/

Deildu:

Björgvin Þorsteinsson. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

Björgvin Þorsteinsson fæddist á Akureyri 27. apríl 1953. Hann lést á líknardeild Landspítalans 14. október 2021. 

Björgvin var flestum íslenskum kylfingum kunnugur og á löngum og farsælum ferli setti hann ný viðmið og met á mörgum sviðum golfíþróttarinnar. 

Fyrri eiginkona Björgvins var Herdís Snæbjörnsdóttir, dóttir þeirra er Steina Rósa fædd 1976. 

Eftirlifandi eiginkona Björgvins er Jóna Dóra Kristinsdóttir, ljósmóðir. Björgvin og Jóna gengu í hjónaband árið 1999 eftir 10 ára sambúð. Sonur Jónu Dóru og stjúpsonur Björgvins er Kristinn Geir fæddur 1980. 

Björgvin ólst upp á Akureyri, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1973 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1980. Hann fékk réttindi sem héraðsréttarlögmaður árið 1982 og sem hæstaréttarlögmaður 1986. Frá árinu 1982 starfaði hann hjá Draupni lögmannsþjónustu. 

Björgvin sat í stjórn Golfklúbbs Akureyrar 1967-1969 og í stjórn Golfsambands Íslands 1998-2002. Þá átti hann sæti í áfrýjunardómstól ÍSÍ undanfarn tvo áratugi. 

Björgvin varð sex sinnum Íslandsmeistari í golfi á árunum 1971-1977 og þar af fimm ár í röð, 1973-1977 og er það afrek sem enginn hefur enn leikið eftir í karlaflokki. 

Björgvin keppti 56 sinnum á Íslandsmótinu í golfi, síðast í sumar á Jaðarsvelli á Akureyri, og er Björgvin sá kylfingur sem hefur oftast tekið þáttt á Íslandsmótinu í golfi. Á Íslandsmótinu í golfi 2021 var keppt í fyrsta sinn um Björgvinsskálina sem er veitt þeim áhugamanni sem leikur á lægsta skori í kvenna – eða karlaflokki á Íslandsmótinu í golfi ár hvert. 

Árið 2017 varð Björgvin Íslandsmeistari í flokki kylfinga 35 ára og eldri og þá varð hann Íslandsmeistari í flokki kylfinga 65 ára og eldri tvö ár í röð, nú seinast í Vestmannaeyjum í sumar. 

Auk Íslandsmeistaratitlanna varð hann níu sinnum meistari Golfklúbbs Akureyrar, Golfklúbbs Reykjavíkur tvisvar og Golfklúbbs Hafnar í Hornafirði einu sinni. Hann tók einnig þátt í landsliðsverkefnum fyrir hönd Íslands í öllum aldursflokkum. 

Björgvin náði þeim einstaka árangri að fara holu í höggi 11 sinnum á ferlinum – oftast allra íslenskra kylfinga. 

Hann var sæmdur gullmerki GSÍ árið 2003 og sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ á ársþingi Íþrótta – og ólympíusambands Íslands í október á þessu ári. 

Fallinn er frá mikill heiðursmaður, keppnismaður og karakter sem skilur eftir sig stórt skarð í golfhreyfingunni. Hans verður sárt saknað.

Golfsamband Íslands vottar aðstandendum innilegrar samúðar.

Útför Björgvins fer fram í dag, 27. október, í Grafarvogskirkju kl. 15. 

Athöfninni verður streymt á þessum hlekk:

https://sonik.is/bjorgvin

Eftirfarandi kafla er að finna um Björgvin í bókinni Golf á Íslandi sem Golfsamband Íslands gaf út árið 2012. 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ