„Það hefur allt gengið vel. Ferðalagið var þægilegt, svefninn er allur að koma til en ég hef vaknað stundum um miðja nótt á undanförnum dögum útaf tímamismuninum,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnukylfingur sem hefur leik í kvöld á LPGA móti í Ástralíu.
Ólafía Þórunn hefur leik kl. 20:41 að íslenskum tíma á ISPS Handa mótinu sem er hluti af LPGA mótaröðinni. Fyrsti keppnisdagurinn af alls fjórum er fimmtudaginn 16. febrúar. Klukkan verður 7:11 að morgni að staðartíma í Adelaide. Staðartími á mótsstaðnum er 10 ½ klukkustundum á undan þeim íslenska og hefst því mótið á miðvikudagskvöld hér á landi.
[pull_quote_right]Ólafía Þórunn hefur leik kl. 20:41 að íslenskum tíma á ISPS Handa mótinu sem er hluti af LPGA mótaröðinni. [/pull_quote_right]
„Völlurinn er skemmtilegur, ég myndi segja að flatirnar séu erfiðasta verkefnið á vellinum, þær eru ekki stórar en erfiðara. Aðstæður eru frábærar, flatirnar eru aðeins hægari ef miðað er við það sem var á Bahamas, en þær eru samt góðar,“ segir Ólafía við golf.is en hún á von á því að fá mikinn hita á meðan mótið fer fram.
„Við erum nokkuð heppin með veður því það er ekki of heitt. Það er búið að vera gríðarlega heitt í Ástralíu undanfarið. Það getur orðið vindasamt á vellinum, þannig að það verður gott að byrja snemma um morguninn fyrsta daginn. Æfingar hafa gengið mjög vel hérna í Ástralíu. Alltaf gaman að koma aftur á gras eftir að vera innandyra á Íslandi.“
Ólafía Þórunn verður í ráshóp með Belen Mozo frá Spáni og Celine Herbin frá Frakklandi í ráshóp fyrstu tvo keppnisdagana. Þær hefja leik á 10. teig á fyrsta hringnum. Mozo hefur verið á LPGA frá árinu 2011 og Herbin hefur leikið á LPGA frá árinu 2015. Mozo er í 162. sæti á heimslistanum og Melin er í 224. sæti á meðan Ólafía er í sæti nr. 607 á heimslistanum.
„Markmiðið mitt fyrir þetta mót er að bæta mig og vera í andlegu jafnvægi, því þá kemur allt hitt að sjálfu sér. Ég þekki eina sem ég spila með, Belen Mozo, hún er mjög skemmtileg. Svo er ég með Guðlaug Erlend Birgisson frænda minn með mér á pokanum, hann er „legend,“ segir Ólafía Þórunn.
Keppt er á The Royal Adelaide í Suður-Ástralíu en par vallarins er 73 högg. Völlurinn er 6,681 stikur eða um 6,100 metrar að lengd.
Heildarverðlaunféð á mótinu er 1,3 milljónir dalir eða um 160 milljónir kr. Verðlaunféð er það sama og á Pure Silk mótinu sem var fyrsta mót ársins 2017 og fór fram á Bahamas. Þetta er í sjötta sinn sem ISPS-Handa mótið fer fram á þessum stað.
Ólafía Þórunn endaði í 69.-72. sæti á fyrsta móti ársins á Bahamas og fékk hún 2.800 dollara í verðlaunafé eða sem nemur 330.000 kr.
Nánari upplýsingar um mótið hér:
Sigurvegarar ISPS Handa:
2016
Haru Nomura, Japan.
69 – 68 – 70 – 65 = 272 (-16)
2015
Lydia Ko, Nýja-Sjáland.
70 – 70 – 72 – 71 = 283 (-9)
2014
Karrie Webb, Nýja-Sjáland.
71 – 69 – 68 – 68 = 276 (-12)
2013
Jiyai Shin, Suður-Kórea.
65 – 67 – 70 – 72 = 274 (-18)
2012
Jessica Korda, Bandaríkin.
72 – 70 – 73 – 74 = 289 (-3)