/

Deildu:

Auglýsing



Kæri kylfingur


Loksins er golftímabilið farið af stað og það af fullum þunga.

„Sláðu í gegn þó veðrið geri það ekki“ var eitt slagorða í auglýsingaherferð Golfsambandsins sem ætlað er að auka þátttöku kvenna í golfi og á það vel við hjá öllum á þessum bestu og verstu.

Kylfingar á Norður og Austurlandi hafa þó fengið að njóta sín úti á velli í rjómablíðu og stuttbuxum það sem af er sumri. Og ánægjulegar fréttir bárust á dögunum af vígslu nýs golfskála á Húsavík og aðlögun á vellinum. Þá var einnig tilkynnt um samstarf Golfklúbbs Akureyrar og Golfklúbbs Siglufjarðar, en slíkt samstarf lofar góðu til að tryggja áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu.
Og tímabilið er jú löngu hafið hjá golfklúbbum á Reykjanesi, Þorlákshöfn og hjá þeim sem gátu opnað strax í apríl/maí. Þeir nutu sannarlega góðs af golfþyrstum kylfingum sem byrjuðu að viðra sig stuttu eftir páska.

Annars hefur veturinn verið nýttur vel í samtöl og fundi við golfklúbba. Á fundum okkar um landið var afar ánægjulegt að sjá uppbygginguna sem er að eiga sér stað. Ljóst er að stjórnir golfklúbba um land allt eru að styðja við áframhaldandi uppbyggingu og enn fleiri farnir að bjóða heilsárs aðgengi að æfingaaðstöðu. Golfhreyfing í Íslandi mun því án efa stækka og eflast enn frekar. Auk þess heyrum við af því að nýliðanámskeið eru betur sótt en oft áður og þannig má segja að tímabilið fari vel af stað þó ljóst sé að áskoranir tengdar gróðurþroska bíða enn nokkurra golfklúbba á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrstu mótum sumarsins lokið

Tímabilið byrjaði brösuglega hér heima vegna veðursins og hefur þurft að flytja til mót eða fella niður. Fyrsta mót Unglingamótaraðar GSí fór fram hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar á Hlíðavelli og Bakkakoti dagana 26. -28. maí. Um síðustu helgi lauk svo Leirumótinu á Hólmsvelli. Var það fyrsta mót tímabilsins á stigamótaröð GSÍ 2023 og lauk því með sigri Ragnhildar Kristinsdóttur úr GR og Sigurðar Arnar Garðarsonar úr GKG. Mótið telur til stiga á heimslista áhugakylfinga en bæði áhugamenn og atvinnumenn höfðu keppnisrétt á þessu móti.
Landsamtök eldri kylfinga náðu einnig að keyra fyrsta mótið á Icewear Öldungamótaröðinni þar sem tæplega 200 keppendur tóku þátt.


Mótaröð GSÍ nær hápunkti í Garðabæ um miðjan ágúst


Líkt og á undanförnum árum er mótaskrá Golfsambands Íslands fjölbreytt og ætlað öllum aldursflokkum. Mótin, sem eru rúmlega 20 í ár, eru samstarfsverkefni Golfsambands Íslands, golfklúbba landsins og traustra samstarfsaðila í golffjölskyldunni. Sum þeirra fyrirtækja hafa stutt golfíþróttina í til margra ára og vil ég þakka Icelandair, Íslandshótelum, KPMG, Stefnir og BL. Og nú síðast bættist Ölgerðin í golffjölskylduna með Kristal í fararbroddi og bjóðum við það fyrirtæki hjartanlega velkomið í fjölskylduna. Ánægjulegt að deila því um leið að um 200 konur mættu í svokallað Kristalsgolf í Básum, ætlað nýliðum.

Mótaskrána má nálgast hér og nær mótaröðin hápunkti 10. – 13. ágúst er Íslandsmótið í golfi fer fram í Garðabæ, nánar tiltekið á Urriðavelli hjá Golklúbbnum Oddi.


Golftímabilið lengt fyrir landsliðs- og atvinnukylfinga


Veðrið þessa tíðina styður enn frekar við þá ákvörðun stjórnar GSÍ sem ákvað fyrir áramótin að koma upp æfingabækistöð á Spáni fyrir íslenska landsliðs- og atvinnukylfinga. Samstarfssamningur þess efnis var undirritaður á síðasta ári og hefur fyrsti æfingahópurinn komið saman á á Hacienda Del Alamo svæðinu á austurströnd Spánar. Sjá hér.

Markmið samstarfsins er að veita íslenskum landsliðs- og atvinnukylfingum hagkvæm og spennandi tækifæri að æfa að vetrarlagi og gefst þeim kostur að halda á svæðið á eigum vegum til viðbótar við skipulagðar æfingaferðir. Annars er sífellt meira að gera hjá afreks- og atvinnukylfingunum okkar um þessar mundir og hvetjum við ykkur til að fylgjast með þeim á golf.is og fá fréttir og aðgang að úrslitum móta.


Metfjöldi útskrifaður sem PGA barna – og nýliðakennarar í golfi

Í takt við aukinn iðkendafjölda í golfi á Íslandi var ánægjulegt sjá PGA á Íslandi útskrifa 59 PGA barna og nýliðakennar á dögunum. Langflestir úr þessum hópi munu halda áfram í 3 ára PGA kennaranám. Eftirspurn er eftir golfkennurunum og hefur PGA á Íslandi séð um menntun golfkennara á Íslandi frá árinu 2006. Vorið 2021 bættust 18 nýir PGA kennarar með fullgilt PGA golfkennarapróf í hóp þeirra sem fyrir eru hér á landi. Frá árinu 2006 hafa alls 60 golfkennarar útskrifast á Íslandi og eiga samtökin þakkir skilið fyrir að halda úti öflugu starfi og bjóða reglulega upp á kennaranám hérlendis.


Golfdagar 2023 á Suður- og Austurlandi

GSÍ hefur stutt markvisst við PGA nemendur utan af landi sem hafa áhuga að sækja nám í PGA skólanum enda mikilvægt að byggja upp enn öflugra starf í þágu nýliðunar og fjölgunar kylfinga utan höfuborgarsvæðisins. Því hefur Golfsambandið í samstarfi við PGA og KPMG boðið upp á Golfdaga víðsvegar um landið og verður engin undantekning þar á í sumar. Þann 16. júní verður fyrsti Golfdagurinn haldinn á Silfurnesvelli á Höfn í Hornarfirði og síðar í sumar verða golfdagar á Suður- og Austurlandi kynntir.

Frá Silfurnesvelli á Höfn í Hornafirði. Mynd/seth@golf.is

Golfklúbbar styðja við íþrótta og lýðheilsustefnur

Golf sem almenningsíþrótt hefur skíra og sterka skírskotun inn í lýðheilsu landsins og höfum við slegið þann tón undanfarið. Samtöl golfklúbba við sveitafélög í þeim efnum eru sannarlega að aukast, enda hafa mörg sveitafélög skilgreint sig sem heilsueflandi samfélög. Fundur í samstarfi við Háskólann í Reykjavík var haldinn nýlega og þar spurðum við „Af hverju er golfíþróttin mikilvæg fyrir lýðheilsu landsins og hvernig fellur hún inn í íþróttastefnu ríkis- og sveitafélaga?“

Hér má heyra ráðherra heilbrigðismála fara yfir það.


Ég hvet þig kæri kylfingur til að fylgjast með fjölbreyttu starfi golfhreyfingarinnar. Auðvelt er að fá fréttir á samfélagsmiðlum GSÍ; Facebook, Twitter, Youtube, Instagram.

Að lokum vil ég hrósa og þakka öllu því fólki sem stendur að uppbyggingu golfíþróttarinnar á Íslandi. Framboð golfvalla er hreint stórkostlegt og sjálfboðaliðastarf í hverjum og einasta golfklúbbi er aðdáunarvert.

Við vonumst nú til að sem flestir kylfingar njóti sín úti á velli í sumar.

Góða skemmtun!

Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ