Forskot 2017.
Auglýsing

Nýverið var úthlutað úr Forskoti afrekssjóði kylfinga og fá alls sjö atvinnukylfingar styrk úr sjóðnum að þessu sinni. Kylfingarnir eru: Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Valdís Þóra Jónsdóttir, Birgir Leifur Hafþórsson, Axel Bóasson, Andri Þór Björnsson, Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson .

Þetta er í sjötta sinn sem íslenskir kylfingar fá úthlutað úr Forskoti afrekssjóði sem var stofnaður árið 2012.

Það er mikið gleðiefni fyrir aðstandendur sjóðsins að íslenskt afreksgolf hefur verið í stöðugri framför frá stofnun hans. Árið 2017 munu, í fyrsta sinn, tveir íslenskir atvinnukylfingar, leika á sterkustu mótaröðunum. Þær Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir og fá þær hæstu styrkina. Ólafía er með keppnisrétt á LPGA mótaröðinni í Bandaríkjunum og Valdís á LET Evrópumótaröðinni.

Í ár leggur eitt öflugt fyrirtæki til viðbótar sitt lóð á vogarskálarnar. Bláa Lónið hf. kemur inn í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa stutt vel við bakið á íslenskum afrekskylfingum undanfarin ár.  Það er mikið gleðiefni að Bláa Lónið sé nú líka hluti af Forskoti afrekssjóð, en alls standa sex öflug fyrirtæki auk GSÍ að sjóðnum.

[pull_quote_right]Stofnendur Forskots afrekssjóðs eru Eimskip, Valitor, Golfsamband Íslands, Íslandsbanki og Icelandair Group. Vörður tryggingar bættist í hópinn árið 2016 og nú Bláa Lónið. [/pull_quote_right]

Sjóðurinn hefur frá upphafi haft það að markmiði að styðja við þá kylfinga, atvinnumenn sem og áhugamenn, sem stefna á að komast í fremstu röð í heiminum í golfíþróttinni.

Um sjóðinn

Forskot afrekssjóður var stofnaður um mitt ár 2012 og þann 14. júní sama ár var í fyrsta sinn úthlutað úr sjóðnum.

Markmiðið með stofnun Forskots afrekssjóðs árið 2012 var að búa til reynslu og þekkingarbrunn sem skili sér til kylfinga framtíðarinnar og ungir kylfingar geti litið til í sínum framtíðaráætlunum. Sjóðurinn hefur frá upphafi beint sjónum sínum að fimm kylfingum á hverjum tíma og leitast við að gera þeim auðveldara fyrir að æfa og keppa við bestu skilyrði í samræmi við það sem gerist á alþjóðlegum vettvangi.

Frá því að Forskot afrekssjóður var settur á laggirnar hefur slagkrafturinn hjá íslenskum atvinnukylfingum verið enn meiri en áður og samtakamáttur þeirra aðila sem koma að sjóðnum fleytt okkar bestu kylfingum áfram inn á nýjar brautir.

Ríkar kröfur eru gerðar til þessara íþróttamanna um ráðstöfun styrkjanna. Ber þeim að leggja fram æfinga- og keppnisáætlanir auk fjárhagsáætlunar fyrir verkefni sín auk þess sem gerðir eru sérstakir samningar við hvern kylfing um að þeir virði reglur Íþrótta- og Ólympíuhreyfingarinnar.

Þeir kylfingar sem fá úthlutað úr Forskoti afrekssjóði eru sterkar fyrirmyndir. Það að eiga afreksmenn í íþróttum er stór og mikilvægur þáttur í því að fá börn og unglinga til að sinna íþróttum. Því er litið á sjóðinn sem mikilvægt skref til að efla íþróttir barna og unglinga og hvetja þau til dáða.

Einn fulltrúi frá þeim sem aðild eiga að Forskoti er í stjórn sjóðsins og auk þess hefur stjórn sér til ráðgjafar fagteymi sem gerir tillögur um úthlutanir úr sjóðnum.

Í fagteyminu hafa setið eftirtaldir aðilar: Úlfar Jónsson fyrrverandi landsliðsþjálfari, Hlynur Geir Hjartarson formaður PGA á Íslandi, Sigurpáll Geir Sveinsson  PGA kennari, Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari.

Nánari upplýsingar á forskot.is

Um kylfingana

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR:

Ólafía Þórunn, sem er 25 ára gömul, tryggði sér keppnisrétt á sterkustu atvinnumótaröð kvenna, LPGA, í desember s.l. á lokaúrtökumótinu sem fram fór Bandaríkjunum.  Þar endaði hún í öðru sæti. Ólafía Þórunn lék á LET Evrópumótaröðinni á síðasta tímabili og var það annað tímabil hennar sem atvinnukylfingur. Hún er fyrsti íslenski kylfingurinn sem nær að tryggja sér keppnisrétt á sterkustu atvinnumótaröð í heimi, LPGA. Ólafía var önnur í röðinni hjá íslenskum konum sem hafa tryggt sér keppnisrétt á mótaröð þeirra bestu í Evrópu en það gerði hún árið 2015.  Ólöf María Jónsdóttir náði þeim árangri haustið 2004. Ólafía Þórunn hefur þrívegis fagnað Íslandsmeistaratitlinum í golfi, 2011, 2014, 2016.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á Pure Silk mótinu á Bahamas á öðrum keppnisdegi.  Mynd/seth@golf.is
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á Pure Silk mótinu á Bahamas á öðrum keppnisdegi. Mynd/seth@golf.is

Valdís Þóra Jónsdóttir, GL:

Valdís Þóra tryggði sér keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni í desember s.l. og varð í öðru sæti á lokaúrtökumótinu í Marokkó. Valdís er að hefja sitt fyrsta ár á LET Evrópumótaröðinni en hún hefur leikið í þrjú tímabil á LET Access mótaröðinni í Evrópu.  Valdís Þóra, sem er 27 ára gömul, hefur tvívegis staðið uppi sem sigurvegari á Íslandsmótinu í golfi, 2009 og 2012.

Valdís Þóra Jónsdóttir. Mynd/LET/Tristan Jones
Valdís Þóra Jónsdóttir. Mynd/LET/Tristan Jones

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG:

Birgir Leifur, sem verður 41 árs gamall í maí á þessu ári. Hann setti met með því að landa sjöunda Íslandsmeistaratitlinum á Jaðarsvelli á Akureyri sumarið 2016. Birgir er með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni í Evrópu en hann hefur verið atvinnukylfingur í tvo áratugi. Birgir Leifur er eini íslenski karl kylfingurinn sem hefur náð að tryggja sig inn á Evrópumótaröðina en það gerði hann árið 2006.

Birgir Leifur Hafþórsson. Mynd/seth@golf.is
Birgir Leifur Hafþórsson. Mynd/seth@golf.is

 

Axel Bóasson, GK:

Axel Bóasson er með keppnisrétt á Nordic League atvinnumótaröðinni. Axel er á sínu öðru ári sem atvinnukylfingur en hann verður 27 ára gamall í maí á þessu ári. Axel varð stigameistari á Eimskipsmótaröðinni 2016 og hefur einu sinni fagnað Íslandsmeistaratitlinum árið 2011.

Axel Bóasson. Mynd/seth@golf.is
Axel Bóasson. Mynd/seth@golf.is



Andri Þór Björnsson, GR:

Hinn 26 ára gamli Andri Þór er á sínu fyrsta ári sem atvinnukylfingur en hann útskrifaðist frá Nicholls State í Bandaríkjunum vorið 2016. Andri Þór er með keppnisrétt Nordic League atvinnumótaröðinni á þessu tímabili og hann náði góðum árangri á Eimskipsmótaröðinni á árinu 2016.

Símamótið 2016
Andri Þór Björnsson, GR.



Haraldur Franklín Magnús, GR:

Haraldur, sem er 26 ára gamall,  er á sínu fyrsta ári sem atvinnukylfingur en hann lauk námi frá Louisiana-Lafayette háskólanum í Bandaríkjunum árið 2016. Árangur hans á háskólamótunum var með því besta sem íslenskur kylfingur hefur afrekað. Haraldur Franklín hefur einu sinni fagnað Íslandsmeistaratitlinum en það gerði hann árið 2012. Haraldur Franklín er ekki með keppnisrétt á atvinnumótaröð á þessu ári en hann mun nýta þau tækifæri sem gefast á atvinnumótaröðum víðsvegar um Evrópu á árinu 2017.

Haraldur Franklin Magnús.
Haraldur Franklin Magnús.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR:

Guðmundur Ágúst, sem er 25 ára gamall, lauk námi frá East Tenessee State í Bandaríkjunum árið 2016. Hann náði að komast í lokamót NCAA árið 2015 og árangur hans á háskólaferlinum er með því besta sem íslenskur kylfingur hefur náð. Guðmundur er ekki með keppnisrétt á atvinnumótaröð á þessu ári en mun nýta þau tækifæri sem gefast á atvinnumótaröðum víðsvegar um Evrópu á árinu 2017.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.

 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ