/

Deildu:

Íslandsmót 2016
Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ.
Auglýsing

Mikill áhugi er á starfi afreksstjóra Golfsambands Íslands en starfið var auglýst innanlands sem utan í nóvember. Fjörutíu og sex umsóknir bárust GSÍ frá erlendum einstaklingum. Umsóknirnar voru alls 50 og því voru fjórir Íslendingar í hópi umsækjenda.

Haukar Örn Birgisson, forseti GSÍ, fer yfir stöðuna í viðtali sem birt var í Morgunblaðinu í dag.

„Ísland er á kortinu í hinum alþjóðlega golfheimi og þetta sýnir að virkilegur áhugi er fyrir því að taka að sér störf fyrir Golfsambandið. Bjart er framundan í íslensku golfi nú eins og oft áður,“ sagði Haukur og bætti því við að margir þeirra sem sóttu um byggju yfir mikilli reynslu. Suma þeirra kallar hann þungavigtarumsækjendur. „Gæði umsókna voru virkilega mikil. Í þessum hópi eru landsliðsþjálfarar annarra landsliða, bæði núverandi og fyrrverandi.

Þarna eru fyrrverandi kylfingar á Evrópumótaröðinni. Núverandi og fyrrverandi þjálfarar mjög góðra atvinnukylfinga, meira að segja heimsþekktra kylfinga. Einnig eru í hópi umsækjenda sterkir atvinnukylfingar sem einnig eru í þjálfara- og kennarastöðum erlendis.“

Úlfar Jónsson hefur gegnt stöðu landsliðs þjálfara í 50% starfi og starfar út þetta ár. Starfsheitinu er nú breytt í afreksstjóri.

„Við höfum náð að þrengja hópinn niður í nokkra einstaklinga og höfum verið með þá einstaklinga í nánara umsóknarferli. Við stefnum að því að ljúka ráðningu á allra næstu dögum,“ útskýrði Haukur en spurður um hvort einhver Íslendingur sé á meðal þeirra sem komust áfram í umsóknarferlinu sagði forsetinn að svo væri.

Hvað starfið varðar lýsir Haukur því eins og landsliðsþjálfarastarfi í flestum íþróttum.

„Afreksstjóri er ekki beinlínis að þjálfa kylfingana heldur eru það þjálfarar í klúbbunum og háskólaliðunum sem sjá um það. Honum er ætlað víðara hlutverk eins og að vera í samskiptum við kylfingana, þjálfarana, háskólana úti og undirbúa vistaskipti kylfingsins úr áhugamennsku yfir í atvinnumennsku.“

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ