Stefán og Björk. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

„Við hjónin ákváðum að fara saman í golfíþróttina fyrir sex árum. Þetta er því sjötta sumarið okkar í þessari frábæru íþrótt,“ segir Björk Elíasdóttir í viðtali við tímaritið Golf.is/ Golf á Íslandi.

Björk og Stefán Jónsson eru búsett í Vestmanneyjum og segir Björk að afar vel hafi verið tekið á móti henni þegar hún hóf að leika golf.

„Okkur vantaði eitthvað skemmtilegt að gera þar sem öll börnin voru farin að heiman. Ég hef alltaf verið mikil útivistarmanneskja og reynt að hreyfa mig mikið úti í náttúrunni. Golfið hefur upp á allt þetta að bjóða og ég sameina göngutúrinn og útiveruna með því að leika golf,“ segir Björk en hún hefur starfað hjá Íslandsbanka og forverum þess banka alla sína starfsævi.

„Ég sé fram á að láta vinnuna ekki trufla golfið mitt. Markmiðið er að minnka við mig vinnuna smátt og smátt þar til ég get bara einbeitt mér að barnabörnunum og golfinu,“ segir Björk í léttum tón. „Tvö af barnabörnunum okkar hafa sýnt golfinu áhuga. Ég ætla að reyna að styðja við þann áhuga með því að spila með þeim og leika við þau með þeim hætti.“

Vel tekið á móti nýliðum í Eyjum

„Ég verð að hrósa Golfklúbbi Vestmannaeyja fyrir öflugt nýliðastarf sem kennarar klúbbsins hafa staðið fyrir á undanförnum árum. Einar Gunnarsson, PGA-kennari, tók á móti okkur á sínum tíma. Hann byggði upp öflugt nýliðastarf og ég held að við höfum verið um 40 sem komu inn á þessum tíma. Karl Haraldsson tók síðan við starfinu og byggir ofan á þann góða grunn sem Einar lagði á sínum tíma. Það sem stendur upp úr er hversu vel er tekið á móti nýliðum. Það eru allir hjálplegir og jákvæðir. Ég hafði ímyndað mér að ég þyrfti að fara seint á daginn í golf til að þvælast ekki fyrir öðrum. Það reyndist ekki rétt.“


Vestmannaeyjavöllur Myndsethgolfis

Björk lætur sig dreyma um að slá draumahöggið og fara holu í höggi. Líkt og allir aðrir kylfingar.

„Ein af mínum uppáhaldskylfum er 8-járnið, mér hefur alltaf gengið vel að slá með því. 3-tréð hefur komið sterkt inn eftir að ég fékk mér slíkt verkfæri. Ég fékk fugl í síðustu golfferð á Spáni og það gladdi mig mikið.“


Björk Elíasdóttir Myndsethgolfis

Eins og áður segir er Björk búsett í Vestmannaeyjum og sá völlur býður svo sannarlega upp á fallegt umhverfi.  Þegar Björk er innt eftir uppáhaldsholunni kemur Vestmannaeyjavöllur þar mikið við sögu.

„Við Stefán höfum leikið á nokkrum völlum á Íslandi sem og á Spáni. Margar brautir eru eftirminnilegar. En uppáhaldsholurnar mínar eru í Eyjum þar sem ég leik oftast. Það er mikil áskorun að slá yfir Kaplagjótuna á 17. brautinni í Vestmanneyjum. Það er sérstök tilfinning að slá það högg. Einnig finnst mér 12. brautin vera skemmtileg áskorun, par 3 hola líkt og sú 17., og þær eru báðar mjög skemmtilegar að mínu mati.“

Björk segir að lokum að markmið sumarsins 2019 sé að lækka forgjöfina, bæta sinn leik, fara sem oftast í golf í góðum félagsskap og njóta útiverunnar.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ