/

Deildu:

Auglýsing

„Ég er fæddur í Vestmannaeyjum og spilaði ekki mikið golf þegar ég var krakki. Ég fór kannski 1-2 sinnum í golf að mig minnir. Það hefði verið betra að byrja fyrr en ég geri mitt besta til að ná betri tökum á golfinu,“ segir Ingi Þór Þorvaldsson við tímaritið Golf á Íslandi sem kom út nýverið.

Ingi Þór fór í golfskóla Úrvals Útsýnar á El Plantio í vor og markmiðið var að ná betri tökum á golfíþróttinni.

„Ég fór að spila golf reglulega fyrir um 6 árum og ég var þá félagi í Golfklúbbi Bakkakots. Það hefur lítið gengið að lækka forgjöfina og þess vegna skráði ég mig í golfskólann á El Plantio. Það var að mínu mati frábær ákvörðun. Hér hef ég fengið góð ráð frá bræðrunum Þorsteini Hallgrímssyni og Júlíusi Hallgrímssyni.“

Ingi Þór segir ennfremur að það auðveldi byrjendum í golfi að æfa við aðstæður líkt og á Spáni á vorin.

„Engin spurning. Hér er ég í golfi frá morgni til kvölds. Golfskólinn á morgnana og síðan er spilað eins og hægt er. Á þessum stutta tíma hef ég náð miklu betri tökum á þeim atriðum sem ég þarf að laga – og listinn er langur, skal ég segja þér. En góðu höggunum fjölgar og það hvetur mig áfram. Ég er ágætur í stutta spilinu en nánast allt hitt þarf að laga mikið. Ég vef kylfunni utan um hausinn á mér aftursveiflunni í löngu höggunum og bræðurnir eru að reyna að laga það hjá mér.“

Ingi Þór starfar hjá Þekkingu sem tæknimaður í vettvangsþjónustu. Hann segir að golfið sé stór hluti af daglegu spjalli á vinnustaðnum.

„Það eru margir sem spila golf í fyrirtækinu. Það er mikilvægt að geta fengið vinnufélagana með í golf. Í fyrra vorum við fjórir sem fórum mjög reglulega saman að spila. Í sumar ætla ég að gerast félagi á ný í golfklúbbi, ég er ekki alveg búinn að ákveða í hvaða klúbb mig langar að fara. Golfíþróttin snýst fyrir mig um að komast út í náttúruna og vera úti í góðum félagsskap. Stundum gengur vel og stundum ekki, en góðu höggin bæta þau slæmu upp. Markmiðið í sumar er að komast undir 36 í forgjöf og hafa gaman af þessu.“

Líkt og margir golfáhugamenn þá fylgist Ingi Þór ágætlega með golfíþróttinni í sjónvarpi og fjölmiðlum.

„Mér finnst frábært að Tiger Woods sé byrjaður að keppa aftur. Ég fylgist með honum og einnig íslensku atvinnukylfingunum. Sérstaklega Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur,“ sagði Ingi Þór Þorvaldsson.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ