/

Deildu:

Auglýsing

Af hverju teiknar Ragnhildur Sigurðardóttir hesta á boltana sína?

„Ég merkti boltana mína oft með punktum eins og svo margir. Á Evrópumóti kvennalandsliða í Hollandi spilaði ég með Karenu Sævarsdóttur vinkonu minni. Við áttum leik á móti Dönum. Við tilkynntum bolta á teig, Titleist nr. 3 með 3 svörtum doppum. Þær tilkynntu Titleist 4 og engar doppur á þeim bolta,“ segir Ragnhildur Sigurðardóttir í viðtali við Golf á Íslandi.

„Eftir 15 brautir var allt jafnt og Karen átti teighöggið á þeirri 16. Sú danska sem átti teighöggið með henni var mjög högglöng. Sextánda braut lá í hundslöpp til hægri og í beygjunni voru há tré. Karen notaði 5-járn en sú danska var með blendingskylfu. Bæði höggin heppnuðust vel og flugu yfir trén. Þegar við komum fyrir hornið sáum við strax annan boltann sem við töldum vera okkar. Ég gekk að honum, sá að þetta var Titleist og ég sá 3 svartar doppur. Ég sló þann bolta og umsvifalaust sögðu þessar dönsku: „Þú slóst vitlausan bolta.“ Þær voru ekki komnar að hinum boltanum. Þær settu 3 doppur á boltann sinn og sögðu okkur ekki frá því. Við töpuðum svo næstu holu vegna þess að boltinn okkar hreyfðist hjá Karen úti í karga. Íþróttamaðurinn Karen Sævarsdóttir var sú eina sem sá það og tilkynnti að sjálfsögðu mótspilaranum. Leikurinn tapaðist.

 

Eftir þetta merkti ég ekki boltana mína með doppum og fór að merkja þá með mynd af hesti sem ég teikna á boltana mína í stærri mótum.

Á Íslandsmóti hjá Keili í Hafnarfirði sló ég hestaboltanum mínum ofan í gjótu á 3. braut. Hann var það djúpt ofan í gjótunni að ekki var hægt að ná honum til að snúa honum en hesturinn sást þannig að ég fékk að taka víti á bakkanum, annars hefði ég þurft að fara aftur á teiginn.“

author avatar
Sigurður Elvar

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ