Auglýsing

Mark Bull er í afreksteymi GSÍ sem Jussi Pitkänen afreksstjóri GSÍ stýrir.

Bull er í fremstu röð á sínu sviði en hann hefur sérhæft sig í lífaflfræði kylfinga. Bull er með doktorspróf í íþróttafræðum frá háskólanum í Birmingham á Englandi. Þar að auki er Bull menntaður PGA-kennari og á meðal viðskiptavina hans eru margir af fremstu kylfingum heims.

Bull var hér á landi nýverið þar sem hann hitti kylfinga í afrekshóp GSÍ.  Þar á meðal Ragnhildi Kristinsdóttur (GR) – Íslandsmeistara í holukeppni 2018.

Hann hefur safnað gögnum um íslenska leikmenn sem hafa farið í gegnum ýmis próf og æfingar hjá Bull. Niðurstöðurnar úr þessum mælingum eru síðan nýttar á margan hátt til þess að efla íslenska leikmenn enn frekar.

Viðtal við Mark Bull var birt í 5. tbl. Golf á Íslandi 2017 og er það að finna hér fyrir neðan.

„Við höfum unnið með ýmsa þætti í heimsókn minni til leikmanna hér á Íslandi. Við mælum hreyfingu leikmanna í golfsveiflunni ítarlega með þrívíddartækni. Leikmenn eru með mismunandi hreyfingar og hreyfigetu. Við vinnum út frá gögnum sem aflað er með ýmsum hætti og markmiðið er að finna út hvað hentar best fyrir hvern og einn,“ segir Bull í samtali við Golf á Íslandi.

„Þetta er allt gert í nánu samstarfi við þjálfarana sem eru með þessa leikmenn. Við leggjum síðan fram tillögur að æfingum sem eru allar einstaklingsmiðaðar. Fyrirbyggjandi aðgerðir eru það sem við leggjum mesta áherslu á. Það er einnig mikilvægt að leikmennirnir fái betri skilning á því af hverju þeir hreyfa sig með ákveðnum hætti. Við erum öll mismunandi og þegar við fáum upplýsingar úr þessum prófum þá er hægt að finna leiðir sem henta hverjum og einum.“

Bull segir að með réttum aðferðum og réttri hugsun sé hægt að ná langt – þrátt fyrir ýmsar hindranir.

„Hér á Íslandi er t.d. ekki hægt að leika golf við kjöraðstæður í nokkra mánuði yfir vetrartímann. Ég veit að Íslendingar hafa sætt sig við þá staðreynd og eitt af mínum hlutverkum er að sýna hvað hægt er að gera í staðinn til þess að þróa hæfileikann til að slá golfboltann. Hér er frábær íþróttaaðstaða og engin hindrun fyrir kylfinga að þróa með sér aðra hæfileika sem nýtast síðan í golfið. Kylfingar eru íþróttamenn og með því að stunda t.d. fjölbreytta hreyfingu yfir vetrartímann er hægt að þróa golfhæfileikana. Ég er talsmaður þess að börn og unglingar fái tækifæri að prófa sig áfram í mörgum íþróttum. Þannig þróa þau með sér nýja hæfileika sem þau geta nýtt sér í þeirri íþrótta sem þau velja.“

Eins og áður segir er sérfræðisvið Bull lífaflfræði. Hann bendir á að frábærir íþróttamenn á borð við Tiger Woods hafi lent í meiðslum sem hafa skaðað feril hans. „Það skiptir mestu máli að mínu mati er að kylfingar hreyfi sig með þeim hætti að þeir geti haldið því áfram út ferilinn. Ég þekki Tiger Woods ekki en hann er frábær íþróttamaður og hann hefur valið að hreyfa sig í golfsveiflunni með ákveðnum hætti. Ég vinn út frá þeirri hugmyndafræði að golfsveiflan eigi að vera eðlileg hreyfing fyrir kylfinginn. Okkur tekst vel upp ef kylfingar geti endurtekið þessa hreyfingu án þess að eiga á hættu að meiðast.“

Bull leggur áherslu á að einstaklingsmiðuð þjálfun sé grunnurinn. „Sumir eru einfaldlega góðir í íþróttum og virðast hafa lítið fyrir því að ná langt. Á meðan aðrir þurfa að hafa mikið fyrir því. Spurningin sem við þurfum að svara þegar kemur að því að ráðleggja kylfingum er þessi: Er þetta til bóta fyrir kylfinginn? Sumir þurfa að styrkja sig, aðrir þurfa meiri liðleika, andleg þjálfun gæti verið lykilþáttur fyrir þann þriðja. Við erum öll mismunandi og það er eitt af verkefnum mínum með íslenska afrekskylfinga að kortleggja það, afla gagna, vinna úr þeim og gera áætlanir út frá þeim í samvinnu við þjálfarana hér á landi,“ sagði Mark Bull.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ