GSÍ fjölskyldan
Auglýsing

Íslenskir atvinnu- og afrekskylfingar hafa verið að spila gott golf á alþjóðlegum vettvangi undanfarið.

Kylfingarnir okkar leika á mótaröðum um alla Evrópu og er gaman að fylgjast með gengi þeirra og ferðalögum. Hér hafa verið tekin saman mót vikunnar, farið yfir úrslit og spáð fyrir gengi helgarinnar.

Evrópumótaröð kvenna (Ladies European Tour)

Guðrún Brá hóf leik á Jabra Ladies Open mótinu á Evrópumótaröðinni í gær. Þetta er annað mót Guðrúnar á mótaröðinni á tímabilinu, en í síðustu viku endaði hún jöfn í 53. sæti á Dutch Ladies Open mótinu í Hollandi.

Leikið er á Evian Resort Golf Club vellinum í Frakklandi. Aðstæður voru ágætar en völlurinn var töluvert blautari en oft áður, þar sem rignt hefur undanfarna daga. Rigninguna mátti sjá vel í færslu Guðrúnar á Instagram í gær. Á morgun á veðrið þó að vera aðeins betra.

Rigning í Frakklandi

Guðrún lék fyrsta hringinn sinn á 74 höggum, þremur yfir pari. Hún var einn yfir á fyrri níu holunum en lék fyrstu tvær holurnar á seinni níu fjóra yfir pari. Eftir það hrökk hún í gang og spilaði síðustu sjö holurnar á tveimur undir pari. Hún situr jöfn í 73. sæti mótsins og má líklega spila rétt yfir pari í dag til að ná í gegnum niðurskurð.

Guðrún hefur leik kl. 10:40.

Fylgjast með skori

LET Access Mótaröðin

Ragnhildur Kristinsdóttir og Andrea Bergsdóttir hófu leik á Allegria Stegersbach Ladies Open mótinu á LET Access mótaröðinni á miðvikudag. Mótaröðin er stigi fyrir neðan Evrópumótaröðina (LET) og getur gott gengi opnað alls kyns dyr í golfheiminum.

Veðrið hefur sett strik í reikninginn á mótinu, en leik var frestað í gær sökum rigningar. Eins og sjá má á Instagram reikningi Ragnhildar hefur verið strembið að spila gott golf í þessum aðstæðum.

Hér er blautt

Andrea hefur leikið vel hingað til og situr í 12. sæti mótsins. Hún hefur þó eingöngu klárað þrjár holur á sínum öðrum hring og gæti komið sér í enn betri mál í lok dags.

Ragnhildur byrjaði mótið erfiðlega. Annan hring mótsins hóf hún þó frábærlega, fékk þrjá fugla í röð og var einum undir pari þegar hringnum var frestað.

Andrea og Ragnhildur halda leik áfram frá kl. 09:00 að íslenskum tíma.

Fylgjast með skori

Nordic Golf League

Tveir íslenskir kylfingar tóku þátt á Gamle Fredrikstad Open mótinu sem lauk í gær. Það voru þeir Sigurður Arnar Garðarsson og Hlynur Bergsson. Mótið er haldið í Noregi og er hluti af Nordic Golf League mótaröðinni.

Sigurður lék mótið vel og endaði jafn í 6. sæti mótsins. Hann lék hringi sína á 72-68-72 og lauk leik á fjórum undir pari í heildina.

Sigurður nýtti högglengd sína vel á par 5 holunum í mótinu. Einungis tveir kylfingar léku þær holur betur en Sigurður, sem sló að meðaltali 4.5 högg á hverri par 5 braut.

Skor Sigurðar

Hlynur Bergsson lék sína hringi á 73-74 og var tveimur höggum frá því að ná í gegnum niðurskurð.

Skoða skor

HotelPlanner Tour

Haraldur Franklín Magnús, GR, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, og Nick Carlson, GM, hófu allir leik á Danish Golf Challenge mótinu í gær. Leikið er á Bogense Golf Club í Danmörku.

Mótið er hluti af HotelPlanner Tour mótaröðinni. Þar er Nick með fullan þátttökurétt en Guðmundur og Haraldur með takmarkaðan þátttökurétt.

Frábært skor hefur sést í mótinu á fyrstu tveimur dögunum, og er það Skotinn Calum Fyfe sem leiðir mótið á þrettán undir pari.

Okkar menn hafa allir leikið stöðugt golf hingað til og náðu allir niðurskurði.

Haraldur Franklín og Nick Carlson eru jafnir í 48. sæti mótsins á einum undir pari. Þeir léku báðir fyrri hringinn á 73 höggum og þann seinni á 70.

Guðmundur Ágúst er höggi á eftir þeim félögum þegar mótið er hálfnað, eftir hringi upp á 73 og 71 högg.

Fylgjast með skori

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ