/

Deildu:

Auglýsing

Á þessum árstíma kemur fyrir að bolti leikmanns lendir inni í kríuvarpi. Krían er þá er frekar árásargjörn og á það til að ráðast að leikmanninum og gogga í höfuðið á honum.

Spurningar hafa komið fram hvað nýju golfreglurnar leyfa í þessu tilviki og er eftirfarandi texti til að leiðbeina kylfingum og klúbbum um það.

Í reglu 10.2b segir:

(5) Áþreifanleg aðstoð og skjól fyrir höfuðskepnunum. Leikmaður má ekki slá högg:

  • Á meðan hann þiggur áþreifanlega aðstoð frá kylfubera sínum eða einhverjum öðrum, eða
  • Á meðan kylfuberi hans, annar einstaklingur eða hlutur er vísvitandi staðsettur til að veita skjól frá sólskini, regni, vindi eða öðrum höfuðskepnum.

Slík aðstoð eða skjól er leyfilegt áður en högg er slegið, nema það sem bannað er í reglum 10.2b(3) og (4). Þessi regla bannar ekki leikmanni að skýla sjálfum sér fyrir höfuðskepnunum á meðan hann slær högg, svo sem með því að klæðast skjólfatnaði eða halda regnhlíf yfir höfði sínu.

Skilgreiningar og lausnir

  1. Krían sem slík er ekki höfuðskepna og því er það ekki brot á reglu 10.2b þótt einhver haldi kylfu fyrir ofan leikmann eða til hliðar við hann, þannig að krían ráðist frekar á kylfuna en leikmanninn. 
  2. Kylfuberi gæti líka notað regnhlíf í stað kylfu, en yrði þá að passa að veita leikmanninum ekki um leið skjól frá höfuðskepnunum (vindi, regni, sól).
  3. Regla 16.2 um hættulegar dýraaðstæður nær ekki til kríuvarps. Samkvæmt reglunni eru hættulegar dýraaðstæður þegar hættuleg dýr “gætu valdið leikmanninum alvarlegum líkamlegum áverkum ef hann þyrfti að leika boltanum þar sem hann liggur.” Þótt kríur valdi einstaka sinnum líkamlegum áverkum er að okkar viti fjarri lagi að kalla slíka áverka alvarlega.
  4. Ef bolti lendir svo nærri hreiðri að högg leikmannsins gæti skaðað hreiðrið er hreiðrið sjálfkrafa grund í aðgerð, samanber skilgreiningu á grund í aðgerð. Því þarf engar sérstakar ráðstafanir í staðarreglum til að vernda hreiður. Hins vegar getur klúbbum þótt rétt að benda leikmönnum á þetta og að hvetja leikmenn til að taka lausn ef bolti lendir svo nærri hreiðri.
  5. Klúbbar geta skilgreint grund í aðgerð þar sem þeir vilja, þar á meðal í kríuvarpi. Samhliða geta þeir skilgreint grundina sem bannreit. Það er þó umhugsunarvert að beinlínis banna mönnum að leika úr henni. Það þarf ekki til að vernda hreiðrin því þau eru sjálfkrafa grund í aðgerð, sbr. 4. lið, og af hverju ætti að banna þeim sem það vilja að leika boltanum þar sem hann liggur?

Ef kríuvörp eru skilgreind grund í aðgerð yrðu slík svæði líklega býsna stór og þá þarf að huga vel að því að leikmenn fái sanngjarna lausn  (hvorki of góða né of slæma) út úr grundinni, hvar svo sem boltinn liggur innan hennar.

Reykjavík, 30. júní 2019,
Dómaranefnd GSÍ


Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ