Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Auglýsing

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, úr GR, hefur líkt og aðrir atvinnukylfingar frá Íslandi dvalið á heimaslóðum vegna Covid-19 faraldursins. Ólafía Þórunn æfir af krafti þrátt fyrir allt og nýtir þá aðstöðu sem er aðgengileg.

„Ég nota spegilinn heima hjá mér til þess að sjá hvað ég er að gera við æfingar. Ég fæ einnig að fara í bílskúrinn hjá Ragnari Má Garðarssyni úr GKG til að slá. Vonandi verður veðrið betra til að æfa úti, en ég fór út um s.l. helgi að slá og það var í fyrsta skipti sem ég kemst út að slá,“ segir Ólafa Þórunn í samtali við golf.is.

„Í raun hefur gengið vel að æfa. Við förum í allskonar keppnir og þrautir í TrackMan græjunni, og það eru mikil gæði í þeim æfingum. Ég hef einnig nýtt tímann til að lesa og afla mér fróðleiks. Og hugarþjálfun er einnig stór þáttur í æfingunum hjá mér.“

Ólafía Þórunn er með keppnisrétt á Symetra atvinnumótaröðinni í Bandaríkjunum – sem er næst sterkasta atvinnumótaröð fyrir konur í Bandaríkjunum. Keppnisdagskrá Symetra mótararaðarinnar hefur að sjálfsögðu farið úr skorðum eftir að Covid-19.

„Það er gert ráð fyrir móti á Symetra mótaröðinni um miðjan júní. Það gæti að sjálfsögðu breyst. Mótaröðin sendir reglulega skilaboð á okkur varðandi stöðuna og hvað er framundan. Markmiðið er að mótaröðin verði í gangi fram í nóvember/desember og að mótin verði svipuð mörg og undanfarin ár.“

Ólympíuleikarnir í Tókýó á næsta ári er eitt af markmiðunum hjá Ólafíu Þórunni. „Ég tel mig eiga góða möguleika á að komast inn á ÓL 2021. Ég og Valdís Þóra Jónsdóttir, höfum báðar verið inni á listanum á undanförnum misserum, og vel það. Fyrir mig persónlega var jákvætt að ÓL var frestað um eitt ár. Það gefur mér meiri tíma til að bæta stöðu mína á heimslistanum. Það er er alveg góður möguleiki fyrir mig að komast aftur í hóp þeirra sem komast inn á ÓL,“ sagði Ólafía Þórunn.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ