/

Deildu:

Auglýsing

Golfþing 2019 fer fram dagana 22.-23. nóvember n.k. í Laugardalshöll í Reykjavík.

Alls hafa 11 aðilar tilkynnt um framboð til stjórnarkjörs og verða 10 þeirra kjörnir í stjórn.

Haukur Örn Birgisson núverandi forseti GSÍ var sá eini sem bauð sig fram í embætti forseta og er hann því sjálfkjörinn.


Eftirtaldir bjóða sig fram til stjórnar GSÍ á golfþinginu 2019.

Hansína Þorkelsdóttir

<strong>Hansína Þorkelsdóttir <strong>

Á Golfþingi 2015 var ég kjörin í stjórn GSÍ. Síðan þá hef ég sinnt hlutverki ritara stjórnar og farið fyrir Útbreiðslunefnd GSÍ. Í útbreiðslunefnd höfum við unnið að framgangi og útbreiðslu golfíþróttarinnar með því að sinna kynningar- og markaðsmálum, þátttöku í verkefnum og viðburðum sem styðja við markmið í útbreiðslumálum og unnið að fjölgun kylfinga og gegn brottfalli úr golfhreyfingunni.

Staða golfs á Íslandi er góð, en mikilvægt er að nýta tækifærin sem bjóðast til að gera enn betur. Aldrei hafa kylfingar verið fleiri og íslenskir afrekskylfingar verið meira í sviðsljósinu á alþjóðlegum vettvangi. Með góðum árangri hefur jákvæð umræða um golf aukist á Íslandi. Kylfingar eru sjálfir öflugustu sendiherrar golfsins og þess vegna er nauðsynlegt að hlúa vel að hinum almenna kylfingi, á öllum aldursbilum og af báðum kynjum. GSÍ þarf að vera í góðri samvinnu við golfklúbba landsins til að vinna að þessum markmiðum í útbreiðslumálum.

GSÍ hefur stutt við ýmis verkefni sem styðja við útbreiðslu golfíþróttarinnar á Íslandi, til að mynda Stelpugolf, sem er orðinn að árlegum viðburði á höfuðborgarsvæðinu og við sjáum tækifæri til að horfa til landsbyggðarinnar með slíka viðburði. Við tókum þátt í heimsókn Anniku til Íslands í fyrra, þar sem goðsögnin heimsótti afrekskylfinga og hélt golfklínínk fyrir almenning í GKG og NK. Þá höfum við stutt við útgáfu á fræðsluefni svo sem reglubóka sem dreift hefur verið á klúbbana, Golfsýninguna sem nýjan viðburð á þessu ári, beina útsendingu frá Íslandsmótinu í golfi ásamt því að útbúa nýtt markaðs- og auglýsingaefni.

Í rúmlega 15 ár hef ég leikið golf af ástríðu sem meðlimur í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Ég er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hef lokið meistaragráðu í verkefnastjórnun (MPM) frá Háskólanum í Reykjavík. Ég starfa sem verkefnastjóri á sviði upplýsingatækni og vöruþróunar hjá Ferðaþjónustu bænda hf. Ég tel að með reynslu minni og áhuga mun ég geta lagt golfhreyfinunni frekari lið og unnið að verkefnum sem styðja við nýja stefnumótun Golfsambandsins.


Hörður Geirsson

<strong>Hörður Geirsson <strong>

Ég heiti Hörður Geirsson og býð mig fram til stjórnar GSÍ. Ég er fisktæknir og tölvunarfræðingur að mennt og starfa í eigin fyrirtæki í Kópavogi. Ég man ekki nákvæmlega hvenær ég gekk fyrst í golfklúbb en það fer líklega að halla í 50 árin. Ég hef alla tíð verið í Golfklúbbnum Keili, enda lengst af ævinnar búið í göngufæri frá Hvaleyrarvelli.

Í þónokkuð mörg ár hef ég verið í hópi dómara í Keili. Ég hef setið í dómaranefnd GSÍ frá stofnun hennar og held að nú í nóvember séu tíu ár síðan nefndin var sett á laggirnar. Ég var kosinn í stjórn GSÍ á síðasta Golfþingi og hef síðan verið formaður mótanefndar en hafði einnig setið í mótanefndinni í nokkur ár þar á undan. Frá 2017 hef ég einnig setið í reglunefnd R&A fyrir hönd Evrópska golfsambandsins.

Síðustu tvö ár hafa litast mjög af undirbúningi og innleiðingu nýrra golfreglna, á vettvangi R&A, við þýðingu golfreglnanna og við kennslu og kynningu á nýju reglunum.
Þótt það hafi komið niður á golfiðkuninni hafa störfin fyrir GSÍ verið mjög skemmtileg og gefandi. Ég tel að ég geti lagt golfhreyfingunni frekara lið, ekki síst á svið reglu- og mótamála, og því sækist ég eftir áframhaldandi setu í stjórn golfsambandsins.


Hulda Bjarnadóttir

Árið 2017 var ég kjörin í stjórn GSÍ en þá hafði ég tekið þátt í starfi Útbreiðslunefndar í eitt ár.

Fyrir þann tíma hafði ég sinnt ráðgjöf og tekið þátt í klúbbastarfi Nesklúbbins í rúman áratug.

Samhliða því að sinna áhugamálinu á sumrin, starfaði ég við fjölmiðla og síðar framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) og Krafts, Stuðningsfélags fyrir ungt fólk með krabbamein.

Áhuginn að starfa í þágu golfhreyfingarinnar kviknaði fyrir alvöru um það leyti sem ég aðstoðaði einn fremsta kvenkylfing landsins með ráðgjöf í markaðs, kostunar- og kynningarmálum. Hún var þá að byggja upp ferill sinn sem atvinnukylfingur og þá fann ég löngun til að styðja enn frekar við golf á Íslandi.

Um tveimur árum síðar var ég í forsvari fyrir komu Anniku Sörenstam til Íslands og þar leiddi eitt af öðru. Ég hef nú setið í stjórn GSÍ síðastliðin tvö ár og farið fyrir Útgáfunefndinni, sem ber m.a ábyrgð á golf.is, Golf á Íslandi og öðrum miðlum á vegum sambandsins. Á þessu þingi er lögð fram stefnumótun GSÍ til ársins 2027. Þar liggur fyrir m.a tillaga um að vinna með sérfræðingahópi í sértækum aðgerðum sem teljast styðja hvað mest við stefnuna í útgáfumálum. Það er mikilvægt að meta miðlun sambandsins reglulega og fylgja breyttri hegðun, straumum og stefnum. Ég tel að með reynslu minni geti ég lagt hreyfingunni lið og þannig tekið þátt í áframhaldandi þróun og uppbyggingu. Ég vil því bjóða fram krafta mína til áframhaldandi starfa í stjórn.


Jón B. Stefánsson

Ég er áhugamaður um golf og hef stundað íþróttina um árabil og tel að ég hafi ýmislegt til málanna að leggja og að ég geti komið að góðu gagni við uppbyggingu golfíþróttarinnar sem stjórnamaður GSÍ. Í gegn um árin hef ég sinnt ýmsum störfum tengdum íþróttum almennt bæði sem stjórnarmaður og áður fyrr sem þjálfari.

Árið 2016 var ég kjörinn í stjórn GR og hef setið í stjórninni síðan þá og haft af því ánægju og trúi að gang hafi verið af.

Árið 2017 var ég kjörinn í stjórn GSÍ og kom inn í stjórnina sem formaður LEK – Landssambands eldri kylfinga.

Á fyrri hluta ársins voru viðræður í gangi á milli GSÍ og LEK um sameiningu og að LEK yrði hluti GSÍ. Áformað var að stofna starfsnefnd hjá GSÍ – LEK – Landsnefnd eldri kylfinga og að ég sem formaður LEK byði mig fram til stjórnar GSÍ til að tryggja samfellu og mjúka lendingu sameiningarinnar. Þessi áform gengu eftir og er í dag starfandi LEK nefnd innan GSÍ og eru nefndarmenn þeir sömu og eru í gamla LEK og hef ég gengt þar formennsku. Sameiningin er ennþá í vinnslu og gert ráð fyrir að endanleg sameining verði á næsta 1-2 árum.

Ég hef áhuga á að halda áfram þessu starfi og ljúka endanlegri samningu LEK við GSÍ og býð mig því áfram til starfa í stjórn GSÍ.

Menntun og fyrri störf: Kennaraskóli Íslands, Íþróttakennaraskóli Íslands

Fjöldi námskeiða heima og erlendis tengd stjórnum og rekstri bæði lengri og skemmri námskeið heima og lengri við háskóla erlendis. Fyrrverandi skólameistari Tækniskólans og núverandi ráðgjafi og verkefnisstjóri nýbyggingar skólans. Starfaði áður við stjórnunarstörf heima og erlendis hjá Eimskip, Heklu og 66° Norður.


Jón Steindór Árnason

<strong>Jón Steindór Árnason <strong>

Golfíþróttin hefur fylgt mér stóran hluta ævinnar. Framan af fór mestur tími í að spila golf, en eftir að þeim stundum fór fækkandi færðist áherslan yfir í störf í þágu golfhreyfingarinnar.

Ég var fyrst kjörinn í stjórn GSÍ árið 2017. Fram að þeim tíma hafði ég átt sæti í stjórn Golfklúbbs Akureyrar sem varaformaður og gjaldkeri, auk þess að hafa setið í ýmsum nefndum á vegum þess góða félags. Samhliða þessu áhugamáli mínu hef ég starfað við fjárfestingar og sinnt stjórnunar- og sérfræðistörfum af ýmsum toga.

Frá því ég tók sæti í stjórn GSÍ hef ég farið fyrir afreksnefnd þar sem ég hef haft tækifæri til að kynnast og vinna með ákaflega hæfu fólki. Þar hef ég lagt áherslu á að styðja við það metnaðarfulla starf sem hefur verið unnið í afreksmálum á undanförnum árum, með það að markmiði að hægt verði að byggja ofan á þann frábæra árangur sem okkar fremstu kylfingar hafa náð.

Ég hef mikinn áhuga á að vinna áfram að hag golfhreyfingarinnar og býð mig þess vegna fram til áframhaldandi setu í stjórn GSÍ til næstu tveggja ára.


Kristín Guðmundsdóttir

<strong>Kristín Guðmundsdóttir<strong>

Kristín er með Cand.oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hún starfar í dag sem framkvæmdastjóri KG slf. auk þess að sitja í stjórnum nokkurra fyrirtækja.

Árið 2011 gegndi hún starfi forstjóra Skipta hf. en þar á undan var Kristín fjármálastjóri Símans hf. og Skipta hf. 2003 – 2010 og fjármálastjóri Granda hf. 1994 – 2002. Kristín starfaði einnig til fjölda ára sem stjórnandi hjá Íslandsbanka og Iðnaðarbanka Íslands.

Kristín hefur starfað í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja og samtaka þ.á.m Skjá miðla ehf., Fasteignafélagsins Jörfa ehf., Sjóminjasafnsins, Farsímagreiðslna ehf., Sparisjóði Vestmannaeyja 2011-2013 í stjórn Mílu ehf. 2007-2011 og í stjórn Símans hf. 2007-2011, Verslunarráðs Íslands, Verðbréfaskráningar Íslands hf. og Lífeyrissjóðs verkstjóra. Kristín var forseti Rótarý Reykjavík Miðborg 2013-2014. Hún var í stjórn Straums fjárfestingabanka 2013-2015 og í stjórn Kviku banka frá 2015-2016 og 2018.

Síðustu ár hefur Kristín starfað í stjórn N1 og Festi. Hún situr einnig í stjórn Farice, stjórn RVK studios, og í fjárfestingarráði Eyris sprota.

Kristín hefur starfað sem gjaldkeri í stjórn Golfsambands Íslands frá 2013 og áður sat hún í stjórn Golfklúbbs Reykjavíkur.

Ástríðufull áhugamál: Barnabörnin og golf.


Margeir Vilhjálmsson

<strong>Margeir Vilhjálmsson<strong>

Margeir Vilhjálmsson (47) var framkvæmdastjóri GR á árunum 1998-2006. Hann hóf störf hjá GR árið 1995 að loknu námi í golfvallafræðum í Skotlandi.

Margeir hafði umsjón með uppbyggingu Korpúlfsstaðavallar áður en hann gerðist framkvæmdastjóri hjá GR.

Margeir var aðalhugmyndasmiður og stýrði uppbyggingu á stærsta golfæfingasvæði landsins, Básum.

Margeir gerði tilraun til að byggja alþjóðlegan golfvöll, hannaðan af Nick Faldo á söndunum austan Þorlákshafnar. Úr því varð ekki. Sumarið 2007 var Margeir framkvæmdastjóri GKG, þegar Leirdalsvöllur var opnaður. Þar fyrir utan hefur Margeir starfað fyrir Golfklúbb Suðurnesja, Golfklúbb Þorlákshafnar og hannaði nýrri helming golfvallarins í Öndverðarnesi. Margeir hefur frá árinu 2008 ritað greinaflokkinn Kylfukast á vefmiðlinum Kylfingur.is og var í 10 ár formaður SÍGÍ, Samtaka Íþrótta- og golfvallastarfsmanna á Íslandi. Er nú í stjórn GR, auk þess að stunda nám í golfkennaraskóla PGA.

„Áhugi minn á starfsemi GSÍ snýr fyrst og fremst að því að sambandið setji fullan þunga að koma golfi á sama stall og aðrar íþróttagreinar hafa hjá hinu opinbera. Það er óásættanlegt að næst stærsta íþróttahreyfing landsins þurfi enn að búa við að vera álitin íþrótt sérhagsmunahópa og iðkendur þurfi að standa að uppbyggingu og viðhaldi mannvirkja, þveröfugt við það sem aðrar íþróttagreinar þurfa að gera. Sérstaklega er þetta mikilvægt í smærri sveitarfélögum þar sem golfklúbbar hafa færri félagsmenn. Þar fyrir utan má það ekki gleymast að golf er íþrótt og það þarf að vera kraftur í íþróttastarfseminni til að byggja upp kylfinga framtiðarinnar.“

„Mikil umræða hefur einnig verið í gegnum árin um GSÍ kortin. Það er alveg ljóst að ekki er sátt um núverandi fyrirkomulag, en það er ekki þar með sagt að það sé ekki hægt að gefa út GSÍ kort. Málið snýst um að það gengur illa að aðal söluvara golfklúbbanna sem er aðgangur að golfvellinum,vallargjaldið sé gefið. Það á aldrei að gera. Á þessu er til góð lausn sem kynnt verður á Golfþinginu.“


Ólafur Ingvar Arnarson

<strong>Ólafur Ingvar Arnarson <strong>

Ég Ólafur Ingvar Arnarson hef ákveðið að bjóða mig fram til stjórnar GSÍ.

Framboð nýrra aðila til stjórnarstarfa í sérsamböndum tryggir endurnýjun á stjórnarsetu, áherslubreytingar og aðhald.

Barna, unglinga og afrekstarf er mér hugleikið og hef ég mikinn metnað í að koma að þeim málum hjá GSÍ ásamt öðrum málum. Eigum við hjónin ungling sem er afrekskylfingur hjá GKG og hann er einnig í afrekshóp GSÍ, hef ég þar af leiðandi mikinn áhuga á að koma að þessum málum. Mun ég að sjálfsögðu sinna öðrum málefnum GSÍ af heilum hug.

Ég hef ávallt hafti mikinn áhuga á félagsmálum og starfaði ég fyrir knattspyrnufélagið Fram frá 1996-2016. Meðal annars sem formaður Handknattleiksdeildar Fram tímabilið 2001-2005 og tímabilið 2010-2012. Einnig var ég formaður Aðalstjórnar Knattspyrnufélagsins Fram 2012-2016. Tel ég mig hafa töluverða reynslu af stjórnarsetu og félagsstörfum.

Ég er félagsmaður í GKG í dag.


Páll Sveinsson

<strong>Páll Sveinsson <strong>

Páll Sveinsson heiti ég og býð mig fram til sjórnarsetu hjá Golfsambandi Íslands á Golfþingi GSÍ í nóvember 2019. Ég er 45 ára aðstoðaskólastjóri í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, giftur Arndísi Mogensen og þriggja barna faðir. Ég er kennararmenntaður með meistaragráðu í stjórnun menntastofnanna frá Háskóla Íslands.

Ég hóf að leika golf árið 2004 er ég gekk í Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar en gekk svo í Golfklúbb Hveragerðis 2007 er við fjölskyldan fluttum þangað. Ég tók við formennsku barna- og unglinganefndar GHG 2008 og gegndi starfi ritara í stjórn GHG til ársins 2014. Á þessum árum óx barna- og unglingastarfi GHG fiskur um hrygg, klúbburinn stóð ötullega að eflingu golfíþróttarinnar í Hveragerði. Ég tók þátt í því að stofna Suðurlandsmótaröð barna og unglinga sem var virk árin 2010 til 2015 og mikil innspýting í barna og unglingastarf á Suðurlandi. Einnig tók ég þátt í að koma á verðlaunakerfi fyrir unga kylfinga sem hlutu golfferðir til Bandaríkjanna í verðlaun fyrir ástundun, framkomu og framfarir.

Haustið 2014 gekk ég í golfklúbb Selfoss við búferlaflutninga þangað og ég tók við formennsku barna- og unglinganefndar GOS 2015. Ári síðar gekk ég í stjórn klúbbsins og hef starfað þar sem meðstjórnandi síðan. Þar hefur mikil uppbygging átt sér stað síðustu árin, bæði í innra og ytra starfi. Vallarframkvæmdir hafa verið áberandi síðustu misserin en efling innra starfsins hefur náð miklu flugi síðustu ár. Þar má til að mynda nefna heils árs æfingaaðstöðu en klúbburinn hefur á síðustu árum gjörbyllt aðbúnaði til æfinga með því að koma upp glæsilegri inniaðstöðu með æfingamottum, púttflöt og golfhermi. Þetta hefur orðið til þess að iðkendum í barna- og unglingastarfi klúbbsins hefur fjölgað, afrekskylfingar orðið til og árangur þeirra verið eftirtektarverður á landsvísu.

Auk þess að hafa ástríðu fyrir barna– og unglingastarfi golfíþróttarinnar er mér einnig lýðheilsuþáttur íþróttarinnar verulega hugleikinn. Ég hef innleitt Heilsueflandi grunnskóla verkefni Landlæknisembættisins í tvo grunnskóla á Suðurlandi og er í stýrihópi sem vinnur að innleiðingu Heilsueflandi samfélags í Árborg. Engin íþrótt hefur sama slagkraft í lýðheilsueflingu og golfíþróttin og er það mín skoðun að þar erum við íslendingar sannarlega vel í sveit sett hvað varðar aðgengi og möguleika á frekari eflingu íþróttarinnar.

Ég býð mig fram til stjórnarsetu hjá Golfsambandi Íslands þar sem ég tel að mín ástríða fyrir golfíþróttinni ásamt reynslu geti orðið til gagns í framtíðar stefnumótun og vinnu að enn frekari framgangi íþróttarinnar.


Viktor Elvar Viktorsson

<strong>Viktor Elvar Viktorsson <strong>

Ég er 42 ára gamall skagamaður sem byrjaði í golfi 11 ára gamall á Garðavelli sem þá var 9 holur. Á Akranesi er einnig önnur íþrótt sem nokkrir hafa heyrt af og heillaði hún meira á mínum yngri árum. Því var gert hlé á golfiðkun í kringum 15 ára aldurinn og „hin” íþróttinn stunduð.

Líklega er það ein af mínum verstu ákvörðunum fram til þessa a.m.k. En eftir að hinni íþróttinni sleppti í kringum tvítugt hefur golfið átt hug minn allann þegar kemur að íþróttum.

Ég var í GK og GKG byrjun aldarinnar en eftir að ég flutti aftur á Skagann árið 2004 hef ég verið í GL. Ég sat í stjórn GL frá árinu 2005 til ársins 2010 þar af var ég formaður klúbbins frá árinu 2008-2010.

Ég var mótsstjóri Íslandsmótsins í golfi árið 2015 sem fram fór á Garðavelli á Akarnesi. Ég hef verið í mótanefnd GL frá árinu 2010 til ársins 2018 og ég aðstoðaði við þjálfun barna og unglinga hjá GL sumarið 2017. Ég hef verið í mótanefnd GSÍ undanfarin 2 ár auk þess sem ég sótti Landsdómarapróf í golfi nú í vor og hef því haft þann ágæta titil frá því í vor. Þannig að ég hef snert á nokkrum flötum heimi golfsins á undanförnum árum.

Ég er kvæntur Ingibjörgu Stefánsdóttur og eigum við 2 börn. Öll fjölskyldan stundar golf og hafa undanfarin sumur farið að mestu í það að skutlast á milli golfvalla þar sem börnin hafa verið við keppni. Óhjákvæmilega hef ég því mikin áhuga á barna og unglingastarfi og tel að það sé grunnurinn að því að halda úti þróttmiklu og góðu starfi innan golfhreyfingarinnar almennt. Því með góðu barna og unglingastarfi ölum við upp framtíðar kylfinga sem bæði verða okkar afrekskylfingar sem og almennir kylfingar, en báðir hópar eru nauðsynilegir golfhreyfingunni á Íslandi.


Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

<strong>Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir <strong>

Ég hef alla tíð haft mikla ástríðu fyrir íþróttum. Ég spilaði handbolta lengi, fyrst með ÍR og síðan FH, var fyrsta konan til að dæma handbolta í efstu deildum karla og kvenna og stundaði hestamennsku frá barnæsku. Ég byrjaði að leika golf árið 2011 og hef alla tíð síðan verið hugfangin af íþróttinni. Ég er ein af þeim sem hef margoft sagt við fólk hina klassísku setningu – af hverju byrjaði ég ekki fyrr, en hef jafnhliða undirstrikað að það sé aldrei of seint að byrja. Ég hef ávallt verið félagsmaður í Golfklúbbnum Keili þar sem ég, fjölskylda mín og vinir leikum flesta okkar golfhringi.

Árið 2015 var ég kjörin í stjórn Golfsambands Íslands og hef setið í stjórninni frá þeim tíma. Frá því ég tók fyrst sæti í stjórn GSÍ, hef ég átt sæti í afreksnefnd enda hafa afreksmál mér alltaf verið hugleikin, hvort sem er í golfi eða handknattleik. Síðastliðin tvö ár hef ég gegnt formennsku í laganefnd GSÍ, sem er stjórn sambandsins innan handar þegar kemur að setningu reglugerða, meðferð lagalegra mála innan hreyfingarinnar og lagabreytingum. Áhrif íþrótta á fjölskyldu og lýðheilsu hafa lengi heillað mig og af þeim sökum hef ég leitt stefnumótunarhóp sambandsins á þessum sviðum.

Á starfsferli mínum hef ég haft mikil tengsl við íþróttastarf, ekki síst þegar ég starfaði sem menntamálaráðherra á árunum 2003-2009, en íþrótta- og æskulýðsmál heyra undir starfssvið ráðuneytisins.

Vegna víðtækrar reynslu minnar í leik og starfi tel ég mig getað orðið golfhreyfingunni að gagni á komandi árum og gef ég af þeim ástæðum áfram kost á mér til setu í stjórn GSÍ.

author avatar
Sigurður Elvar

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ