/

Deildu:

Auglýsing

Viðtal við Sigurð Arnar Jónsson sem birtist fyrst í tímaritinu Golf.is/Golf á Íslandi.

„Ég og konan mín, Þórunn Óskarsdóttir, kynntumst árið 2011. Hún var á þeim tíma mikið að hreyfa sig og fara í líkamsrækt. Það var eitthvað sem heillaði mig ekki og ég hafði ekki áhuga á. Hún fór síðan að tala um að golfið væri eitthvað sem við gætum gert saman. Útivera, hreyfing og félagsskapur. Síðastliðið haust tók Þórunn Óskarsdóttir þá ákvörðun að við færum í golfskóla með vinkonum okkar,“ segir Sigurður Arnar Jónsson við Golf á Íslandi.

Sigurður fór í vor í golfferð til Spánar með það að markmiði að byrja af krafti í golfíþróttinni.

„Golfskólinn sem við fórum í var gríðarleg skemmtun. Markviss kennsla og mjög skemmtilegur tími. Þetta voru að meðaltali þrír tímar á dag. Það voru allir í góðu skapi með góðum kennurum. Ég mæli svo sannarlega með því að nýliðar eins og ég fari í golfskóla í heitu landi.“

Sigurður lék sér af og til í golfi sem krakki með vinum sínum en hann hefur aldrei verið skráður í golfklúbb eða leikið marga golfhringi á ári.

„Þegar ég var krakki á Akranesi þá fór ég oft upp á golfvöll að leika mér með vinum mínum. Tína kúlur upp úr skurðinum var kannski aðalmálið á þeim tíma en við vorum líka að slá bolta af og til. Ég bjó ekki langt frá Garðavelli og fyrir okkur strákana var þetta bara leiksvæði. Ég náði samt aldrei að fara almennilega af stað í þessari frábæru íþrótt. Árin liðu en þessi draumur um að byrja spila golf fór aldrei frá mér. Ég flutti til Danmerkur árið 2003 og þar lék ég aðeins meira en ég hafði gert áður. Það voru nokkuð margir Íslendingar á svæðinu og við fórum af og til í golf. Þar keypti ég mér golfsett og hef notað það síðan.“

Sigurður sló eftirminnilegasta golfhöggið á ferlinum í ferðinni á Spáni.

„Eftirminnilegasta golfhöggið sem ég hef slegið kom á á 17. braut á El Plantio á Spáni. Þar sló ég annað höggið ofan á brúargólfið á brúnni fyrir framan flötina. Boltinn fór beint ofan á gólfið á brúnni og skoppaði þar nokkrum sinnum að flötinni. Þetta högg var lykilhögg hjá liðinu mínu sem sigraði í fjögurra manna Texas Scramble móti sem var sett upp í ferðinni. Mjög skemmtileg reynsla fyrir mig.“

Sigurður vonast til þess að hann og Þórunn kona hans geti fundið tíma og næði til þess að slá enn fleiri skemmtileg golfhögg í sumar.

„Við búum í Vesturbæ Reykjavíkur og það er næsta verkefni hjá okkur að finna einhvern stað til þess að byggja ofan á þá reynslu sem við fengum í þessum golfskóla. Hvar það verður veit ég ekki og golfklúbbarnir mættu að mínu mati auglýsa betur hvar byrjendur eins og við getum fundið okkur athvarf til þess að slá golfboltann og spila á æfingavöllum,“ sagði Sigurður Arnar Jónsson.

Deildu:

Auglýsing
 
Auglýsing
 

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ