/

Deildu:

Auglýsing

Pistill úr 1. tbl. Golf á Íslandi 2020.

Eftir inniveru og félagslega einangrun vikum saman flykktust kylfingar út á golfvelli landsins hinn 11. apríl og léku golf undir reglum sem þeir voru engan veginn vanir og þurfa vonandi aldrei aftur að eltast við. Hinn 4. maí var unnt að leika golf við nokkuð eðlilegar aðstæður og nú hefur loksins öllum takmörkunum á golfleik verið aflétt. Við erum kylfingum afar þakklát fyrir viðtökurnar, biðlundina og virðinguna sem þeir sýndu í erfiðum og undarlegum aðstæðum undanfarnar vikur. 

Þrátt fyrir takmarkanir á golfleik fór golftímabilið af stað með látum. Þátttakan var framar vonum og slegist hefur verið um rástímana. Með þessu áframhaldi stefnir allt í besta golfsumar í manna minnum. Vegna ferðatakmarkana til útlanda er gott að vita til þess að íslenskum kylfingum stendur til boða að leika yfir 60 golfvelli á Íslandi, hringinn í kringum landið. Golfhringurinn mun því vonandi öðlast nýja merkingu í sumar. 

Í langri sögu golfíþróttarinnar hafa breytingar gerst hægt og má segja að golfíþróttin sé frekar íhaldssöm. Í ár tökumst við hins vegar á við tvær stórar breytingar og aðrar minniháttar. Annars vegar nýtt forgjafarkerfi og hins vegar nýtt hugbúnaðarkerfi. Breytingar af þessu tagi kalla á þolinmæði allra sem að þeim koma. 

Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands. Mynd/Hari.

Nýja forgjafarkerfið, World Handicap System, tók gildi í upphafi árs með sameiningu allra sex forgjafarkerfa heimsins. Að baki breytingunni liggur ómæld vinna allra stærstu og áhrifamestu aðila íþróttarinnar og hefur sameiningin krafist útsjónarsemi og umfangsmikilla rannsókna allra þeirra sem komu að verkinu. Ég vil færa öllum þeim sem komu að uppsetningu hins nýja forgjafarkerfis hér á landi bestu þakkir fyrir óeigingjarnt starf og hvet um leið forgjafarnefndir golfklúbbanna til að standa vaktina á meðan íslenskir kylfingar aðlagast nýjum forgjafarreglum. Ég er sannfærður um að hið nýja forgjafarkerfi muni koma til með að færa íþróttina okkar á nýtt og hærra plan og gera hana aðgengilegri fyrir komandi kynslóðir. Það er ósk mín að með tilkomu reglnanna muni íþróttin haldi áfram að færa okkur gleði í leik og heiðarlegri keppni, hvar sem er í veröldinni.

Eftir tveggja áratuga þróun eigin hugbúnaðar ákvað golfhreyfingin að láta staðar numið. Þótt hugbúnaðurinn, sem í daglegu tali hefur verið kallaður golf.is, hafi þjónað hreyfingunni vel þá var það mat okkar að golfsambandið gæti hvorki elt þær tækninýjungar, sem ólíkir þjónustuaðilar munu bjóða upp á, né heldur kröfurnar sem notendurnir munu setja. Um allan heim eru þúsundir hugbúnaðaraðila í stöðugri þróun á nýju viðmóti og tæknimöguleikum sem GSÍ mun aldrei geta fylgt eftir í sínu kerfi. Golfsamband Íslands er ekki hugbúnaðarfyrirtæki og óhjákvæmilegt var að sambandið myndi lenda undir í þeirri þróun sem fram undan er með eigið hugbúnaðarkerfi. 

Að loknu fjögurra ára rannsóknar- og kynningarferli tók golfhreyfingin þá sameiginlegu ákvörðun, á sérstöku aukagolfþingi hinn 11. maí 2019, að semja við danska fyrirtækið Golfbox um kaup á tölvukerfi fyrir golfhreyfinguna næstu árin. Við höfum því lagt okkar sérsmíðaða kerfi á hilluna og tekið upp staðlaðan og alþjóðlegan hugbúnað sem mun án efa reynast okkur vel í framtíðinni. 

Við vissum það þegar ákvörðunin var tekin að innleiðingunni myndu fylgja margvíslegar áskoranir, enda flókið mál að skipta um hugbúnaðarkerfi sem tæplega 20 þúsund manns nota nánast daglega yfir sumartímann. Kerfið var „sett í loftið“ í mars og vonuðumst við til þess að kylfingar og klúbbar gætu nýtt tímann fram að sumri til að læra á kerfið. Því miður setti COVID-faraldurinn verulegt strik í reikninginn og því reyndist erfiðara að koma kynningar- og kennsluefni á framfæri við kylfinga. Nú er sumarið hins vegar skollið á og okkur hefur verið hent út í djúpu laugina. Með réttum sundtökum verður ekkert mál að komast að landi. 

Það er gaman að segja frá því að innleiðing kerfisins hefur tekist afar vel og hefur kerfið virkað sem skyldi, með örfáum undantekningum. Allir þurfa þó tíma til þess að læra á kerfið, bæði starfsfólk golfklúbbanna og kylfingarnir sjálfir. Við biðjum kylfinga því um sýna biðlund á meðan við fínstillum kerfið og þökkum fyrir þolinmæðina meðan á þessu stendur. 

Tímaritið Golf á Íslandi hefur nú komið út í um þrjátíu ár en að þessu sinni kemur það út með nýju sniði – rafrænu sniði. Þetta er í fyrsta skiptið sem tímaritið er eingöngu gefið út á rafrænu formi en golfsambandið hefur lengi unnið að því að færa útgáfu sína í auknum mæli yfir á rafræna miðla. Þessi útgáfa er liður í þeirri þróun og við vonum að lesendur tímaritsins taki nýbreytninni vel. 

Að lokum er rétt að nefna að kylfingar munu verða varir við breytingar á útliti golf.is á næstu dögum. Heimasíða golfsambandsins er einn vinsælasti vefur landsins hluta úr ári en síðan fær yfir tvær milljónir heimsókna á ári. Virknin á hinum nýja vef mun haldast óbreytt en breytingin er hluti af uppfærslu og innleiðingu vegna Golfbox. 

Ég vona innilega að þið kunnið að meta þær breytingar sem nýtt golfsumar ber í skauti sér og ég óska ykkur gleðilegs sumar með mikilli forgjafarlækkun og óteljandi gleðistundum á golfvellinum. 

Með sumarkveðju,
Haukur Örn Birgisson 
forseti Golfsambands Íslands

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ