitamótinu í september. Nordea Future Series er sú mótaröð sem flestir taka síðan þátt á eftir unglingamótin. Þar getur maður unnið sér þátttökurétt á Nordea Golf League þar sem ég hef keppt tvisvar sinnum.“

[pull_quote_right]Það er mjög skemmtilegt og góð reynsla að spila á Íslandsmótinu. Öll umgjörðin er fagmannleg og eins og á alvöru atvinnumannamóti með kynni á teig, sjónvarpsútsendingu o.fl. [/pull_quote_right]

Aron keppir fyrir Sankt Jörgen Park GK golfklúbbinn í Gautaborg. Þar eru um 1200 félagsmenn. Stærsta stjarna klúbbsins er Johan Carlsson sem spilar á Evrópumótaröðinni.

„Ég er einnig meðlimur í Hills GK sem einnig er hér í Gautaborg. Sá völlur er sambærilegur við vellina á Evrópumótaröðinni og er besti völlurinn á Gautaborgarsvæðinu. Þar eru nokkrir þekktir atvinnumenn eins og Niklas Fasth, Johan Edfors, Rikard Karlberg og Tomas Björn.“
Markmið Arons er að komast á Evrópumótaröðina og leika á risamótunum.

„Fyrst verð ég að komast á Nordea Golf League atvinnumótaröðina. Í fyrra var ég einungis einu höggi frá því og vonast til að það takist í haust og síðan smám saman að komast inn á Challenge Tour og áfram inn á Evrópumótaröðina.“

Gaman að spila með þeim bestu

Aron var ánægður með árangurinn á Íslandsmótinu á Akureyri á Eimskipsmótaröðinni. Hann tók þátt í þriðja sinn á ferlinum.

„Markmiðin á Íslandsmótinu hafa breyst frá ári til árs, 2014 var markmiðið að klára niðurskurðinn sem tókst og 2015 var það topp 30. Í ár fannst mér ég vera í fínu formi og stefndi að topp 10 og var ekki langt frá því, lenti í 11. sæti.

Aron Bjarki Bergsson slær hér á 1. teig á Jaðarsvelli. Mynd/seth@golf.is
Aron Bjarki Bergsson slær hér á 1. teig á Jaðarsvelli. Mynd/seth@golf.is

Það var mjög gaman og mjög lærdómsríkt að leika með tveimur af bestu kylfingum landsins á Akureyri. Ég spilaði með Þórði Rafni Gissurarsyni á þriðja og fjórða keppnisdegi. Satt best að segja var ég mjög stressaður að spila með Íslandsmeistaranum, fékk skolla á tveimur fyrstu holunum áður en ég róaðist og spilað síðan 4 undir pari það sem eftir var. Á lokadeginum var ég mun afslappaðri þrátt fyrir að vera í ráshóp með Birgi Leifi Hafþórssyni og Þórði Rafni. Ég þakka Birgi Leifi fyrir það. Biggi Leifur var svo sallarólegur og yfirvegaður að maður hafði á tilfinningunni að maður væri bara að spila æfingahring með vinum sínum en ekki lokahring á Íslandsmótinu. Það var virkilega gaman að spila með þeim báðum, þeir spiluðu frábært golf. Biggi spilaði á 5 höggum undir pari, tapaði ekki einu einasta höggi og vann síðan titilinn sem gerði þetta enn skemmtilegra. Ég verð með á Íslandsmótinu í Keili á næsta ári ef ekkert óvænt kemur upp á.“

[pull_quote_right]Ég þakka Birgi Leifi fyrir það. Biggi Leifur var svo sallarólegur og yfirvegaður að maður hafði á tilfinningunni að maður væri bara að spila æfingahring með vinum sínum en ekki lokahring á Íslandsmótinu.[/pull_quote_right]

Aron segir að upplifunin af Íslandsmótinu hafi verið góð og umgjörðin sé í takt við það sem gerist á alvöru atvinnumannamóti.

„Það er mjög skemmtilegt og góð reynsla að spila á Íslandsmótinu. Öll umgjörðin er fagmannleg og eins og á alvöru atvinnumannamóti með kynni á teig, sjónvarpsútsendingu o.fl. Að slá högg með sjónvarpsmyndavél á sér er sérstök upplifun og reynsla sem maður fær ekki á öðrum mótum fyrr en maður kemst á Evrópumótaröðina. Þetta mót er þannig frábært mót fyrir unga kylfinga eins og mig. Maður verður að þora að spila sitt golf fyrir framan fjölda áhorfenda og myndatökuvélar, nokkuð sem maður gerir ekki á öðrum mótum,“ sagði Aron Bjarki Bergsson.

Aron Bjarki Bergsson slær hér upphafshögg á 10. teig á Jaðarsvelli. Mynd/seth@golf.is
Aron Bjarki Bergsson slær hér upphafshögg á 10. teig á Jaðarsvelli. Mynd/seth@golf.is

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ